Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 16:36:12 (9550)

2004-07-21 16:36:12# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[16:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrra atriði sem hv. þm. benti á verð ég nú bara að taka því skoti. Það má til sanns vegar færa að við bjóðum að nokkru leyti upp í sama dansinn í nál. okkar. Ég var ekkert að kveinka mér undan því sem segir í áliti meiri hlutans en taldi það nokkuð sérstakt og nefndi þar tvö atriði til sögunnar og sérstaklega þó það síðara, hina pólitísku yfirlýsingu um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá tilteknum fimm þingmönnum í allshn.

Um jarðskjálftann 2. júní, hinn pólitíska jarðskjálfta sem hv. þm. kallar svo, þá var það bara einn af mörgum skjálftum sem upphófust í nóvember, desember eða apríl, maí í þessu máli. Ég lít ekki svo á að forseti lýðveldisins hafi verið að gerast pólitískur með ákvörðun sinni. Hann notaði málskotsrök til rökstuðnings niðurstöðu sinni, að hann væri að færa þjóðinni valdið, eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir, og ég tel að þetta hefði ekki þurft að breyta neinu um skilning manna á þessu ákvæði.

Ég hef miklu meiri efasemdir um það sem menn ætla að gera í sínum viðbrögðum ef þau verða á þá leið sem ríkisstjórnin leggur nú til.