Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 18:03:00 (9591)

2004-07-21 18:03:00# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, HBl
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Halldór Blöndal:

Frú forseti. Mér finnst óhjákvæmilegt að kveðja mér hljóðs til að segja nokkur orð, sérstaklega í ljósi þess hvernig vikið hefur verið að Alþingi sem stofnun og hlutverki þess í ræðum margra þingmanna sem hér hafa talað. Er engu líkara en þeir líti á Alþingi sem víkjandi hlut í stjórnarskránni og leggja sig mjög fram um það, ýmsir hv. þingmenn og lögfræðingar, að reyna að túlka og skýra einstök ákvæði stjórnarskrárinnar með þeim hætti að ævinlega halli á Alþingi. Þetta er mjög merkilegt í ljósi þess að við Íslendingar erum e.t.v. sú þjóð í veröldinni þar sem sterkust og ríkust þinghefð gildir. Við skulum líka minnast þess að 1. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo: ,,Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.`` --- Það er kjarni stjórnarskrár okkar.

Á þessu ári héldum við upp á það er við fengum heimastjórn. Þá minntumst við þess einnig að 100 ár voru liðin síðan þingræði var lögfest hér á landi. Þessa skulum við minnast. Við skulum bera virðingu fyrir þeim störfum sem við vinnum í þessu húsi og leggja okkur fram um að reyna að túlka hefðir, venjur og stjórnarskrá með þeim hætti að það lítilsvirði ekki það mikla framlag sem forverar okkar á Alþingi lögðu fram til þess að Íslendingar gætu orðið frjáls og framsækin þjóð. Þetta er í raun kjarninn í þessu máli.

Það hefur hryggt mig mjög mikið að þegar við erum að tala um grundvallaratriði, samstarf Alþingis annars vegar við ríkisstjórn og hins vegar við forseta, skuli menn á marga lund nálgast það efni með villandi málflutningi og án þess að taka inn í dæmið þann mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir. Í síðustu orðaskiptum þingmanna sem hér urðu fór hv. 4. þm. Suðurk. að tala um stjórnskipunarkreppu sem hlægilegan hlut, sem væri hægt að spauga með og gera lítið úr á þessum stað. En við skulum þá um leið minnast þess hvaða maður talaði með hvað áhrifamestum hætti um stjórnskipunarkreppu ef það ástand kæmi upp að forseti lýðveldisins neitaði að staðfesta lög frá Alþingi. Það var formaður Alþýðuflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson, á þeim tíma sem við vorum saman í ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar ásamt hv. 2. þm. Reykv. s., Jóhönnu Sigurðardóttur. Þáverandi alþýðuflokksmenn sem enn eru á þingi og síðar komu inn í þessa ríkisstjórn voru hv. 1. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, hv. 4. þm. Suðvest., Rannveig Guðmundsdóttir og hv. 2. þm. Suðvest., Guðmundur Árni Stefánsson --- en hann var að vísu ekki á þingi þegar þessir atburðir gerðust.

Þá var aðdragandinn sá að fyrir Alþingi lágu skýrslur frá ótal aðilum, lögfræðiálit á víxl þar sem sumir töldu að aðild okkar að hinu evrópska efnahagssvæði væri stjórnarskrárbrot en aðrir töldu að svo væri ekki. Um þetta fengum við lærðar skýrslur. Ég hef tekið eftir því að ýmsir þingmenn, sem þá treystu þeim fræðimönnum sem töldu að ekki væri um stjórnarskrárbrot að ræða, hunsa nú álit þeirra en taka aftur upp álit hinna sem töldu að um stjórnarskrárbrot væri að ræða. Það sýnir okkur að það er ekki traustið á fræðimanninum sem ræður því hvort þingmaðurinn leggur upp úr orðum hans heldur sú niðurstaða sem fræðimaðurinn kemst að og hvort viðkomandi þingmaður getur notað niðurstöðuna sér í hag í þeim málflutningi sem hann hverju sinni kýs að halda uppi.

