Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 10:24:41 (9619)

2004-07-22 10:24:41# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[10:24]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var með nokkuð stór orð áðan. Þá er ég ekki að vísa til þess að hv. þm. hafi verið stóryrtur í hefðbundinni merkingu þess orðs, heldur liggur það alveg hreint og klárt fyrir að hv. þm. Össur Skarphéðinsson fagnar mjög ákvörðun forseta Íslands að neita að samþykkja lög sem meiri hluti Alþingis hefur samþykkt. Með öðrum orðum, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og hann fór yfir það, talaði um að hann vildi breyta þeirri stjórnskipun sem við höfum þekkt sl. 60 ár. Hann talar um að hér hafi verið notuð 26. gr. sem hann hefur nefnt tæra snilld, neyðarhemil sem þjóðin notaði.

Við fórum aðeins yfir þetta í gær og ég spurði hann í andsvari en fékk lítil svör af hverju þessi afstaða hans hafi breyst frá því að hann var sem formaður þingflokks Alþýðuflokksins að keyra í gegn EES-samninginn þar sem nákvæmlega sömu álitaefni komu fram. Það komu sérfræðingar sem töldu að Alþingi væri að brjóta stjórnarskrána og svo sannarlega voru deilur í þjóðfélaginu. Ég vil því nota tækifærið aftur, þar sem lítið varð um svör hjá hv. þm. í gær, að kanna hvort meira væri um svör hjá hv. þm. í dag og spyrja á hvaða tímapunkti þessi afstaða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar breyttist frá því að hann var formaður þingflokks Alþýðuflokksins og Alþýðuflokkurinn ásamt Sjálfstfl. taldi það ekki vera skynsamlegt og ekki í neinu tilefni við efni máls að fara út í þjóðaratkvæðagreiðslu um þann samning frekar en önnur erfið mál.