Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:11:21 (9567)

2004-07-21 17:11:21# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:11]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leiðrétta hv. þm. af því að það stendur í nál. meiri hluta allshn., með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af þeim stjórnskipulega vafa sem uppi er leggur meiri hlutinn til að tilvitnuð lög nr. 48/2004 verði felld brott.``

Það stendur skýrum stöfum í nál. að um sé að ræða stjórnskipulegan vafa. Þar stendur það svart á hvítu. Þess vegna spurði ég hv. þm. hvort hún teldi það ekki hreint og klárt og skýlaust brot á stjórnarskrá að grípa með þessum hætti inn í það ferli sem sett var af stað með málskoti forseta lýðveldisins 2. júní síðastliðinn. Þar með var gerður virkur réttur þjóðarinnar til að ganga til beinna og milliliðalausra kosninga um fjölmiðlalögin og endanlegur dómur yfir þeim lögum lagður í hendur þjóðarinnar.

Getur Alþingi Íslendinga, að hennar mati og samkvæmt þeim lögfræðilegu álitum sem liggja fyrir, gripið með þessum hætti inn í ferlið og ónýtt rétt þjóðarinnar til að greiða atkvæði um lögin? Samkvæmt mörgum lögfræðingum telst sá réttur mannréttindi, sem sett eru af stað með málskoti forsetans um einstök mál eins og í þessu tilfelli. Þetta er stutt mörgum lögfræðiálitum, t.d. frá Hróbjarti Jónatanssyni, sem segir, með leyfi forseta:

,,Það er mitt lögfræðilega mat að ekki sé unnt að stöðva atkvæðagreiðsluferlið, eftir að forseti hefur synjað staðfestingunni og vísað málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu, hvorki með því að afnema lög 48/2004 sérstaklega, án annarra aðgerða, né með því að afnema og leggja fram nýtt frumvarp um sama efni.``

Áliti hans fylgir máttugur rökstuðningur og í því ljósi að um stjórnskipulegan vafa sé að ræða, eins og fram kemur í nál., spurði ég hvort hv. þm. telji að Alþingi Íslendinga sé ekki með þessum hætti að brjóta stjórnarskrá lýðveldisins.