Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 19:08:10 (9603)

2004-07-21 19:08:10# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SKK
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[19:08]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Frú forseti. Mig langar til að leggja nokkur orð í belg, enda hef ég setið á fundum hv. allshn. og farið mjög vandlega yfir það mál sem hér er til umfjöllunar og þau álitaefni sem hér hefur verið fjallað um.

Mig langar til að víkja máli mínu að nokkrum þeim atriðum sem fram hafa komið við 2. umr. málsins og sömuleiðis að efni frv. og þeirra breytinga sem gerðar hafa verið að því. Áður en ég kem að því langar mig til að minna á að þegar við ræddum fjölmiðlafrv. hið fyrra í upphafi, gagnrýndi stjórnarandstaðan málið fyrst og fremst út frá tveimur efnisforsendum, annars vegar að gildistökuákvæði þeirra laga gengi of langt og hins vegar að það gengi ekki að banna markaðsráðandi fyrirtækjum að eiga svo mikið sem eina krónu í fyrirtækjum sem reka ljósvakamiðla. Auk þess var málsmeðferð ríkisstjórnarinnar og einnig allshn. gagnrýnd sérstaklega og við sem sitjum í hv. allshn. vorum sökuð um að keyra málið í gegnum þingið með óhæfilegum hraða. Eftir að þetta hafði allt saman gerst og lögin voru samþykkt þá synjaði, eins og menn þekkja, Ólafur Ragnar Grímsson lögunum staðfestingar og þá tók við nýtt ferli. Lagt var fram nýtt frv. af hálfu ríkisstjórnarinnar sem kynnt var sem sáttargjörð hennar í málinu.

Því hefur verið haldið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar að með því að leggja fram nýtt frv. með breyttum efnisatriðum hafi ríkisstjórnin ekki verið að leita sátta í málinu. Ég hlýt að lýsa mig algerlega ósammála því. Ég tel að það liggi algerlega fyrir að með því að leggja fram nýtt frv. hafi ríkisstjórnin verið að reyna að ná sátt og samstöðu um málið, enda liggur það fyrir að fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi hafa lýst yfir mikilvægi þess að setja reglur og setja lög um eignarhald á fjölmiðlum.

Hvers vegna segi ég að frv. hafi verið sáttargjörð? Jú, það er vegna þess að allir eru sammála um nauðsyn þess að setja reglur um þessa atvinnustarfsemi og einnig vegna þess að formenn tveggja stjórnarandstöðuflokka lýstu því yfir við 1. umr. málsins að þeir væru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að auka heimildir markaðsráðandi fyrirtækja til þess að eiga hlut í ljósvakamiðlunum. Í því frv. sem síðar var lagt fram var fallist á þær kröfur stjórnarandstöðunnar. Það var líka fallist á þær kröfur að breyta gildistökuákvæðum laganna eftir þá gagnrýni sem fram hafði komið af hálfu stjórnarandstöðunnar. Þegar menn halda því fram að það frv. hafi ekki verið lagt fram til þess og með það að markmiði að ná sáttum í málinu hlýtur maður að vísa til þess sem fram hefur komið í málflutningi stjórnarandstöðunnar um efnisatriði málsins þó svo sá rökstuðningur sé svo sem ekki mikill.

Nú er staða málsins sú að allshn. leggur til að hin fyrri fjölmiðlalög verði felld brott og engin lög verði sett í staðinn, þ.e. nefndin leggur það til að eldra réttarástand rakni við og staðan verði óbreytt. Maður hefði haldið að stjórnarandstaðan fagnaði þeirri niðurstöðu, fagnaði því að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hefðu fallist á ýtrustu kröfur þeirra í málinu sem fram komu við 1. umr. hins fyrra fjölmiðlafrv. en það er eitthvað annað. Það er ekki hægt að samþykkja þessa málaleitan og þann tillöguflutning. Stjórnarandstaðan virðist vera á móti gerðum ríkisstjórnarinnar alveg sama hvers efnis þær eru. Það er alveg sama hvað er gert, stjórnarandstaðan er alltaf á móti.

Á hverju byggir málflutningur stjórnarandstöðunnar núna? Jú, hann byggir á því að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram. Það er einhver vitlausasta krafa sem ég hef heyrt í þingsalnum. Verið er að gera kröfu um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram þrátt fyrir að það stefni að því að lögin sem kjósa átti um verði felld úr gildi. En samt sem áður krefst stjórnarandstaðan þess að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram. Maður hlýtur að spyrja: Til hvers? Maður hlýtur líka að spyrja: Hvaða vit er í slíkum málflutningi og hvaða tilgangi á hann að þjóna?

