Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 18:01:35 (9590)

2004-07-21 18:01:35# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Eigum við ekki að halda því til haga að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi kláraði þetta mál á Alþingi. (Gripið fram í.) Það var ekki nokkur ástæða til, frekar en varðandi önnur mál sem menn takast á um og taka afstöðu til, að ætla annað en að þar með væri það ferli búið. Ég get ekki sagt að ég sjái eftir því að hafa lagt í þá vegferð.

Ég held að þrátt fyrir allt hafi ýmislegt komið á daginn. Það er þó búið að hafa það út úr stjórnarandstöðunni á endanum að hún er tilbúin að koma til samstarfs um reglur sem væntanlega yrði meiri sátt um í þjóðfélaginu þegar á það reynir. Augljóst er að nú verður að fara í að endurskoða stjórnarskrána.