Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 16:47:58 (9560)

2004-07-21 16:47:58# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[16:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði einmitt að svara þessum lið í seinni ræðu minni. Það liggur algerlega fyrir, það liggur fyrir og hefur gert síðan í desember, hv. þingmaður, að við höfnum því ekki að skoða það að settar verði reglur sem taka m.a. til takmarkana á eignarhaldi. Það liggur algerlega fyrir, það er skjalfest, það er hér í þingmáli að við erum tilbúin til að skoða það.

Við höfum hins vegar ekki gefið okkur niðurstöðu úr því fyrir fram og við höfnum því að taka eingöngu þann þátt fyrir og ætla að þröngva því fram í ósanngjarnri löggjöf sem stenst ekki einu sinni meðalhófsreglu. Um leið og ég segi því að það liggur algerlega fyrir og hefur alltaf gert að við erum tilbúin til að skoða það og höfnum því ekki fyrir fram að þar verði settar reglur ætla ég rétt að vona að hv. þingmaður reyni ekki eina ferðina enn, eins og hann og fleiri flokkssystkini hans hafa gert, að koma svo og segja: Nú, þar með er Steingrímur J. Sigfússon sammála ríkisstjórninni, þar með er Steingrímur J. Sigfússon að skrifa upp á málafylgju ríkisstjórnarinnar. Svoleiðis málflutningur gengur ekki. Má maður ekki einu sinni segja að maður sé tilbúinn til að skoða mál öðruvísi en maður sé þar með dreginn í dilk með ykkur?