Frú forseti. Ég ætla að víkja að því sem ég tel að skipti miklu máli í umræðunni og það er að velta því fyrir sér hvað felst í kröfunni um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Út á hvað gengur málflutningur stjórnarandstöðunnar og hver er raunverulegur kjarni hennar? Það er lykilatriði í málinu. Kjarni málflutnings stjórnarandstöðunnar felur það í sér að stjórnarandstaðan er þeirrar skoðunar að valdheimildir Alþingis séu takmarkaðri en áður hefur verið talið. Ég verð að segja að þetta er ansi dapurlegur málflutningur. Þingmenn ættu að mínu mati, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, að slá skjaldborg um Alþingi og vernda þá æðstu lýðræðis- og löggjafarsamkundu þjóðarinnar í stað þess að grafa undan henni og það einungis vegna pólitískra stundarhagsmuna því ekki verður séð að neitt vit sé í málflutningnum að öðru leyti en því að menn séu að reyna að slá pólitískar keilur.

[19:15]

Í mínum huga er ljóst að Alþingi er aðalhandhafi löggjafarvaldsins og hefur heimildir til að setja lög, breyta lögum og fella lög úr gildi. Ég er ekki einn um þá skoðun. Ólafur Jóhannesson lýsti því þegar yfir í fyrstu útgáfu sinni af Stjórnskipun Íslands að Alþingi væri valdamest í íslenskri stjórnskipan og aðalhandhafi löggjafarvaldsins. Það felst líka í 2. gr., 25. gr. og 38. gr. stjórnarskrárinnar að Alþingi sem fer með löggjafarvaldið, setur lögin, breytir þeim og fellir úr gildi. En málflutningur stjórnarandstöðunnar gengur út á að þær valdheimildir séu takmarkaðar með einhverjum hætti.

Síðan stjórnarskráin var sett árið 1944 hefur mönnum aldrei dottið í hug að vega að Alþingi eins og nú hefur verið gert. Mönnum hefur aldrei dottið í hug að efast um valdheimildir þingsins að þessu leyti. Það sætir furðu að menn tali með þeim hætti sem við höfum orðið vitni að í dag. Við vitum hvernig löggjafarvaldið hefur verið praktíserað frá 1944 og reyndar miklu lengur. Maður hlýtur að spyrja: Hvað rekur menn í það að efast allt í einu núna um löggjafarvald þingsins?

Menn eru aldir upp við það að Alþingi setji reglur og geri það með lögum. Ég er alinn upp við það, frú forseti, og um það eru allir sammála og hafa alltaf verið. Þetta er það sem við þekkjum og hefur verið rauði þráðurinn í stjórnskipan okkar. Svo koma menn núna, sérstaklega þingmenn frá stjórnarandstöðunni, formenn stjórnarandstöðuflokkanna, og lýsa því yfir að þetta vald sé takmarkað án þess að finna þeirri skoðun sinni einhvern stað í settum lögum eða stjórnarskrá.

Ég verð að segja, frú forseti, að málflutningur stjórnarandstöðunnar hefur verið þess eðlis að hann er þeim þingmönnum sem halda honum fram ekki til sóma og er til þess fallinn að grafa undan virðingu og heiðri Alþingis. Það kemur manni náttúrlega ekki á óvart að hlusta á hæstv. forseta þingsins lýsa því yfir í ræðustól Alþingis að hann verði hryggur við að heyra svona málflutning, sérstaklega frá þingmönnum sem ættu að sjá sóma sinn í að slá skjaldborg um þessa virðulegu stofnun.

Ég sagði áðan að Alþingi hefði, sem æðsti handhafi löggjafarvaldsins, heimildir til að setja lög, breyta lögum og fella lög úr gildi. Ég vísaði til 2. gr., 25. gr., 38. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta er ekki mín einkaskoðun. Um þetta eru allir fræðimenn á sviði íslenskrar lögfræði sammála. Það er alveg sama hvar maður gluggar í fræðin. Það eru allir sammála um þetta og nánast allir lögfræðingar sem komu fyrir allshn. voru sammála því að Alþingi hefði í skjóli löggjafarvaldsins heimildir til að fella brott þau lög sem það hafði áður samþykkt. Öðru hefur verið haldið fram í þessum ræðustóli í dag, þar á meðal af hálfu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar.

