Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 10:03:52 (9618)

2004-07-22 10:03:52# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[10:03]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Á þessum sólfagra morgni verð ég að tilkynna hæstv. forseta þau gleðitíðindi að ég hef satt að segja aldrei verið jafnsáttur við störf þingsins og einmitt í dag og í gær. Ég tel að núna hafi þetta þing stigið einhver þau heilladrýgstu spor sem það hefur stigið um alllangt skeið. Það eina sem ég hef að athuga við hæstv. forseta eru þau ummæli sem féllu af vörum hans í gær í snarpri umræðu um valdmörk milli Alþingis og forseta og það var einmitt eitt af því sem ég vildi gera að umræðuefni.

Við höfum verið að velta fyrir okkur með hvaða hætti virðingu þingsins er best borgið. Ýmsir hv. þingmenn hafa haldið því fram að forseti lýðveldisins hafi gengið of nærri virðingu þingsins og valdsviði þingsins með því að notfæra sér 26. gr. til að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar. Í merkilegri umræðu sem fram fór um það í gær vil ég taka fram að ég var allsendis ósammála hæstv. forseta, Halldóri Blöndal, þegar hann kom í ræðustól í gær og taldi að allt hefði þetta mál verið þarflítið og mætti við svona aðstæður skjóta sér hjá því ef forseti lýðveldisins, eins og hann orðaði það, hefði t.d. tveimur vikum fyrr áður en Alþingi lauk umfjöllun sinni um fjölmiðlalögin gefið það í skyn við valdhafana í samfélaginu að hann hefði efasemdir um það frv. sem þá var um að ræða.

Ég tel, herra forseti, að enginn maður hafi gengið eins langt í að lýsa yfir vilja til að selja frá þinginu vald eins og hæstv. forseti gerði með þeim ummælum. Þarna er um að ræða ferli sem ég hygg ákaflega fáir alþingismenn gætu nokkru sinni fellt sig við. Í þessu felst í reyndinni það að ef sú staða kemur upp að umdeilt mál er til umræðu á Alþingi og forseti kynni að hafa efasemdir um málið, þá ætti hann samkvæmt hljóðan orða hæstv. forseta síðan í gær að hafa samband eftir atvikum við forseta Alþingis eða forsrh. og tjá honum þann vafa sinn. Af því hlyti að leiða að Alþingi og þeir sem flyttu viðkomandi frv. mundu þá væntanlega hefja eins konar samningaviðræður við forsetann, þ.e. leita eftir því hvaða breytingar forseti lýðveldisins gæti fallist á til þess að hægt væri að samþykkja frv. án þess að yfir vofði hætta á synjun. Ég tel að í þessu fælist verulegt framsal á valdi til forseta lýðveldisins sem ég mundi aldrei sætta mig við og í reynd værum við þá með einhverjum hætti að taka upp vísi af því gamla konungdæmi sem við slitum okkur frá 1944. Ég varð því ákaflega undrandi á að það skyldi vera forseti Alþingis sem með þeim hætti reifaði samband þingsins og forseta. Ég lýsi því yfir að ég er þessu allsendis ósammála.

Við þessa umræðu hefur m.a. verið rætt um framvinduna og framtíð þess máls sem hér hefur verið undir. Þeir sem hafa andæft fjölmiðlalögunum hafa haft fullan sigur. Verið er að fella fjölmiðlalögin með húð og hári í burtu.

Í umsögn í áliti allshn. er reifað lítillega hvernig fjölmiðlanefnd ætti að haga störfum sínum. Ég gerði athugasemd við það í gær að þar er talað um sem hluta af sáttargjörð í málinu að nýtt frv. með aðkomu stjórnarandstöðunnar að fjölmiðlanefnd ætti að liggja fyrir á haustþingi. Ég gerði við þetta alvarlegar athugasemdir. Það gerði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon líka. Ef menn ætla sér að hafa sátt í málinu, hafa hreint borð, þá er ekki hægt að gefa nein fyrirmæli um það með hvaða hætti slík nefnd á að starfa eða hvenær hún á að ljúka störfum sínum. Og það er mikilvægt að fram komi að undir þetta tók hv. þm. Jónína Bjartmarz, varaformaður allshn. Hún hefur talað hér, eini þingmaðurinn sem talað hefur fyrir hönd Framsfl., og lýst stöðu sinni í allshn. þannig að hún væri sérstakur trúnaðarmaður Framsfl. og þær skoðanir sem hún birti þar væru skoðanir flokksins þannig að það liggur þá alveg kristaltært fyrir að það er skilningur meiri hluta Alþingis, talsmanna fjögurra flokka hið minnsta á því að engin tímamörk eru á þessu starfi og það er á þeim grundvelli sem ég lýsi því yfir fyrir hönd Samf. að við munum taka þátt í því starfi. Það er á þeim forsendum.

