Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 18:49:11 (9602)

2004-07-21 18:49:11# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[18:49]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Virðulegi forseti. Það má færa rök fyrir því að erfitt sé að koma á eftir þeim ræðumanni sem talaði áðan, hv. þm. Halldóri Blöndal, sem hélt afskaplega góða ræðu sem ég held að hafi verið hollt fyrir þingheim að hlusta á. Við erum búin að fara í gegnum ýmislegt í umræðunni og það hefur gengið á ýmsu eins og menn þekkja og þjóðin þekkir og það er búinn að vera mikill hiti og stór orð hafa fallið. Vonandi verður þetta til þess að menn fari aðeins yfir málin í meiri rólegheitum og ég held að það verði fróðlegt fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnmálum að skoða allt þetta ferli og fara yfir það.

Í dag var farið yfir ýmsa þætti málsins og menn fóru í mikla sagnfræði sem er sjálfsagt prýðilegt. Eitt vakti þó athygli mína og það var þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um að það væri sérstakur heiður, virðulegi forseti, ef ég fer rétt með, að vera líkt við Einar Olgeirsson og Brynjólf Bjarnason. Ég efast ekkert um að þeir eins og aðrir menn hafi haft ýmislegt til síns ágætis en vil þó vekja athygli á því að það voru allir flokkar á Alþingi nema Sósíalistaflokkurinn sem samþykktu ályktun árið 1940 sem fól í sér þau orð að virðingu Alþingis væri misboðið með þingsetu sósíalista af þeirri einföldu ástæðu að þeir samþykktu griðasáttmála Hitlers og Stalíns og í málefnum Finnlands studdu þeir Sovétmenn í innrás í það vinaríki okkar. Í kjölfarið var Sósíalistaflokkurinn eða fulltrúar hans reknir úr Íslandsdeild Norræna þingmannasambandsins sem er forveri Norræna ráðsins. Ég held að það sé allt í lagi að menn hugsi um þetta þegar þeir fara yfir söguna. Það eru ýmsir sem fá harðan dóm í sögunni og mér finnst að menn eigi bara að ræða um hlutina eins og þeir eru. Þó að ég ætli ekki hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hafa stutt þessa gerð þeirra, finnst mér svolítið sérstakt þegar menn mæra þá aðila sem stóðu að slíkum hlutum svo ég segi bara hlutina alveg eins og þeir eru.

Það hefur í rauninni verið ansi fróðlegt að sjá hvernig vinstri flokkarnir hafa forðast efnislega umræðu eins og við þekkjum og það er kannski engin sérstök ástæða til að fara yfir það allt saman. Það voru ákveðnir aðilar, virðulegi forseti, sem kölluðu eftir þessari löggjöf og menn hafa vísað mjög mikið til ummæla bæði forsvarsmanna Samf. og kannski sérstaklega Vinstri grænna en það voru þó fleiri aðilar sem kölluðu eftir löggjöf um eignaraðild í fjölmiðlum. Það er ágætt að halda því til haga að þegar Álfheiður Ingadóttir, sem er varaþm. Vinstri grænna, kom hér upp og flutti mál fyrir hönd þeirra og nokkurra þingmanna þá vitnaði hún í einn aðila sem hefur verið nokkuð umræddur hér, sem er formaður í Blaðamannafélagi Íslands. Til þess að því sé til haga haldið vildi ég lesa það upp, en Álfheiður Ingadóttir sagði í ræðu sinni þegar hún var að ræða fjölmiðlamarkaðinn, með leyfi forseta:

,,Á haustdögum varð hér nokkur umræða um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði á Íslandi. Meðal annars var haft eftir ritstjóra eins stórveldisins á fjölmiðlamarkaðnum hér að það væri umhugsunarefni þegar viðskiptablokkir og bankar væru farnir að sækjast eftir eignarhaldi á fjölmiðlum. Formaður Blaðamannafélags Íslands, Róbert Marshall, sem er fréttamaður á Stöð 2 kallaði þá eftir fjölræði í fjölmiðlun, þ.e. að til væru margar fréttastofur í eigu margra ólíkra aðila. ,,Það tryggir``, sagði formaður Blaðamannafélagsins, með leyfi forseta, ,,að það sem einn miðill fjallar ekki um það fjallar einhver annar miðill um.````

Og áfram heldur Álfheiður þegar hún segir:

,,En það er einmitt hlutverk löggjafans að tryggja þetta fjölræði, tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla og frelsi þeirra. Í nálægum löndum hefur löggjafinn þannig reist skorður við samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum með ýmsum hætti, allt eftir aðstæðum í hverju landi.``

