Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 20:15:22 (9616)

2004-07-21 20:15:22# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[20:15]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þeirri nýju stefnu um vinnubrögð sem hér er komin fram hjá hinum tilvonandi efnisþingmanni, hv. þm. Bjarna Benediktssyni. Hann segir bara hér að málið sé dregið til baka vegna þess að ekki hafi tekist sátt við stjórnarandstöðuna. Ég geri þá ráð fyrir að í framtíðinni þegar ekki tekst sátt við stjórnarandstöðuna um einstök mál verði þau dregin til baka. Má ekki ganga að því sem vísu, herra forseti?

Staðreyndin er einfaldlega sú að meiri hluti allshn. er alls ekki viss um af hverju formenn stjórnarflokkanna ákváðu að kippa málinu til baka. Í dag var formaður allshn. þeirrar skoðunar, eins og segir enn þá í nefndarálitinu nema það verði prentað upp, að málið sé dregið til baka með hliðsjón af þeim stjórnskipulega vafa sem um það ríkir. En áðan var hv. þm. að segja að það væri ekki út af því heldur út af því að stjórnarandstaðan hefði ekki viljað sættir í málinu. Hver á að skilja þetta? Málið er auðvitað ósköp einfalt. Það var ágreiningur millum tveggja flokka og honum var ráðið til lykta þegar ríkisstjórnin var að springa annars staðar en þar sem þingmenn allshn. voru á vettvangi. Það er einfaldlega skýringin.

Komið hefur fram að hv. þm. Bjarni Benediktsson trúir ekki einu sinni því sem segir í nefndarálitinu vegna þess að hann telur að það sé enginn stjórnskipulegur vafi á málinu og þó var það skýringin sem hann flutti í dag fyrir því að málið er dregið til baka. Til þess að kóróna allt saman og sýnir nú, af því að við hlið hans er hv. þm. Ögmundur Jónasson, hvert ríkisstjórnin er farin í rökum sínum, með fullri virðingu fyrir þingmanninum sem stendur við hlið hans, þegar hann kemur hingað og helsta stoð hans í skýringu á stjórnarskrá er einmitt hv. þm. Ögmundur Jónasson. Hann er hans helsti stjórnvitringur. Þetta fer að verða dálítið skondið.