Í annan stað, herra forseti, spunnust ákaflega miklar og merkilegar umræður um 26. gr. stjórnarskrárinnar. Ég hef lýst henni svo að hún sé mikilvægur nauðhemill sem þjóðin getur gripið til þegar stjórnarherrar, blindaðir af þeim vinnubrögðum sem þeir hafa tekið upp, aka út af. Þá er hægt að grípa í þennan nauðhemil til að koma í veg fyrir að verulegt slys verði. Það var gert núna. Ég tel að þetta ákvæði hafi sannað gildi sitt í þessu máli.

Þegar málið var rætt í fjölmiðlum í aðdraganda þingfundarins sem hóst í gær gerðu menn því skóna í fjölmiðlum að það væri partur af samkomulagi stjórnarflokkanna að ráðast ætti í endurskoðun stjórnarskrárinnar beinlínis til þess að taka málskotsréttinn úr sambandi. Það liggur alveg ljóst fyrir í yfirlýsingum varaformanns allshn. og talsmanns Framsfl. í málinu að því er algerlega þverneitað að sérstaklega eigi að endurskoða 26. gr. umfram aðrar greinar. Hv. þm. Jónína Bjartmarz hefur fyrir hönd Framsfl., sem innan skamms mun veita ríkisstjórninni forstöðu, sagt að sú endurskoðun varði allar greinar stjórnarskrárinnar og hún nefndi þar sérstaklega að ekki væri ætlunin að taka 26. gr. umfram aðrar greinar. Einnig er mikilvægt að það liggi fyrir, því það er ákveðin forsenda þess að stjórnarandstaðan geti tekið þátt í endurskoðun stjórnarskrárinnar, að þar komi menn fordómalaust að verkinu og að það sé ekkert sérstakt markmið umfram önnur að ráðast t.d. til atlögu við 26. gr.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson spurði mig sérstaklega í gær hvers vegna ég teldi að í nefndarálitinu mætti lesa út þá fyrirætlan. Þó að það liggi alveg ljóst fyrir af ummælum hv. þm. Jónínu Bjartmarz að ekki er samstaða meðal stjórnarflokkanna að ráðast sérstaklega til atlögu við málskotsréttinn, þá vil ég skýra fyrir honum af hverju ég tel að þetta hafi mátt lesa úr nefndarálitinu. Það eru þrjár greinar álitsins sem ég vísa sérstaklega til.

Í 3. mgr. nefndarálitsins segir að ljóst sé að beiting forseta Íslands á synjunarvaldi samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar hafi leitt til stjórnlagakreppu. Þarna er beinlínis sagt að beiting forsetans á þessu tiltekna ákvæði hafi leitt til ákaflega alvarlegs ástands. Síðar segir í álitinu að sú staða sem upp hafi komið í tengslum við málið dragi með öðru fram þann vafa sem í öllu tilliti er á beitingu og framkvæmd 26. gr. stjórnarskrárinnar og í beinu framhaldi af því ályktar meiri hlutinn með svofelldum hætti:

,,Telur meiri hlutinn mikilvægt að taka til við þá endurskoðun stjórnarskrárinnar ...`` Síðan er haldið áfram og lögð sérstök áhersla á þá kafla þar sem 26. gr. er. Það er af þeim sökum, herra forseti, sem ég taldi að úr nefndarálitinu mætti lesa þessa ætlan. En ég tek það hins vegar fullkomlega gott og gilt þegar því er lýst yfir að menn ætli að fara í endurskoðun stjórnarskrárinnar án þess sérstaklega að hafa það að markmiði að fara í umrædda grein.

