2004-07-07 14:35:09# 130. lþ. 134.2 fundur 1012. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum# frv., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra las hér upp forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman til framhaldsfunda fyrir tveimur dögum. Þar greindi hann Alþingi frá því að forseti hefði skrifað forsetabréf þar sem hann greindi frá að forsætisráðherra hefði tjáð sér að nauðsyn bæri til að kveðja Alþingi saman til þess að fjalla um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem samkvæmt stjórnarskránni skal fara fram í framhaldi af synjun forseta.

Í framhaldi af þessu, frú forseti, mæli ég hér fyrir frumvarpi til laga um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu sem á að fara fram um gildi laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum. Flutningsmenn þessa frumvarps eru formaður Samfylkingarinnar, formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og formaður Frjálslynda flokksins. Stjórnarandstaðan stendur sameinuð um þetta frumvarp.

Frumvarpið er ákaflega einfalt í sniðum. Þar er gerð grein fyrir því að umrædd lög skuli lögð undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Þar er frá því greint hvenær við teljum að þjóðaratkvæðagreiðslan eigi að fara fram. Okkar tillaga er laugardagurinn 14. ágúst síðar á þessu ári. Það er í samræmi við það samkomulag sem við töldum að gert hefði verið við stjórnarflokkana á margfrægum fundi í Stjórnarráðinu.

Í þessu frumvarpi er frá því greint hverjir eigi að hafa atkvæðisrétt við þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og það er þannig byggt upp að í því eru almennt helstu sérákvæði sem mæla þarf fyrir um í lögum vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Að öðru leyti er það tillaga okkar með frumvarpinu að miðað verði við að um þjóðaratkvæðagreiðsluna gildi ákvæði laga um kosningar til Alþingis. Í frumvarpinu er jafnframt greint frá tilhögun utankjörstaðaatkvæðagreiðslu og gerð tillaga að atkvæðaseðli. Þessi tilhögun er ekki út í bláinn, frú forseti. Þetta er að meginstofni til byggt á þeim lögum sem samþykkt voru 1944. Þar komu þessi efnisatriði fram.

Megingreinin í frumvarpinu er 6. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Einfaldur meiri hluti gildra atkvæða ræður úrslitum.``

Þetta er auðvitað það efnisatriði þar sem ágreiningurinn liggur milli stjórnarandstöðunnar og ríkisstjórnarinnar. Við teljum hins vegar, eftir að hafa farið yfir þetta mál og fengið sérfræðinga í lið með okkur, að það liggi alveg ljóst fyrir með hvaða hætti eigi að fara að þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Við teljum að á sínum tíma hafi reglan í 26. gr. stjórnarskrárinnar, sem forseti Íslands byggði sína synjun á, verið þrautrædd. Við teljum engan vafa leika á því hver vilji þeirra var sem settu stjórnarskrána á þeim tíma. Það er niðurstaða okkar að það sé ótvírætt að það hafi verið vilji stjórnarskrárgjafans og þeirra sem sömdu líka frumvarpið að stjórnarskránni að einfaldur meiri hluti þeirra sem tækju þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu réði úrslitum.

Við flutningsmennirnir teljum að þetta komi skýrum orðum fram í ákvæðinu sjálfu, í skýringum við ákvæðið og líka í umræðum á Alþingi árið 1944, meðal annars í ræðum þáverandi dómsmálaráðherra og forsætisráðherra.

Með þessu frumvarpi er birt fylgiskjal sem er lögfræði\-álit tveggja hæstaréttarlögmanna, Hróbjarts Jónatanssonar og Daggar Pálsdóttur. Við beindum til þeirra þeim spurningum hvort heimilt væri stjórnarskránni samkvæmt að setja í lög einhvers konar höft á kosningarrétt landsmanna í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Niðurstaðan í vönduðu áliti þeirra, sem hv. alþingismenn geta lesið í fylgiskjali með frumvarpinu, var afdráttarlaust neitandi. Það var niðurstaða þeirra að það væri í bága við stjórnarskrána að setja skilyrði um lágmarksþátttöku eða aukinn meiri hluta.

Við flutningsmennirnir, við í stjórnarandstöðunni, teljum að í þessu felist meginkjarni þessa máls. Við teljum sem sagt að engar heimildir séu til þess að setja í lög skilyrði og þröskulda sem rýra rétt borgaranna varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna og mismuna kjósendum að því er varðar innbyrðis vægi atkvæða, samþykkjenda annars vegar og synjenda hins vegar.

Synjun forsetans byggir á 26. gr. stjórnarskrárinnar. Meginregla þess ákvæðis er að frumvarp sem forseti synjar og hefur til bráðabirgða öðlast lagagildi skuli leggja svo skjótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu. Eins og ég hef rakið þá kemur fram í ákvæðinu, í skýringum, að það er ekki greint frá nokkurs konar skilyrðum eða heimildum til þess að setja kosningahöft og þar eru engar vísbendingar heldur um að það sé heimilt.

