Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 14:29:41 (9510)

2004-07-07 14:29:41# 130. lþ. 134.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir ágæta ræðu. Hann kaus reyndar að fjalla ekki um efni þess frv. sem er til umræðu enda telur hann það ekki teljast til meginatriða málsins heldur fyrst og fremst ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég kýs reyndar að ræða um það mál sem er á dagskrá, þ.e. frv. ríkisstjórnarinnar um eignarhald á fjölmiðlum.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson lýsti því yfir, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að það frv. sem hér er til umræðu væri í rauninni efnislega það sama og við ræddum á hinu háa Alþingi í maímánuði.

Þann 3. maí, við 1. umr. þess máls, tók hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson til máls og gerði athugasemdir við það frv. sem þá lá fyrir. Við þekkjum efnisatriði þess frv. eins og það var þegar það var lagt fram og sömuleiðis þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á þeim lögum nú, þ.e. að markaðsráðandi fyrirtækjum verði heimilað að eiga allt að 10% í ljósvakamiðlum. Við þá umræðu gerði hv. þm. athugasemd við það að markaðsráðandi fyrirtæki og sterk fyrirtæki mættu ekki eiga eina krónu í ljósvakamiðlum. Hann sagði, með leyfi forseta, í þeirri ræðu:

,,Ég teldi miklu ásættanlegra að stór og öflug fyrirtæki mættu eiga allt að 30% í útvarpsfyrirtæki og að hámarkseignaraðild hvers fyrirtækis væri 15% eða 10%.`` --- Að hámarkseignaraðild hvers fyrirtækis væri 15% eða 10%.

Nú liggur þetta frv. frammi. Það gerir ráð fyrir því að hámarkseignaraðild fyrirtækja sem eru í markaðsráðandi stöðu verði 10%. Ég geri ráð fyrir því að eins velmeinandi og vel gerður maður og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson er standi við fyrri orð sín og þess vegna langar mig til þess að varpa fram þeirri spurningu hvort hann geti, í ljósi fyrri ummæla sinna, ekki lýst yfir stuðningi við þetta tiltekna ákvæði þess frv. sem við erum að ræða nú.