Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 14:39:54 (9531)

2004-07-21 14:39:54# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að mótmæla dylgjum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þegar hann lætur að því liggja að gert hafi verið samkomulag með formönnum stjórnarflokkanna um, eins og hann orðar það, að ráðast til atlögu við 26. gr. stjórnarskrárinnar. Ég vil líka mótmæla þeim dylgjum að hann hafi ekki fengið heiðarlegt svar hjá formanni nefndarinnar í gær þegar hann spurði hann um slíkt samkomulag. Ég heyrði bæði spurninguna og svarið sem hann fékk. Loks vil ég mótmæla því sem kemur fram hjá hv. þm. að meiri hluti allshn. sé að leggja til í nefndarálitinu að 26. gr. verði sérstaklega afnumin og synjunarréttur forseta Íslands. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að endurtaka hér og lesa það sem stendur í nefndarálitinu en þar segir:

,,Telur meiri hlutinn mikilvægt að taka til við þá endurskoðun stjórnarskrárinnar svo sem lögð var áhersla á þegar við setningu lýðveldisstjórnarskrárinnar árið 1944, einkum I. og II. kafla, ...``

Ég vil óska eftir því, herra forseti, að hv. þm. Össur Skarphéðinsson (Forseti hringir.) svari því hvernig hann getur komist að þeirri niðurstöðu að þarna sé nokkurs staðar nefnd 26. gr. sérstaklega.