Það má svo sem alveg fara yfir það hvaða lögfræðingar komu fyrir nefndina. Ég ætla ekki að telja þá alla upp en ég get þó sagt að 11 af þeim lögfræðingum sem komu fyrir nefndina voru sammála um að þingið hefði þessa heimild. Það var alveg kristaltært af þeirra málflutningi að Alþingi hefði heimild til að fella á brott lög. Tveir af þessum 11 töldu að vald þingsins væri bundið við að ekki mætti setja önnur lög í staðinn strax heldur einhverju síðar. En allir þessir lögfræðingar voru sammála um að valdheimildir löggjafans stæðu til þess að fella áður samþykkt lög brott.

Einungis þrír íslenskir lögfræðingar, fræðimenn og sérfræðingar í íslenskum rétti, héldu öðru fram. Það er rétt að því sé haldið til haga í þessum umræðum. Það voru annars vegar Dögg Pálsdóttir og Hróbjartur Jónatansson, lögmenn stjórnarandstöðunnar sem voru ráðnir til þess að búa til málflutning hennar í þessu máli, sem héldu öðru fram og Ragnar Aðalsteinsson sem sá ástæðu til að taka það sérstaklega fram þegar hann kom fyrir nefndina að hann væri lögmaður Norðurljósa. Við höfum séð á fréttamyndum þann hæstvirta hæstaréttarlögmann fremstan í mótmælagöngum og mótmælastöðum fyrir framan Stjórnarráðið. Þetta eru einu lögfræðingarnir sem komu fyrir nefndina sem efuðust um heimildir löggjafans til að fella brott lög sem Alþingi hafði áður sett.

Það er ljóst, frú forseti, að hér er ekki um neitt stjórnarskrárbrot að ræða. Meiri hlutinn og Alþingi eru ekki að fremja neitt stjórnarskrárbrot með því að fella lög úr gildi til að koma í veg fyrir að til þjóðaratkvæðagreiðslu verði blásið. Ég sé hins vegar ekki hvers vegna stjórnarandstaðan krefst þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla sem enga þýðingu hefur verði þetta frv. að lögum. Ég ekki lógíkina í því. Lögin verða felld úr gildi og hvers vegna í ósköpunum ættu menn að blása til þjóðaratkvæðagreiðslu með öllum þeim kostnaði og fyrirhöfn sem af hlýst? Réttaráhrifin verða nákvæmlega þau sömu, verði stjórnarandstöðunni að ósk sinni varðandi slíka atkvæðagreiðslu.

Það sem kannski er alvarlegast í þessu máli og alvarlegast í þeim málflutningi sem komið hefur fram í dag er, eins og ég sagði áðan, að heyra formenn stjórnarandstöðuflokkanna, hvern hv. þm. á fætur öðrum, vega að heiðri og virðingu þingsins og þar á meðal gera lítið úr sjálfum sér með því að tala fyrir takmörkun á valdi Alþingis sem aðalhandhafa löggjafarvaldsins og án þess að finna þeim fullyrðingum sínum nokkurn stað.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnaði í mig í ræðu sinni og ummæli mín í Ríkisútvarpinu. Hv. þm. er reyndar ekki í salnum. En mig langaði að sýna honum þann heiður að svara spurningum hans úr því að ég kom þeim ekki að í andsvari fyrr í dag. Hann vitnaði til þess að ég hefði sagt að ég hefði talið að engar efnislegar ástæður lægju til þess að draga frv., eins og það lá fyrir, til baka. Það er alveg rétt. Ég taldi engar efnislegar ástæður til þess lögfræðilega að gera það. Ég taldi ekkert í stjórnarskránni gera það að verkum að lögin brytu gegn stjórnarskrá eða öðrum almennum lögum. Þetta er hins vegar pólitísk ákvörðun sem ég studdi og styð. Ég skil ekki hvers vegna hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson gera ekki það sama. Það er engin skynsemi í málflutningi stjórnarandstöðunnar, engin skynsemi í því að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég vil eins og sumir, sem starfað hafa á þingi áður og gegna nú öðrum störfum, greiða fyrir þingstörfum og læt ræðu minni hér með lokið.