Ég vil líka segja að á þessum tíma lá það fyrir að forseti lýðveldisins hafði efasemdir um hvort rétt væri að staðfesta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Hún kallaði til sín helstu stjórnmálaleiðtoga landsins og ráðfærði sig við ýmsa aðra áður en forsetinn komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að staðfesta lögin. Hún vann með öðrum orðum mjög vandvirknislega að undirbúningi ákvörðunar sinnar, fór ekki dult með hvað henni bjó í hug og með þeim hætti efndi hún til þess að góð samvinna og traust ríkti á milli Alþingis og forseta lýðveldisins. Í þessum sal eru þingmenn sem voru ráðherrar ásamt mér í ríkisstjórn á þeim tíma. Ég varð aldrei var við að þeir væru andvígir og andsnúnir þeirri skoðun Jóns Baldvins Hannibalssonar að forsetinn hefði ekki heimild til að synja um staðfestingu á þeim lögum. Það var ný opinberun að þeir skyldu breyta um skoðun, sömuleiðis ný opinberun fyrir mig af því að ég þekkti fyrri skoðanir þeirra þegar ég áttaði mig á því að þeir létu virðingu sína fyrir Alþingi og þeim málflutningi sem hér hefur verið haldið uppi þoka fyrir stundarhagsmunum, stundaruppslætti ef svo mætti að orði kveða.

Við getum velt því fyrir okkur, þegar Alþingi er búið að vinna dag og nótt í fimm vikur í umdeildu frv.: Er þá ekki eðlilegt, miðað við það sem fyrir liggur, að herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lýðveldisins, hefði a.m.k. einni eða tveimur vikum áður en þeim umræðum lauk látið uppi efasemdir um hvort hann mundi skrifa undir? Enginn í þessum þingsal hefur velt upp þeirri spurningu hvort rétt hefði verið að forseti lýðveldisins lýsti áhyggjum sínum við ríkisstjórn eða forseta Alþingis yfir þessum málum. Það hefur enginn talað um það. Á hinn bóginn hefur verið vitnað til orða fyrri tíðar stjórnmálamanna um hversu mikils virði það væri að menn sem gegndu æðstu stöðum þjóðarinnar geti treyst hver öðrum og trúað því sem þeir segja.

Nú skulum við líta á þetta mál með öðrum hætti. Eftir að synjun forsetans á undirskrift lá fyrir var flutt annað stjfrv. Ég var beðinn um að ganga sérstaklega úr skugga um hvort það væri rétt borið fram. Í ljós kom, eins og pappírar sýndu, að það frv. var borið fram í nafni forseta Íslands með hans undirskrift samkvæmt stjórnarskrá. Síðan eru menn að gera því skóna að forsetinn muni synja að staðfesta lög sem hann að formi til flytur sjálfur á Alþingi, án þess að hafa uppi neinar athugasemdir um að svo kunni að fara. Þá spyr ég: Getur Alþingi tekið það gilt að forseti Íslands skrifi upp á frv. sem hann er staðráðinn í fyrir fram að synja að staðfesta ef samþykkt verður óbreytt? Getum við þolað slík vinnubrögð í þessum sölum? Eða skiptir engu máli hvaða pappírar eru sendir inn á Alþingi? Skiptir engu máli hvaða undirskriftir eru sendar inn á Alþingi? Eigum við að láta eins og það geri ekkert til þótt við séum hafðir að fíflum? Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að una því til lengdar að menn umgangist okkur með þeim hætti að við getum ekki treyst því sem við okkur er sagt. (MÁ: Hvað með forsetabréfið?)