Í nefndaráliti meiri hlutans er síðan haft sérstaklega eftir skoðun sem rakin er til þess sem hér stendur, formanns Samf. Þar er því haldið fram að eftir að forsrh. --- og vísað er til ræðu sem forsrh. hélt líkast til 7. febrúar þar sem hann lýsti því yfir að ráðast þyrfti í endurskoðun stjórnarskrárinnar og sérstaklega I. og II. kaflann. Hæstv. dómsmrh. lýsti því yfir í sjónvarpsþætti sem ég var með honum í 26. mars að ekki síst ætti að aftengja málskotsréttinn við þá endurskoðun. Í nefndarálitinu er sagt að þetta hafi forsrh. lýst sig reiðubúinn til að gera við jákvæðar undirtektir leiðtoga annarra stjórnmálaflokka. Nú ætla ég ekki að tefja þennan fund og þingið með því að biðja ábyrgðarmanninn á nefndarálitinu um að finna þau ummæli eftir formanni Samf. sem réttlæta það að þetta sé eftir haft vegna þess að þetta hef ég aldrei sagt. Þvert á móti gæti ég í góðu tómi sýnt hv. þm. Bjarna Benediktssyni ummæli eftir mig í sjónvarpi, grein sem bar heitið Stjórnarskráin og Samfylkingin, sem birt var í miðopnu Morgunblaðsins og sömuleiðis viðbrögð mín þegar blaðamaður Morgunblaðsins spurði mig að þessu. Þar kom fram alveg skýrt að ég var að sönnu reiðubúinn fyrir hönd Samf. að ganga til endurskoðunar stjórnarskrárinnar en ég tók það sérstaklega fram að brýnni nauðsyn væri á að endurskoða aðra hluta en beinlínis þessa kafla. Einnig er hægt að lesa eftir mér að ég hef sagt að hugsanlega komi til greina að styrkja málskotsákvæðið enn frekar. Bara til að þetta liggi alveg ljóst fyrir og geri ég ekkert meira mál úr því. En þetta er afstaðan. Við höfum lagt það alveg skýrt fram hvaða stefnu við höfum um endurskoðun stjórnarskrárinnar og ég ætla ekki að þreyta þingið með því að ræða það sérstaklega.

[10:15]

Ég vil að lokum segja þetta, herra forseti. Mér finnst það dálítið sorglegt að stjórnarþingmennirnir skuli ekki vera samkvæmir sjálfum sér. Ég tek það gott og gilt þegar þeir færa þau rök í nefndaráliti og í ræðum hv. formanns allshn. fyrir að draga frv. til baka að stjórnskipulegur vafi ríki á gildi þess. Ég spurði í gær hv. þm. Bjarna Benediktsson í fyrstu ræðu minni í hverju þessi stjórnskipulegi vafi kæmi fram og hann svaraði á þá leið að prófessorar og virtir fræðimenn teldu að hægt væri að fara þá leið sem lögð var til í frv. og fólst í því að leggja fram frv. sem lagði til afnám gildandi laga samhliða því að setja ákaflega keimlík lög. Brellan sem hæstv. dómsmrh. kallaði svo. Aðrir lögfræðingar og fræðimenn mótmæltu því hins vegar. Þetta rakti hv. þm. með mjög afdráttarlausum og heiðarlegum hætti. Stjórnskipulegur vafi. Ályktun meiri hlutans er þó þessi: Við drögum frv. til baka og við förum ekki þessa leið.

Ef ríkisstjórnin ætlar að verða samkvæm sjálfri sér hlýtur hún að beita nákvæmlega sömu röksemdafærslu og ályktunum gagnvart eftirfarandi spurningu: Er hægt að kippa burt máli sem forseti hefur í krafti 26. gr. sett í ferli þjóðaratkvæðagreiðslu? Þar ríkir nákvæmlega sami vafi. Það eru ákaflega virtir fræðimenn sem telja að það sé hægt. Þau rök sem Eiríkur Tómasson hefur t.d. flutt fyrir því eru þung, ekki síst á þeim ólgutímum sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa leitt til. En það eru aðrir sem hafa fært rök að því að það sé ekki hægt og þau eru ekki síður gild. Niðurstaðan: Stjórnskipulegur vafi. Ályktunin sem ríkisstjórnin ætti þá, ef hún er samkvæm sjálfri sér, að draga af málinu er að sú leið er ekki fær að taka málið úr þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri ályktunin sem menn ættu að draga.

