Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:57:40 (9587)

2004-07-21 17:57:40# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:57]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu þar sem hún fór yfir sögu máls, að vísu með eilítið hlutdrægum hætti en látum það liggja á milli hluta. Það fór hins vegar ekki á milli mála að tóntegundin í orðum hv. þingmanns bar þess vott að iðrun og auðmýkt var með í för. Þetta var auðvitað varnarræða, ekki segi ég nú Sókratesar, en hv. þingmanns.

Ég vil spyrja hana þessarar samviskuspurningar: Ef hún ætti þess kost að endurlifa þessa hundrað daga hefði hún lagt til eða samþykkt fyrir hundrað dögum að leggja í þessa vegferð? Ef hún lítur nú aðeins yfir sviðið og skoðar hinn pólitíska lærdóm af þessu öllu saman, telur hún að ríkisstjórnin hefði átt að fara af stað með þeim hætti sem hún gerði? Aukinheldur kvað líka nýtt við í auðmýktinni og afsökunartóninum og mátti heyra alveg nýtt orð úr hennar munni, og raunar annarra stjórnaliða, orðið sátt. Ber þá að líta þannig á að ríkisstjórnin vilji taka upp sáttargjörð við stjórnarandstöðuna á fleiri sviðum?