Nú hefur því verið haldið fram af ýmsum að Alþingi megi ekki fella úr gildi lög sem sett eru á Alþingi. Hvar stendur það í stjórnarskránni að þingmenn megi ekki flytja frumvörp um brottfall laga sem eru í gildi í landinu? Hvar stendur það? Ber að túlka ummæli ýmissa þingmanna svo að þeir telji einhverjar hömlur settar á frelsi þeirra til þess að flytja lagafrv.? Sá sem greip fram í fyrir mér áðan, hv. 7. þm. Reykv. s., Mörður Árnason, ætli hann telji að það standi einhvers staðar á milli línanna í stjórnarskránni að þingmenn megi ekki flytja lagafrumvörp um ákveðin lög? Ég skora á stjórnarandstöðuna að benda mér á hvar það stendur milli lína. Ef frv. hefur verið lagt fram á Alþingi, ætlar þá einhver hér inni að halda því fram að Alþingi megi ekki samþykkja það frv.?

Til hvers var barátta okkar á sínum tíma fyrir lýðræði og þingræði frjálsrar þjóðar ef við leikum okkur að því fjöreggi með kæruleysi? Ég sé að hv. þm. Samf. í horninu hlær að því þegar ég spyr hvort menn eigi að leika sér af kæruleysi með fjöreggið. Ég hef stundum heyrt málflutning hans og skil að hann skuli hlæja. (Gripið fram í.) Nei, það var ekki varaforseti þingsins.

[18:15]

Staðreyndin er auðvitað sú að Alþingi er friðheilagt, enginn má raska friði þess né frelsi. Við berum ábyrgð gagnvart samvisku okkar og okkur er heimilt hvenær sem er að leggja fram lagafrumvörp um brottfall eða breytingu á öllum þeim lögum sem í gildi eru og Alþingi er heimilt að samþykkja þau frumvörp sem lögð eru fram á Alþingi og þarf ekki að spyrja lögfræðinga úti í bæ að því og allra síst lögfræðing sem hefur sagt að það sé ,,andhælislegt`` að forseti Alþingis gegni skyldum sínum sem handhafi forsetavalds. (Gripið fram í.)

Við skulum líka líta á það, vegna þess að aðallögspekingur Samf. á Alþingi sem tekur venjulega til máls þegar mikið liggur við, hv. 4. þm. Suðurk., Lúðvík Bergvinsson, var að spyrja að því hvað væri stjórnskipunarkreppa og gleymdi að lesa Jón Baldvin Hannibalsson. Nú situr hér inni núverandi formaður Alþýðuflokksins og hann á kannski greinar fyrrverandi formanna einhvers staðar í fórum sínum. Ég vil biðja hann að færa hv. þm. þau skjöl, en ég á ekki ,,samlede værker`` formanna Alþýðuflokksins.

Nú segir Ólafur Jóhannesson, það er alltaf verið að vitna í Ólaf Jóhannesson, með leyfi forseta:

,,Eins og 26. stjórnarskrárinnar er úr garði gerð þarf varla að reikna með lagasynjunum en ef til kæmi yrði sjálfsagt óhjákvæmilegt að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Væri eðlilegt að sett væru almenn lög um það efni.`` --- Ég endurtek, frú forseti: ,,Væri eðlilegt að sett væru almenn lög um það efni.``

Stjórnarandstaðan hefur lagt fram frv. um þjóðaratkvæðagreiðslu en treystir sér ekki til þess að hafa þau lög almenn heldur heitir frv., með leyfi forseta, Frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum. Þarna kemur skýrt fram að stjórnarandstaðan vill ekki með því frv. sem hér er lagt fram slá því föstu að þessi lög skuli gilda til frambúðar heldur ætlast til að þau falli úr gildi og verði ónýt um leið og þessi eina þjóðaratkvæðagreiðsla hefur farið fram, sem auðvitað sýnir að þeir eru ekki sjálfir öruggari með sig en svo að þeir treysta sér ekki eða geta ekki komið sér saman um reglu til frambúðar. Það eitt út af fyrir sig sýnir ljóslega í hvaða sporum við erum þegar við erum að tala um þessi mál nú.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru að reyna að gera tortryggilegt að við sjálfstæðismenn og framsóknarmenn viljum endurskoða ákveðin atriði stjórnarskrárinnar og það er verið að reyna að láta líta svo út að það sé einhver ný hugmynd sem hafi fæðst, sennilega í júnímánuði eða júlímánuði, eða guð veit hvað. Þó liggur það fyrir að hæstv. forsrh. svaraði fyrirspurn um þetta efni fyrr á þessu þingi og hef ég því miður ekki þær umræður við höndina en á hinn bóginn er ég með fyrir framan mig ræðu sem hæstv. forsrh. flutti þegar 100 ára afmælis þingræðis var minnst í háskólanum hinn 6. febrúar sl. Þar segir hæstv. forsrh., með leyfi frú forseta:

,,Á Alþingi var nýlega beint til mín fyrirspurn um, hvort ég teldi ástæðu til að endurskoða stjórnarskrána og ef svo, hvaða tilefni væru að mínu mati brýnast að slík endurskoðun tæki til. Með ákveðnum fyrirvörum um þann lærdóm sem við gætum dregið af fyrri tilraunum til að endurskoða stjórnarskrána lýsti ég mig reiðubúinn til samtarfs við formenn annarra stjórnmálaflokka um endurskoðun afmarkaðra þátta í stjórnarskránni og taldi þá næst liggja fyrir að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið um miðja síðustu öld. Þannig virðist að ósekju mega færa ýmis atriði í I. og II. kafla hennar til nútímalegra horfs. Þar er fjallað um stjórnarformið og grundvallarreglur stjórnskipunarinnar, um forsetakjör, lögkjör forseta og störf hans og ráðherra. Almennt mætti í þessum köflum draga upp skýrari mynd af ríkjandi stjórnarfari og færa ákvæði um það nær því sem það er í raun. Eins og menn þekkja eru mörg þessara ákvæða orðuð þannig að þau draga ekki upp rétta mynd af raunveruleikanum, nema þau séu lesin í samhengi hvert við annað og skýrð í ljósi ýmissa venjuhelgaðra reglna, sem í raun hafa öðlast stjórnarskrárvarða stöðu, eins og þingræðisreglan.``

Ekki er beinlínis kveðið á um þingræðisregluna í stjórnarskránni. Það var nú á sínum tíma, fyrir hálfri öld, talið Bretum mest til gildis að þar skyldi engin stjórnarskrá vera en venjuhelgaður réttur mótaði störfin og þar væri lýðræðið mest. En fullkomnasta stjórnarskráin af öllum var í Moskvu. Hv. 1. þm. Reykv. n. talaði um að Napóleon hefði flúið frá Moskvu. Það má vera að ýmsir fyrrverandi ritstjórar Þjóðviljans hafi verið á þessum sama flótta. (Gripið fram í: Gott innlegg.)

Það sem við skulum horfa á í þessu sambandi er t.d. það atriði sem margir hafa spurt mig um og ugglaust alla þingmenn, fólk hvarvetna á landinu í öllum stéttum og öllum stöðum spyr: Hvernig stendur á því að ekki skuli kosið tvisvar ef forseti í forsetakjöri fær ekki meiri hluta atkvæða eða meiri hluti þjóðarinnar stendur ekki á bak við hann, eins og sumir segja? Ef við t.d. hugsum okkur að það eigi að verða viðtekin regla að forseti Íslands geti, án þess að gera viðvart, án þess að ræða það við Alþingi eða ríkisstjórn, synjað um lög eftir á, um staðfestingu, þannig að þjóðaratkvæði verði, kemur þá ekki til álita að herða reglurnar um hvað skuli standa á bak við forsetann hjá þjóðinni? Gæti þá ekki vaknað sú spurning að það yrði að kjósa tvisvar? Og mundum við þá ekki standa frammi fyrir því að forsetakjör væri pólitískt kjör, ekki aðeins persónulegt heldur pólitískt, af því að þá erum við um leið búin að taka ákvörðun um að forseti Íslands hætti að vera sameiningartákn þjóðarinnar heldur lítum við á hann á hverjum tíma sem pólitíska fígúru? Þetta er sú spurning sem við stöndum frammi fyrir og þetta verðum við að ræða í fullri hreinskilni.

