Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:48:18 (9579)

2004-07-21 17:48:18# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:48]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að flestir þingmenn á hinu háa Alþingi bíði eftir því að heyra rökstuðninginn fyrir því að sú leið er valin sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara.

Mér fannst reyndar ræða hv. þingmanns mestanpart vera endursögn af leiðara Morgunblaðsins í dag og kannski m.a. af þeim sökum fyndist mér mikilvægt að hv. þingmaður útskýrði fyrir okkur hér á hinu háa Alþingi --- það hefur jú reynst erfitt að skilja --- hvað menn eiga við með stjórnskipunarkreppu þó að mál sé fært til þjóðarinnar til að greiða um það atkvæði. Felur það í sér sérstaka stjórnskipunarkreppu að þjóðin sé spurð um eitthvert tiltekið mál? Ég held að það sé mikilvægt að við fáum að vita, það verði upplýst og rökstutt hvað felist í orðinu stjórnskipunarkreppa sem ýmsum sjálfstæðismönnum hefur verið tamt að nota nú um stundir.