Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 14:42:51 (9534)

2004-07-21 14:42:51# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Menn verða auðvitað að sigla undir eigin flaggi, menn verða að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Það dugar ekkert að vera á fundi í framsóknarfélaginu og taka undir kröfur um þjóðaratkvæði en greiða atkvæði gegn þjóðaratkvæði í allshn. og annars staðar.

Hér í nefndarálitinu er sérstaklega reifað hvað 26. gr. og málskotsrétturinn sé vanbúinn og síðan er það tengt við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Og það liggur alveg ljóst fyrir öllum nema kannski hv. þm. Jónínu Bjartmarz að ætlunin er að ráðast til atlögu að málskotsréttinum. Það á að vera plásturinn á benjar forustumanna ríkisstjórnarinnar sem þeir bera undan þessum slag.

Ég gef ekkert fyrir það þó að hv. þm. Jónína Bjartmarz segi að það hafi ekki verið gert samkomulag milli formanna stjórnarflokkanna. Ég veit ekki til þess að formenn stjórnarflokkanna leggi það mikið í vana sinn að ræða þessi mál við sína eigin þingmenn. Það hefur komið fram að formaður Framsfl. eyðir ekki of miklum tíma í það.