Þegar svo stjórnarandstaðan leyfir sér að segja að ríkisstjórnin vilji ekki vinna að þessum málum í sátt --- ,,réttir ekki fram sína sáttarhönd``, sagði formaður Samf. og rétti fram báðar hendur sínar hér í ræðustólnum --- þegar fyrir liggur skriflega bæði í þingræðu og í hátíðarræðu hæstv. forsrh. í háskólanum að hann er reiðubúinn til þess að taka þessi mál upp við formenn allra stjórnmálaflokkanna. Hvað er þetta annað en boð um samvinnu, hvað er þetta annað en boð um sátt og hvað er þetta annað en réttsýni í störfum stjórnmálamanna þegar mikið liggur við að sem víðust samstaða náist um það hvernig skipað skuli störfum og kjörum þeirra manna sem skipa æðstu embætti landsins? Það á ekki að tala um þetta í hálfkæringi.

Við getum líka velt öðru fyrir okkur. Auðvitað var afstaða stjórnarandstöðunnar til að greiða fyrir þingstörfum, þegar við hittumst á sumarþinginu athyglisverð. Veitt voru afbrigði fyrir því að bæði frumvörpin mættu koma til umræðu, frv. ríkisstjórnarinnar og frv. stjórnarandstöðunnar. Það stendur í 36. gr. þingskapalaga, með leyfi frú forseta:

,,Lagafrumvörp, sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu, verða því aðeins tekin á dagskrá að meiri hluti þingmanna samþykki það.``

Nú samþykkti stjórnarandstaðan að þessi mál kæmu á dagskrá. Hvernig eigum við að horfa á þá atkvæðagreiðslu í ljósi margra þeirra ummæla og orða sem hér hafa fallið í umræðunum? Hvaða virðing er það fyrir sínu eigin atkvæði ef menn geta gert slíkt og telja að frv. standist ekki stjórnarskrá, sé brot á þingræði og ég veit ekki hvað og hvað, þó að það sé uppáskrifað af forseta lýðveldisins? Af hverju gátu þeir þá ekki beðið og látið meiri hlutann einan um það, spyr ég?

Annars er þessi grein svolítið merkileg, frú forseti, vegna þess að hér stendur á öðrum stað: ,,Eigi má, nema með samþykki þingsins, taka frumvarp til umræðu fyrr en liðnar eru að minnsta kosti tvær nætur frá því er því var útbýtt.`` Einn af helstu sérfræðingum stjórnarandstöðunnar í stjórnarskrármálinu hefur komist að þeirri niðurstöðu með vísan til 90. gr. þingskapa að meiri hluti þings, ,,eigi má, nema með samþykki þingsins,`` þýði 2/3 atkvæða. Það er flókin lögskýring og erfitt ef maður er að fletta upp þingsköpunum að þurfa að lesa 10 síður eftir þann orðmarga lögfræðing til þess að átta sig á hvað þetta þýðir.

En það má auðvitað útskýra hluti með margvíslegum hætti og það má auðvitað teygja og toga orð ef menn eru þannig gerðir.