Ég hef líka greint frá því að skilningur þeirra sem fjölluðu um þetta ákvæði í umræðum á Alþingi féll augljóslega að þessari niðurstöðu. Dómsmálaráðherrann sem ég hef hér áður vitnað til í dag, Einar Arnórsson, sagði til dæmis í umræðum á Alþingi að lög sem forseti synjaði staðfestingar skuli bera undir þjóðaratkvæði og ef meiri hluti samþykkir þau ekki skuli þau falla úr gildi. Við flutningsmennirnir þrír teljum þess vegna ótvírætt að það hafi verið áformin að einfaldur meiri hluti þeirra sem tækju þátt í lögbundinni þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 26. gr. réði niðurstöðu.

Þetta teljum við að skýrist enn frekar þegar önnur ákvæði stjórnarskrárinnar sem með einhverjum hætti fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur eru skoðuð. Fyrir utan 26. gr. er um að ræða þrjár aðrar greinar. Í 11. gr. er fjallað um skilyrði þess að forseta verði vikið frá eftir að þrír fjórðu þingmanna hafa samþykkt ályktun um það.

Þar segir, með leyfi forseta:

,,Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meiri hluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, ...``

Í 79. gr. stjórnarskrárinnar segir að þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi til að staðfesta ef Alþingi hefur samþykkt breytingar á kirkjuskipan ríkisins.

Í ákvæðinu segir að þá skuli, með leyfi forseta:

,,... leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, ...``

Það er athyglisvert að í frumvarpi stjórnarskrárinnar er sérstaklega tekið fram að ekki sé ástæða til þess að skýra þessa grein. Af því er varla hægt að draga aðra ályktun en að tilgangurinn hafi verið sá að einfaldur meiri hluti þeirra kosningarbæru manna sem þátt tækju í þjóðaratkvæðagreiðslunni ráði niðurstöðunni, ella hefði það verið sérstaklega tekið fram. En það vill svo til, frú forseti, að það er einmitt gert sérstaklega í annarri grein stjórnarskrárinnar, í 81. gr., þar sem fjallað er um þjóðaratkvæðagreiðslu sem á sínum tíma einskorðaðist við lýðveldisstjórnarskrána sjálfa. Þar bregður svo við að gerð er krafa um að meiri hluti allra kosningarbærra manna í landinu þyrfti að samþykkja stjórnarskipunarlögin svo að þau gætu öðlast gildi. Þarna er því tekið sérstaklega fram að til að lögin tækju gildi yrði meiri hluti allra sem á kjörskrá eru að samþykkja lögin.

Þegar 26. gr. um málskotsrétt forseta er því borin saman við þau önnur ákvæði stjórnarskrárinnar sem fjalla um þjóðaratkvæði teljum við að það liggi ljóst fyrir að fyrirmæli greinarinnar er ekki hægt að skýra öðruvísi en svo að aðeins sé krafist einfalds meiri hluta þeirra kjósenda sem notfæra sér rétt sinn til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ef ætlunin hefði verið að setja sérstök skilyrði um kosningahöft, svo sem um lágmarksþátttöku eða aukinn meiri hluta vegna 26. gr., þá hefði þurft að taka það sérstaklega fram eins og var gert um lýðveldisstjórnarskrána eða eins og segir í niðurstöðu hæstaréttarlögmannanna Daggar Pálsdóttur og Hróbjarts Jónatanssonar, með leyfi forseta:

,,Þá verður að ætla að stjórnarskrárgjafinn hafi ekki haft í hyggju að skilyrða niðurstöðu þjóðaratkvæðis um lagafrumvarp sem forsetinn synjaði staðfestingar með strangari hætti en hann skilyrðir niðurstöðu þjóðaratkvæðis um brottvikningu forseta og breytingu á kirkjuskipun ríkisins. Slík áform hefðu þurft að koma fram með skýrum hætti í greininni sjálfri, líkt og fram kemur í 81. gr.``

Þetta liggur því að okkar dómi einboðið fyrir, frú forseti. Einfaldur meiri hluti þeirra sem tekur þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni á að ráða. Þetta er í greinargerð með frumvarpinu skýrt út enn rækilegar heldur en ég hef gert í þessu örstutta máli.

Ég vil leggja það til, frú forseti, að þegar að þessari umræðu lokinni verði þessu máli vísað til skoðunar og meðferðar allsherjarnefndar og ég vænti þess, í samræmi við það forsetabréf sem hæstv. forsætisráðherra las hér upp, að þetta mál verði tekið til umræðu í þinginu. Það er alveg ljóst að af þeim tveim vængjum sem saman standa að þessu Alþingi hefur stjórnarandstaðan unnið sína heimavinnu.