Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 14:37:31 (9528)

2004-07-21 14:37:31# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Svarið er já. Það er ætlast til þess að hinn almenni kjósandi taki upplýsta ákvörðun. (Gripið fram í.) Til þess ætti hann að hafa öll föng, m.a. vegna þess að í þinginu hafa öll gögn málsins vonandi komið fram. Þar hefur t.d. verið sýnt fram á að hið upphaflega frv. er að öllum líkindum ferfalt brot á stjórnarskránni. Þar hefur verið sýnt fram á að núverandi ferill brýtur í bága við stjórnarskrána og er svo vafasamur að ríkisstjórnin hefur nú hætt við að knýja þau lög í gegn. Þar hefur líka verið sýnt fram á að það leikur mikill vafi á því hvort hægt sé að kippa máli úr þjóðaratkvæði. Þessi gögn liggja fyrir í skriflegum nefndarálitum, þau eru á netinu. Öll gögn málsins eru þar og ég ímynda mér að hinn upplýsti kjósandi sé ekki í verri færum en hinn bráðskarpi hv. þm. Pétur H. Blöndal til þess að afla sér upplýsinga og komast að niðurstöðu.