Þá er spurningin sem ég að lokum, frú forseti, vil gera að umræðuefni. Það er efnislega það frv. sem hér liggur fyrir og vil ég segja það fyrst og svara um leið hv. 2. þm. Suðvest., Guðmundi Árna Stefánssyni, þegar hann spurði hv. 6. þm. Norðaust., Arnbjörgu Sveindóttur: ,,Sér hv. þm. eftir þessu öllu saman?`` Ef ég má svara sömu spurningu tel ég að allar þessar umræður hafi orðið mjög gagnlegar vegna þess að við verðum að reyna að átta okkur á því hver staða okkar er hver til annars, hvaða skoðanir einstaka þingmenn og einstakir stjórnmálaflokkar hafa á því hvernig við getum staðið gegn því að markaðsráðandi fyrirtæki nái of sterkum tökum á fjölmiðlum.

Eitt af því sem er gagnlegt og hefur komið upp úr þeim umræðum er að svo virðist sem stjórnarflokkarnir eigi að geta náð samkomulagi við Vinstri græna og Frjálsl. þar sem allir þessir fjórir flokkar telja að takmörkun á eignarrétti geti komið til, en Samf. er hins vegar á öðru máli. Og þá þýðir lítið fyrir hv. 5. þm. Norðvest., Guðjón A. Kristjánsson, að tala um sátt í málinu ef skoðanir eru öndverðar. En ég hef tekið eftir því að þingmaðurinn vill fá sátt í öllum málum hvort sem skoðanir manna stangast algjörlega á eða eru kannski ekki svo fjarri hver annarri. En auðvitað er það svo í þjóðþingum að stjórn og stjórnarandstaða vegast á og auðvitað er það hálfbroslegt þegar maður heyrir nánast í hverju einasta máli sem upp kemur að því fundið að ríkisstjórnin skuli ekki draga stjórnarandstöðuna inn í undirbúning málsins. Það er í engu þjóðþingi. (Gripið fram í.) Eða þegar menn halda því fram að ríkisstjórn megi ekki hafa áhrif á það hvernig unnið er í nefndum að stjórnarfrumvörpum vegna þess að við erum með sterkt þingræði á Íslandi og a.m.k. í hinum þroskuðu lýðræðisflokkum er venjan sú ef um meiri háttar breytingar er að ræða að þá eru þær bornar undir þingflokka. Og eins og við vitum er meiri hluti Alþingis á bak við þá ríkisstjórn sem nú situr, sem auðvitað sýnir styrkleika þingsins og er í samræmi við 1. gr. stjórnarskrárinnar: ,,Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.``

Ég tók eftir því að hv. 1. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, flutti sína gömlu þulu um að Sjálfstfl. beitti fréttamenn Ríkisútvarpsins skoðanakúgun. Kalla það pólitískt ok, sagði hv. þm. orðrétt. Ég á erfitt með að skilja þennan hv. þm., gamlan blaðamann, sem hefur sem slíkur, blaðamaður, átt mikil samskipti við marga af fréttamönnum Ríkisútvarpsins og veit það jafn vel og ég að þeir hafa í grundvallaratriðum metið fréttir með sínum hætti án tillits til þess hvaða ríkisstjórn hefur verið í landinu. Ég álít að með þessu sé hv. þm. annaðhvort að reyna að hafa áhrif á fréttamennina með ómerkilegum málflutningi ellegar að hann hlusti ekki mikið á Ríkisútvarpið því það verður ekki um það sagt að fréttir þaðan beri keim af því eða lit af því að stjórnað sé ofan úr Stjórnarráði. Þetta veit hv. þm. Mér finnst að þessi gamli blaðamaður eigi að virða aðra blaðamenn og eigi að meta það við þá að þeir reyna að vinna eftir sinni samvisku og eigi ekki að kasta rýrð á störf þeirra þó hann með því þykist geta komið einhverju höggi á ríkisstjórnina. Mér finnst að hv. þm. eigi að gera það og svo ætla ég ekki að tala frekar um þann þátt málsins.

Ég vil vekja athygli þingheims á frétt sem ég geri ráð fyrir að þingheimur allur hafi lesið með athygli, frétt í Morgunblaðinu sl. mánudag, með leyfi frú forseta. Fyrirsögnin er: Segja samþjöppun ógna lýðræðinu.