Í þeirri umræðu eða sambærilegri sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, með leyfi forseta:

,,Það er sérstaklega varhugavert ef umsvifamiklir aðilar í viðskiptum, sem jafnvel starfa í fákeppnisumhverfi þar, gerast jafnframt fjölmiðlakóngar. Þá er stutt í hið rússneska ástand, íslenska ,,ólígarka``, nýríka viðskiptajöfra sem eru jafnframt með fjölmiðla eða fjölmiðlakeðjur á sínum höndum til að reka áróður fyrir umsvifum og störfum sínum.``

Ég ætla ekki, ég hef gert það áður, að fara yfir þau mýmörgu ummæli sem forustumenn Samf. hafa haft um hættuna hvað þetta varðar, þ.e. samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. En ég er hér með ummæli frá Össuri Skarphéðinssyni, Margréti Frímannsdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur, Bryndísi Hlöðversdóttur, Guðmundi Árna Stefánssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur og fleiri ágætum þingmönnum í þá veru. Þetta er í sjálfu sér mál sem við erum oft búin að ræða og munum væntanlega ræða á haustþinginu en það sem ég sé fyrir mér að sé fram undan hjá okkur og mér finnst vera stóra málið er það sem snýr að stjórnskipun okkar. Ég tel að sú staða sem upp er komin kalli á það að öllu óbreyttu að við þurfum einhvern veginn að takast á við þetta breytta umhverfi því eins og staðan er í dag horfum við á breytingu á þeirri stjórnskipun sem hefur varað hér í 60 ár. Það liggur fyrir ef maður hlustar á umræðuna í dag, og ég hef miklar áhyggjur af því, að ekki séu allir þingmenn tilbúnir til þess að verja Alþingi Íslendinga og gæta hagsmuna þess og það þykir mér mjög miður.

Það sem er öðruvísi í þessu máli en öðrum sem tekin hafa verið fyrir og þetta er svo sannarlega erfitt mál eins og oft er, en það sem er öðruvísi í því --- það er ekkert nýtt að menn takist á, það er ekkert nýtt að það sé erfitt að koma málum í gegn en það sem er nýtt er að þegar slíkt er búið eins og ríkisstjórnarflokkarnir gengu frá, neitar forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson í þessu tilfelli, að skrifa undir lögin og það er í fyrsta skipti sem slíkt gerist.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta. Ég vil þó aðeins fara í gegnum það af því að menn hafa verið að ræða hvað vald forsetans þýðir og hvað það hefur í för með sér og menn hafa verið að fara yfir hver sé svona almenna tilfinningin eða vitneskjan í þjóðfélaginu um hlutverk forsetans. Ég ætla að lesa upp úr bók sem kennd hefur verið lengi og kennsla í stjórnmálafræði hefur verið byggð á, með leyfi forseta, en þar segir svo:

,,Í upphafi umfjöllunar um stjórnarskrána var vakin athygli á hve takmarkaða lýsingu á stjórnkerfinu er að finna í greinum hennar. Margir valdamestu aðilar stjórnkerfisins, svo sem stjórnmálaflokkar, hagsmunasamtök og fjölmiðlar, eru ekki nefndir í stjórnarskránni og að öðrum eins og ráðherrum, ríkisstjórn og sveitarstjórnum er aðeins vikið fáeinum orðum. Stjórnarskráin ákveður því aðeins hluta stjórnkerfisins. Almenn lög og venjur koma þar ekki síður við sögu.

Í raun og veru er meginefni stjórnarskrárinnar, 57 af 81 grein, helgað tveimur aðilum --- forseta og Alþingi --- og er sú lýsing þó hvergi nærri tæmandi og í sumum atriðum villandi sé orðalagið tekið bókstaflega. Formleg lýsing stjórnarskrárinnar á verkefnum forseta gefur til kynna að þjóðhöfðingjaembættið sé valdameira en reynslan sýnir. Ákvarðanir sem forseti gefur formlegt gildi eru í raun teknar af öðrum enda segir í 13. gr. ,,Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.`` Í 15. gr. stjórnarskrárinnar segir: ,,Forseti skipar ráðherra`` og ,,hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.`` Í raun eru fjöldi ráðherra, verkaskipting og val á mönnum í embætti ákveðin af þeim stjórnmálaflokkum sem mynda ríkisstjórnina. Í 22. gr. segir að ,,forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki`` en í reynd annast ríkisstjórnin það verkefni. Í 26. gr. er forseta veitt heimild til að synja lagafrumvarpi staðfestingar, þar eð enginn forseti hefur beitt þessu ákvæði er það í reynd dauður bókstafur.``

Þennan texta skrifaði prófessor Ólafur Ragnar Grímsson á sínum tíma. Þetta er sú undirstaða sem menn hafa og það sem menn hafa kennt í stjórnmálafræði þegar verið er að fara yfir hlutverk forseta lýðveldisins og það kemur skýrt fram, enda er það alveg augljóst, að stjórnarskráin gefur ekki rétta mynd af hlutverki forsetans og sýnir í rauninni að þjóðhöfðingjaembættið er mun valdameira en reynslan sýnir. Og ef vitnað er í Ólaf Jóhannesson þá er talað um að forsetastaðan hér á landi sé fyrst og fremst táknræn tignarstaða.

Gott og vel. Ég held að þetta sé eitthvað sem flestir hafa verið inni á. Það sem gerist hins vegar núna og ég tel, virðulegi forseti, vera alvarlega þáttinn er það að hér neitar forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, að skrifa undir lögin og það er eitt en menn verða að líta á rökstuðninginn því það að þetta gerist í fyrsta skipti þá hljóta menn að skoða hvaða ástæður liggja að baki. Ólafur Ragnar Grímsson er búinn að fara í ýmis viðtöl vegna þessa og hann hefur talað mjög skýrt, virðulegi forseti. Hann sagði í DV, með leyfi forseta:

,,Það er æskilegra að það sé samhljómur milli þess sem þingið er að gera og þess sem þjóðin vill. Að forsetinn sé ekki settur í þann vanda að vega og meta hvort hann eigi að beita þessum rétti. Ég tel mikilvægt að það sé ávallt haft í huga að haga ákvarðanatöku á þann veg að þessi vandi vakni ekki og sem betur fer hefur hann ekki oft vaknað í minni forsetatíð.``

Hann segir að hann vilji ekki sjá að forseti sé settur í þann vanda að vega og meta hvort hann eigi að beita þessum rétti þar sem ekki er um að ræða samhljóm milli þings og þjóðar. Þetta þýðir með öðrum orðum að ekki er hægt að taka erfiða ákvörðun, óvinsæla eða umdeilda ákvörðun, öðruvísi en svo að forsetinn telur það jafnlíklegt að hann neiti að skrifa undir lögin.

[19:00]

Það segir sig sjálft að ef þetta er sú staða sem er uppi mun stjórnkerfið ekki virka. Flestar stórar ákvarðanir sem þjóðin hefur þurft að taka og sem þingmenn hafa þurft að taka hafa verið umdeildar. Alla jafna greiða menn ekki atkvæði um mál þannig að það sé allt á einn veg. En menn hafa getað treyst því þegar þeir hafa tekið erfiðar ákvarðanir að það líði þá tími til næstu kosninga og þar standi menn og falli með verkum sínum. Það eru mýmörg dæmi um erfiðar ákvarðanir sem voru mjög umdeildar sem síðan hefur komið í ljós að voru skynsamlegar og viðkomandi pólitísk öfl hafa styrkt sig á að hafa tekið ákvörðun um að ég tali ekki um viðkomandi þjóð eða þjóðir.

Það var frekar pínlegt að fylgjast með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni áðan, og ég get ekki túlkað málflutning Samf. öðruvísi, mér fannst hv. þm. Össur Skarphéðinsson tala mjög skýrt áðan og að hann fagnaði því mjög að forsetinn hafi neitað að skrifa undir lög frá Alþingi. Og þeir hafa talað mjög skýrt, þingmenn Samf., að þetta sé það vinnulag sem þeir vilji sjá. Þeir sömu aðilar, a.m.k. hluti af þeim sem voru í Alþýðuflokknum á sínum tíma þegar tekist var á um EES-samninginn sem hv. þm. Halldór Blöndal fór ágætlega yfir áðan, sáu þá enga ástæðu til að fara með það mál í þjóðaratkvæði eða fara með það eins og kallað var í því máli ,,að horfast í augu við þjóðina``.

