Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 14:32:19 (9511)

2004-07-07 14:32:19# 130. lþ. 134.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fer nú að verða skrýtin lenska hjá stjórnarandstöðunni að svara ekki þeim fyrirspurnum sem beint er til hennar. Ég vil aftur benda á það sem kom fram í umræðu við framlagningu fjölmiðlafrumvarpsins á sínum tíma og að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson víkur sér undan að tala efnislega um það frv. sem við erum hér að ræða.

Hv. þm. sagði ekki bara það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nefndi áðan heldur sagði hann, með leyfi forseta, þegar hv. þm. gagnrýndi það að einungis væri tveggja ára fyrirvari hjá fyrirtækjum til þess að laga sig að nýju umhverfi:

,,Ég tel að tíminn verði í fyrsta lagi að vera lengri og í öðru lagi tel ég óeðlilegt að mönnum sé algjörlega ýtt út úr atvinnurekstrinum. Varðandi útfærslu á þessum atriðum væri spurning hvort trappa mætti þetta niður og á lengri tíma. Ég teldi miklu ásættanlegra að stór og öflug fyrirtæki mættu eiga allt að 30% í útvarpsfyrirtæki og að hámarkseignaraðild hvers fyrirtækis væri 15% eða 10%.``

Ég get ekki séð betur en að í því frumvarpi sem til umfjöllunar er í dag sé fullkomlega komið til móts við þau sjónarmið sem hv. þm. setti fram í ræðu sinni við framlagningu frumvarps um fjölmiðlalögin hér í vor og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var jafnframt efnislega sammála þessu.

Tíminn hefur verið lengdur og hámarkseignaraðild hvers fyrirtækis hefur verið hækkuð í 10%. Þetta kalla ég að koma til móts við stjórnarandstöðuna og þetta kalla ég að rétta fram sáttarhönd sem stjórnarandstaðan ætlar núna að slá á.

Ég hlýt að draga þá ályktun að ef hv. þm. kemur ekki hér upp og svari þessu þá sé hann efnislega sammála því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar fyrst og fremst.