,,Evrópsku blaðamannasamtökin (EFJ) segjast óttast, að vaxandi samþjöppun í fjölmiðlarekstri í Frakklandi sé ógn við fjölræði og fjölbreytileika og hætta sé á, að þar komi upp ,,ítalskt ástand``. Þau vilja að Evrópusambandið grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir aukna samþjöppun og þá þróun, að sami aðili starfi í mörgum geirum fjölmiðla.

,,Það er hætta á því að Frakkland fylgi Ítalíu eftir og að aðstæður þar verði með þeim hætti að það ógni lýðræðinu --- þegar þau áhrif sem fjölmiðlar hafa eru öll komin á hendur fárra valdamanna,`` segir Aidan White, framkvæmdastjóri EFJ. Þar með taka samtökin undir málflutning franskra blaðamanna og fagsamtaka þeirra.

EFJ telja að samþjöppun á fjölmiðlamarkaði í Frakklandi hafi komist á nýtt stig þegar fyrirtækjasamsteypa í eigu Marcels Dassaults lagði í síðasta mánuði undir sig meiri hluta hlutabréfa í Socpresse, sem er eitt af helstu fjölmiðlafyrirtækjunum í landinu, gefur út 70 dagblöð, þar með talin hin áhrifamiklu Le Figaro og L'Express. Og í síðustu viku lýstu forsvarsmenn TF1, helsta einkarekna ljósvakamiðilsins, því yfir að þeir vildu einnig renna inn í þetta fjölmiðlaveldi.

Var eftir því tekið að framkvæmdastjórn ESB sá ekki ástæðu til að gera athugasemd við kaup Dassaults-samsteypunnar á 82% hlutabréfa í Socpresse.

,,Þetta eru afar slæm tíðindi fyrir fjölræði í fjölmiðlum og fyrir sjálfstæði franskra fjölmiðla,`` segir White um aukna samþjöppun á frönskum fjölmiðlamarkaði.

Marcel Dassault og fjölskylda hans hefur sterk tengsl við valdhafa í Frakklandi og sonur Dassaults situr á franska þinginu. Fyrirtækjasamsteypa Dassaults stundar einkum framleiðslu og sölu á vopnum, auk tækjabúnaðar sem snertir loftferðir.``

Svo mörg eru þau orð. En á þessu sjáum við að það er ekki bara á íslenska þinginu sem menn eru að tala um nauðsyn þess að setja skorður við því að sami aðilinn eigi alla fjölmiðla eða með hvaða hætti hægt sé að tryggja fjölbreytileika í fjölmiðlun og velta því fyrir sér hvort eðlilegt sé að sá sem hefur undirtökin á fjölmiðlamarkaði skuli líka hafa undirtökin hjá ljósvakamiðlunum, sjónvarpi og útvarpi. Þetta er evrópsk umræða sem er komin inn í blaðamannasamtökin sjálf og þarf engan að undra en eftirtektarvert að hinir erlendu blaðamenn eru algerlega á öndverðum meiði við Blaðamannafélag Íslands sem telur það sérstaklega eftirsóknarvert að sami aðilinn eigi alla fjölmiðla hér á landi, sérstaklega eftirsóknarvert. Og væri kannski þörf á því að þeir hittust, blaðamennirnir hér og hinir erlendu. En spurningin er auðvitað þessi: Ef svo fer að Evrópusambandið tekur þessi mál upp og ef svo fer að Evrópusambandið boðar það að innan þess megi sami aðilinn ekki eiga ljósvakamiðil og dagblöð mun þá Samf. óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál að sú gerð verði lögfest hér á landi? Eða liti Samf. öðruvísi á málið ef það væri ákveðið á Evrópuþinginu en ef það væri ákveðið á Alþingi Íslendinga?