Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 18:39:47 (9594)

2004-07-21 18:39:47# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[18:39]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það svo að forseti Íslands vísaði þessu frv. til þjóðarinnar og auðvitað er það svo að hv. þm. Halldór Blöndal og nokkrir félagar hans hafa reynt vikum saman í skjóli naums þingmeirihluta, naums þingvilja ef þá nokkurs þingvilja þegar á reyndi, að keyra í gegn frv. til laga um fjölmiðla í eindreginni andstöðu við vilja meiri hluta þjóðarinnar. Sá leiðangur hlaut að enda með skipbroti því að, hv. þm. Halldór Blöndal, til þess var okkar starf í 1100 ár og til þess var þessu þingi komið á að losna við kónginn og til þess að þjóðarviljinn fengi fram að ganga og væri í hávegum hafður í störfum þingsins en ekki að lítill hópur manna misnotaði þingræðið og reyndi fimm sinnum (Forseti hringir.) að troða í gegn lögum sem enginn vildi sjá nema þeirra örfáu menn.