Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 10:29:20 (9622)

2004-07-22 10:29:20# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[10:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég held að það sé flest að verða sagt sem segja þarf í þessu máli. Ég þarf ekki fyrir mitt leyti eða hönd míns flokks að lengja þessa umræðu mikið. Uppgjöf ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar á Alþingi blasir við hverjum manni og mætti kalla það að vera að nudda salti í sárin að lengja mikið umræður um málið. Það blasir við, talar fyrir sig sjálft og þarf í sjálfu sér ekki frekari orð um að hafa. Þvert á móti er alveg sjálfsagt og rétt og skylt að hjálpa mönnum í land, sérstaklega ef menn bera gæfu til þess að vilja reyna landtöku í máli af þessu tagi. Það dapurlegasta er auðvitað ef menn hafa hvorki kjark né stærð í sér til að horfast í augu við eigin mistök og reyna að læra af þeim. Það dapurlega er auðvitað að heyra menn enn vera að reyna að kenna öllum öðrum um en sjálfum sér hrakfarir sem eru ekkert annað en sjálfskaparvíti, algert sjálfskaparvíti. Hvernig getur eitt mál orðið meira sjálfskaparvíti en nákvæmlega svona þegar upphafsmenn málsins, þegar frumkvöðlarnir, þeir sem setja hlutina af stað enda með þá með þeim hætti sem nú blasir við okkur?

[10:30]

Þetta mál er ekki forseta lýðveldisins að kenna. Hann var ekki upphafsmaður þessa máls. Þetta er ekki stjórnarandstöðunni að kenna. Þetta er ekki þjóðinni að kenna. Það þýðir ekkert fyrir ríkisstjórnina eða talsmenn hennar að láta svona. Auðvitað eru ummæli af því tagi að forseti lýðveldisins hafi ráðist á Alþingi út úr öllu korti. Þau eru efnislega röng. Það liggur fyrir að þetta mál hefur ekki gengið þannig fyrir sig og það er líka fráleitt að halda slíku fram vegna þess hvernig stjórnskipun okkar er og hvernig um hana hefur verið búið í stjórnarskrá lýðveldisins frá stofnun. Sökudólgarnir eru þá þeir sem settu 26. gr. inn í stjórnarskrána 1944 og gengu frá því þannig að þetta vald væri hjá þjóðinni og forsetinn milligöngumaður um það.

Það hefur alltaf legið fyrir, hjá nánast öllum, að þetta vald væri virkt og til þess gæti komið að því yrði beitt. Ég held að það sé alveg nýtilkomið að menn hafi gefið sér að í því yrði fólgin andúð forsetans eða efnislegt inngrip hans þannig að réttmætt væri að hann lægi undir skömmum fyrir. Auðvitað geta menn haft skoðanir á niðurstöðu forseta á hverjum tíma, hver sem hann er, að beita eða beita ekki málskotsréttinum. Menn hafa verið í fáfengilegum samanburði milli mismunandi ákvarðana, mismunandi forseta í mismunandi málum á mismunandi tímum, sem ekkert hefur upp á sig. Þetta vald er samkvæmt stjórnarskránni hjá forsetanum. Hann fer með það og hann einn getur borið á því ábyrgð hvort hann kýs að beita því eða beita því ekki. Samanburðarfræði af því tagi að tiltekinn forseti hafi ekki gert hið sama á einhverjum tíma sem annar forseti gerir seinna við aðrar aðstæður í öðru máli held ég að hafi bókstaflega ekki neitt upp á sig.

Ég tel sömuleiðis fráleitt að telja að fólgin sé mótsögn í 26. gr. stjórnarskrárinnar og þeim möguleika að forseti beiti málskotsréttinum gagnvart þingræðisreglunni. Það er algerlega fráleitt. Halda menn að höfundar stjórnarskrárinnar 1944 hafi verið þeir aukvisar og einfeldningar að þeir hafi búið til einhverja hryllilega mótsögn í stjórnarskránni með þessu? Nei. Enda er það ekki í neinni mótsögn við lýðræðis- og þingræðisgrunnreglur þótt þjóðin sjálf, sama þjóð og kýs þingmenn, taki sjálf beint og milliliðalaust ákvarðanir um stór mál hjá þjóðinni. Það er í góðu samræmi við grunnhugtak lýðræðisins. Ég veit ekki til að það sé sérstakt vandamál hjá þeim þjóðum þar sem menn hafa notast við beint milliliðalaust lýðræði.

Einhver var að segja að það væru vandræði í Kaliforníu af því að í stjórnarskrá Kaliforníuríkis eru möguleikar til að kalla fram atkvæðagreiðslur um stærri mál. Ég held að það hafi verið hæstv. fjmrh. Geir Hilmar Haarde sem taldi að það þvældist fyrir mönnum þar í stjórn ríkisins. Ég kallaði þá fram í og sagði að ég vissi ekki til að Sviss væri komið á hausinn. Ég veit ekki annað en að það gangi þokkalega í Sviss. Hvernig er fyrirkomulagið þar? Það er þannig að þjóðin sjálf afgreiðir stærri mál í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég veit að þeim líst ekki vel á það í Evrópusambandinu. (GHall: Þeir greiða ekki atkvæði um svona mál.) Það er ýmislegt sem kosið er um í Sviss, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, og hefur gengið vel. Engin þjóð í Evrópu hefur búið við meiri stöðugleika, farsæld og frið en Sviss, um mörg hundruð ára skeið. Það rekja margir til þess hvernig þeir ganga frá stærri málum sínum.

Þeir sem unnu að setningu stjórnarskrárinnar á sínum tíma 1944 vissu vel hvað þeir voru að gera. Þeir voru að stofna lýðveldi. Það var reyndar flutt um það brtt. hvort það ætti að kallast þjóðveldi í anda gamla þjóðveldisins. Sú varð ekki niðurstaðan, sem vel hefði mátt vera mín vegna. Þeir voru ekki að færa gamalt konungsvald inn í landið. Þeir voru að stofna lýðveldi og það var á hreinu. Og þeir voru ekki að búa til mótsagnir við stjórnskipunina þegar þeir gengu frá 26. gr. stjórnarskrárinnar, eins og raun ber vitni.

Ég hef, virðulegur forseti, fært fram þau sjónarmið mín að öruggustu og eðlilegustu viðbrögð Alþingis við þessar aðstæður væru ein og aðeins ein. Ein viðbrögð eru hafin yfir allan vafa, um það eru allir sammála. Engum hefur tekist að sýna fram á að það sé nein óvissa af einu eða neinu tagi í því fólgin að láta þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram í samræmi við skýr ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar. Um þá kosningu gilda einfaldar venjulegar reglur. Ég hef engan mann heyrt reyna að halda því fram að sú leið sé ekki hafin yfir allan vafa. Vafinn stofnast af því að velta fyrir sér öðruvísi viðbrögðum. Þá fyrst kemur einhver óvissa til sögunnar er menn velta fyrir sér að gera eitthvað annað en það sem eðlilegt er samkvæmt orðanna hljóðan og menn ætluðust til, annað en það sem var hugsun stjórnarskrárgjafans á sínum tíma. Ég tel sömuleiðis að það sé hið eina sem er í fullkomnu samræmi við eðli málskotsréttarinntaks 26. gr. Með þeim viðbrögðum er forsetinn, af hálfu Alþingis, sá milligöngumaður og umboðsmaður þjóðarinnar sem honum var ætlað að vera og annað ekki.

Ég endurtek að ég er mjög hugsi yfir því fordæmi sem menn virðast ætla að gefa með þessum viðbrögðum. Ég er ekki viss um að þau eigi eftir að verða til sérstakrar farsældar í þessum samskiptum. Það er stórundarlegt að heyra hugmyndir af því tagi að ef forseti ákveði að beita málskotsréttinum þá eigi hann að vara menn við eða að menn fari í samningaviðræður við forseta fram og til baka. Ég hef aldrei heyrt annað eins. Hvernig í ósköpunum halda menn að það mundi þróast í framhaldinu. Þetta hlýtur að vera annaðhvort eða, algerlega aðskilið. Auðvitað á það að vera þannig að forsetinn tjái sig ekki á meðan mál eru til umfjöllunar á þinginu. Það væri sérkennilegt ef forsetinn færi að senda mönnum aðvaranir. Hvað væri hann að gera? Ja, það er eitt ákvæði í 27. gr. sem mér líst ekki vel á, góðir þingmenn. