Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 16:38:20 (9552)

2004-07-21 16:38:20# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég vísi bara til þess sem ég sagði í ræðu minni. Ég er þeirrar skoðunar að færa megi fyrir því gild rök að bregðist Alþingi þannig við að kalla lögin aftur í stað þess að láta þau ganga til þjóðaratkvæðis þá sé Alþingi að auka völd forsetans umfram það sem stjórnarskrárgjafarnir á sínum tíma ætluðust til. Þeir hugsuðu honum aldrei neitt vald í þessum efnum annað en að vera milligöngumaður um að málið færi yfir til þjóðarinnar. Er ekki verið að stöðva synjunarvaldið og gera það persónulegt hjá forsetanum með þessum viðbrögðum sem nú standa til. Ég spyr. Það væri fróðlegt að heyra sjálfstæðismenn tjá sig um það.

Varðandi hið síðara vísa ég einnig til þess sem ég sagði. Ég held að það sé ekki þessu máli til góðs að við förum að taka hvert annað upp hér og reyna að særa út úr mönnum yfirlýsingar um hvort þeir geti hugsað sér takmarkanir á eignarhaldi svona eða hinsegin eða hvort fara eigi leið ritstjórnarlegs sjálfstæðis, fyrir nú það fyrsta að ég er ekkert endilega á því að þetta séu neinar andhverfur. Kannski bara hvort tveggja að einhverju marki.