Til að fylgja þeirri meginreglu sem er undirrót afstöðu ríkisstjórnarinnar varðandi lyktir fjölmiðlamálsins hefði það þurft að gerast. Þessi meginregla, þó að hún sé ekki orðuð í nefndaráliti meiri hlutans, er eftirfarandi: Stjórnarskráin á að njóta vafans. Þess vegna er það eðlilegt að í þessu tilviki ætti stjórnarskráin líka að njóta vafans. Við alþingismenn hver og einn sem einstaklingar og án tillits til þeirra flokka sem við tengjumst höfum unnið einstaklingsbundinn eiðstaf að stjórnarskránni. Við höfum svarið þess eið að verja hana og virða. Þegar við stöndum síðan frammi fyrir þeirri stöðu að uppi eru kostir varðandi túlkun á stjórnarskrá gerir þessi eiðstafur það að verkum að okkur ber eiðbundin skylda til að velja þann kost sem felur í sér minnstu áhættuna fyrir stjórnarskrána og hrós sé þingmönnum stjórnarflokkanna fyrir að hafa fylgt þeirri afstöðu varðandi frv. sjálft. En ósamkvæmni þeirra birtist í því að þeir fylgja ekki lengur þeirri meginreglu þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Ég tel, herra forseti, að það sé líka dapurlegur kafli í allri þessari sögu að fjölmargir ráðherrar og forustumenn lýstu því yfir með ýmsum hætti gagnvart þjóðinni að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin. Ég gæti tafið tíma þingsins með því að lesa ein þrenn ummæli hæstv. utanrrh., álíka mörg hæstv. forsrh. og síðan slangur af ummælum eftir aðra ráðherra, hæstv. dómsmrh., fjmrh. og menntmrh. Þessir ráðherrar lýstu því yfir að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin. Það eru yfirlýsingar ráðamanna. Það eru loforð gagnvart þjóðinni. Hvað eiga menn að gera við loforð? Þeir eiga að halda loforðin.

Fram kom í erindisbréfi til starfshóps lögfræðinga sem ríkisstjórnin setti á laggirnar í tengslum við framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu að ríkisstjórnin hefði ákveðið að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla. Hæstv. forsrh. og utanrrh. áttu fundi með forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna 8. júní í Stjórnarráðinu. Hann stóð skemur en margur vildi. Þar varð samkomulag um tvennt: Dagsetninguna um hvenær þing skyldi saman kvatt og að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin fyrri hluta ágúst.

Í þingræðu sem hæstv. forsrh. flutti mánudaginn 5. júlí staðfesti hann þennan skilning. Í forsetabréfi sem hann las upp, staðfest á Bessastöðum 10. júní, sagði beinlínis, með leyfi forseta: ,,Forsætisráðherra hefir tjáð mér að nauðsyn beri til að kveðja Alþingi saman til að fjalla um tilhögun atkvæðagreiðslu þeirrar sem ákveðið hefur verið að fram skuli fara ...`` Þetta lá því fyrir.

Nú má velta því fyrir sér með hvaða hætti slík rof gætu komið síðar upp í hugsanlegum dómsmálum til að mynda. Ég tel að líkur séu á því og það er ekki síst sú afstaða sem ræður því hvernig ég greiði atkvæði hérna. Ég get ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að málsmetandi lögfræðingar á sviði mannréttindalögfræði hafa fært gild rök að því að um leið og forseti lýðveldisins beitir 26. gr., synjar frv. samþykkis og setur það í ferli þjóðaratkvæðagreiðslu hafi stofnast hjá sérhverjum kosningarbærum Íslendingi réttur til að taka þátt í kosningunni. Þetta er ein tegund af kosningarrétti. Það fellur undir mannréttindi. Færa má og færð hafa verið rök að því að með því að svipta menn þeim rétti sé verið að skerða þau mannréttindi og það kann að verða andlag dómsmáls sem reisist af þeim völdum. Ég tek eftir að einn hv. þm. hristir höfuðið en það er samt sem áður þannig að sá lögfræðingur sem setti þessi rök fram, hv. þm. Kjartan Ólafsson, hefur unnið öll þau mannréttindamál sem hann hefur flutt við erlenda dómstóla. Okkur alþingismönnum ber því að hafa þetta í huga. Ef vafi leikur á að við séum að fylgja stjórnarskránni þá staldra menn við og taka þann kost og okkur ber að taka þann kost þar sem minnstar líkur eru á því að við gerum það. Ég tel því að þetta mál hefði átt að fara alla leið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er óhjákvæmilegt að horfa líka til þess að hér er að skapast ákveðið fordæmi. Ef sú staða kemur upp aftur að forseti synji einhverju máli sem Alþingi hefur samþykkt, á það þá að verða reglan í framtíðinni að þingið hlaupi til og breyti lögunum? Það var ekki það sem stjórnarskrárgjafinn og höfundar stjórnarskrárinnar ætluðu sér. Það var ekki þannig. En þó að þingmenn stjórnarliðsins hafi komið hér upp í gær og sagt að þetta væri ekki fordæmi, þá ráða þeir engu um það. Gjörningurinn er til, verður til að loknum þessum degi og til hans verður auðvitað horft þegar menn fara í framtíðinni að skýra þessi mál og hugsanlega ráða úr einhverjum svipuðum vandamálum og hér hafa komið upp.