Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 14:33:53 (9525)

2004-07-21 14:33:53# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[14:33]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi málflutningur hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar stenst ekki. Hv. þm. gekk miklu lengra hér. Hann taldi að það væri rétt hjá forsetanum að neita að skrifa undir lögin. Það er alveg deginum ljósara og kom mjög skýrt fram í ræðunni. Rökin voru að það væri svokölluð gjá á milli þings og þjóðar sem þýðir með öðrum orðum að mál sé umdeilt, óvinsælt. Og það nákvæmlega sama, hæstv. forseti, átti sér stað þegar EES-samningurinn var samþykktur í þinginu. Þá var hins vegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson í hópi þeirra manna sem töldu fráleitt að fara með slíkt mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo einfalt er það. Þetta er nefnilega mun stærra mál en svo að hægt sé að afgreiða það með þessum hætti og svo sannarlega staðfesti hv. þm. að hann er mjög ósamkvæmur sjálfum sér hvað það varðar.