Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 20:11:51 (9614)

2004-07-21 20:11:51# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[20:11]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál verður alltaf skrýtnara og skrýtnara. Það er rösklega gert af hv. þm. Bjarna Benediktssyni að hafa tekist að skipta næstum þrisvar sinnum um skoðun á sex og hálfum tíma.

Í dag var skýring hv. þm. á því að þetta frv. væri dregið til baka sú að stjórnskipulegur vafi léki á um framgang málsins og málsmeðferð. Fyrri hluti ræðu hans áðan var með allt öðrum hætti. Þá sagði hv. þm. að eina ástæða þess að málið var ekki tekið gegnum þingið hefði verið sú að ekki hefði tekist sátt um það við stjórnarandstöðuna. Hvort er það vegna þess að það er enginn stjórnskipulegur vafi um málið eða vegna þess að það tókst ekki ná sátt við stjórnarandstöðuna? Hv. þm. verður að skýra frá því hver er orsök þess að málið var tekið til baka með þessum hætti.

Í seinni parti ræðu sinnar sagði hv. þm. að þótt það stæði í nefndarálitinu að stjórnskipulegur vafi ríkti þá hefði meiri hluti nefndarinnar þá skoðun að stjórnskipulega stæðist málið. Hvernig er hægt að skilja svona hringavitleysu? Jú, það er hægt. Hún skilst í því ljósi að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hefur sagt að þetta séu pennaglöp. Það skilst í því ljósi að hv. þm. Jónína Bjartmarz hefur sagt að þetta sé óhönduglega orðað. Það skilst í því ljósi að það er eins og það sé framandi fyrir hv. þm. að það standi í álitinu að þetta sé ástæðan. Má ég þá spyrja hv. þm.: Hvar var nefndarálitið skrifað?