Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:45:39 (9577)

2004-07-21 17:45:39# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:45]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér þakkarvert að hv. þingmaður skuli svara því með svo skýrum og afdráttarlausum hætti að hún telji að það eigi að afnema málskotsrétt forseta Íslands. Þá liggur hennar pólitíska skoðun á því máli uppi á borði núna þegar sú vinna er að hefjast.

Þá langar mig til að spyrja þingmanninn annars. Í nál. segir að með hliðsjón af ,,stjórnskipulegum vafa`` sem fram hefur komið að átti að vera ,,ágreiningur`` --- en á því er kannski bitamunur en ekki fjár --- sé lagt til að lögin verði felld brott og því spyr ég: Er þingmaðurinn fullviss um að það að afnema fjölmiðlalögin svokölluðu, meina þjóðinni þannig að koma að málinu og að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram, brjóti í engu stjórnarskrá lýðveldisins? Efast hún ekki um að kippa því ferli úr sambandi sem forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, setti af stað þann 2. júní sl. með málskoti sínu á fjölmiðlalögunum til íslensku þjóðarinnar og til beinnar og milliliðalausrar afgreiðslu hennar á málinu?