Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:43:12 (9575)

2004-07-21 17:43:12# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:43]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ágætri ræðu sinni varð hv. þingmanni tíðrætt um það sem hún kallaði þau slæmu áhrif og þá stjórnarskrárkreppu sem sú merka ákvörðun forseta Íslands þann 2. júní sl., að skjóta fjölmiðlamálinu svokallaða til þjóðarinnar til milliliðalausrar atkvæðagreiðslu, hafði í för með sér, þvert gegn því sem mætti ætla þar sem lýðræðislegasti hlutur og eðlilegasti í heimi væri sá að þjóðin úrskurðaði beint og milliliðalaust um hin stærri mál.

Því vil ég spyrja hv. þingmanninn beint að því hvort hún telji að í þeirri endurskoðun á stjórnarskránni sem boðuð er í nál. hv. allshn. og víðar eigi að breyta 26. gr. stjórnarskrárinnar í þá veru að málskotsréttur forseta Íslands verði afnuminn. Vill hún fortakslaust, skýrt og ákveðið aftengja málskotsrétt forseta Íslands?