Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 13:41:34 (9518)

2004-07-21 13:41:34# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[13:41]

Frsm. minni hluta allshn.(Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ákaflega ósáttur við margt sem fram kom í máli hv. formanns allshn. Ég er sérstaklega ósáttur við það að á fundi nefndarinnar í gær inntum við sérstaklega eftir því hvort fyrirhugað væri í tengslum við lyktir málsins að ráðast til atlögu gegn 26. gr. stjórnarskrárinnar. Við spurðum sérstaklega og gengum fast eftir því hvort ætlunin væri að tengja þessi mál með einhverjum hætti og svarið var nei.

Nú kemur alveg skýrt fram að það á samkvæmt þessu nefndaráliti, eins og hv. þm. las það áðan, að taka stjórnarskrána til endurskoðunar og samkvæmt nefndarálitinu á sérstaklega að fara í 26. gr. Þetta mun ég ræða frekar í ræðu minni á eftir og ætla ekki að biðja hv. þm. um sérstakt svar við því núna.

Mig langar hins vegar til að spyrja hv. þm. hver sá stjórnskipulegi vafi sé sem veldur því að meiri hlutinn leggur til að lög nr. 48/2004 verði felld brott. Okkur var sagt og þjóðinni var sagt að þetta væri sáttargjörð. Það kom aldrei fram að verið væri að fella lögin úr gildi eða gera tillögu um það vegna þess að stjórnskipulegur vafi ríkti um þau. Ég er sammála því og hef fært ýmis rök fyrir því en á það hefur aldrei verið fallist af hálfu meiri hlutans fyrr en í álitinu. Það skiptir hins vegar töluverðu máli fyrir framvindu umræðunnar í dag að hv. formaður nefndarinnar skýri fyrir þingheimi hver þessi stjórnskipulegi vafi er að mati þingmanna meiri hlutans.