Ég er á því og ég held að flestir séu á því að þegar við fjöllum um stórmál sem eru grundvallaratriði í íslensku samfélagi eins og stjórnarskráin er sé mjög æskilegt að það sé gert í einhverri sátt, að menn fari yfir það í góðu tómi og að sem víðtækust sátt náist um slíkt mál. Það má færa rök fyrir því að einmitt núna í þessu umhverfi sé erfitt að ræða þessi mál en við komumst hins vegar ekki hjá því. Ég vona að þegar menn koma aftur á haustþinginu og hitinn í umræðunni er kannski aðeins farinn að minnka hugsi menn málið til enda því þrátt fyrir að þeir aðilar sem eru í stjórnarandstöðu hafi verið það lengi, og ég vona svo sem að það muni ekki breytast, þá er ekkert útilokað að þeir komist einhvern tímann að völdum og menn þurfa auðvitað að hugsa um þjóðarhag hvað þetta mál varðar. Og það fyrirkomulag að í hvert skipti sem tekin er umdeild ákvörðun sé jafnlíklegt að henni verði vísað í þjóðaratkvæði á þeim tíma sem hún er óvinsælust gengur ekki upp og það er ekki skynsamleg stjórnskipun. Svo ég vitni aftur í Ólaf Ragnar Grímsson, með leyfi, virðulegi forseti, þá sagði hann í viðtali á Útvarpi Sögu:

,,Og þá var einmitt sú hugsun sem lá að baki þess`` --- og hér er forsetinn að tala um stjórnarskrána --- ,,að forsetinn og þingið fari saman með löggjafarvaldið en þjóðin væri æðri forsetanum og þinginu. Þess vegna ef mál væru erfið gæti komið að því að þjóðin ætti að dæma hvað væri rétt og rangt og forsetinn væri tengiliður í þessu sambandi.``

Í sama viðtali talaði hann um að við hefðum ekkert skoðað nákvæmlega hvað menn voru að fara þegar þeir skrifuðu stjórnarskrána af því að við værum svo upptekin af verðbólgunni og efnahagsmálunum og vísar í það að t.d. Bandaríkjamenn hafi skoðað þetta mjög með því sem kallað er ,,Founding Fathers``. Mér heyrist svona á sumum þingmönnum að menn séu komnir inn á þessa umræðu og þetta er vægast sagt mjög villandi svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ég vil hvetja þingmenn og aðra til þess að skoða ekki bara stjórnarskrána heldur líka þá stjórnarskrá sem var í gildi áður en við fengum sjálfstæði. Það liggur alveg fyrir þegar menn skoða hana að þetta er nokkurn veginn sami texti ef menn skipta á orðinu konungur í staðinn fyrir forseti. Í mjög mörgum tilfellum er þetta orðað nákvæmlega eins. Og eins og kemur fram í bók prófessors Ólafs Ragnars Grímssonar, Íslenska þjóðfélagið -- félagsgerð og stjórnkerfi, sem kennd er í stjórnmálafræði eða var kennd til langs tíma, gefur þetta ekki rétta mynd af stöðu forsetans í stjórnkerfinu og það hafa menn vitað í mjög langan tíma og það er ekkert að því og það er eðlilegasta mál í heimi að menn skoði það. Því það hættulega í þessu máli er að menn vilji ekki eða hafi heykst á því að setja löggjöf um fjölmiðla, eðlilega löggjöf sem er sambærileg við það sem er í öðrum löndum. Það er eitt en það er þó í rauninni minna mál í samanburði við það, virðulegi forseti, ef við erum með stjórnskipun sem gerir það nær ómögulegt að stjórna svo vel sé.

Við Íslendingar höfum verið svo lánsamir að við höfum haft góða stjórnskipun síðustu 60 árin og við höfum betri stöðu en flestar þjóðir. Ef við berum okkur saman við þær þjóðir sem við gerum iðulega eins og í Evrópu sjáum við að ýmis vandamál sem við höfum ekki en þeir hafa má rekja beint til þess að þar er hreinlega erfitt að koma umdeildum málum í gegn. Það má ekki verða hér. Við getum tekist á um hin ýmsu mál, virðulegi forseti, og við getum verið ósammála, það er sjálfsagt og út á það gengur lýðræðið, en við hljótum að vera sammála um að hafa hér stjórnskipun sem gerir það að verkum að hægt sé að stjórna landinu með skynsemi og með lýðræðislegum hætti og við séum ekki með innbyggða galla sem geri það að verkum að það sé erfitt að koma nauðsynlegum málum sem eru erfið á viðkomandi tímapunktum í gegn.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt meira, virðulegi forseti. Við erum búin að fara ágætlega yfir þetta og ég vonast til þess að þegar hitinn er farinn úr mönnum og menn koma aftur á haustþingi líti menn á málið í stærra samhengi því það væri sorglegt ef niðurstaðan eftir þá ,,afferu`` sem er búin að vera á undanförnum vikum og mánuðum væri sú að við værum búin að stórskemma eða jafnvel eyðileggja þá stjórnskipun sem við höfum lifað með síðustu 60 árin.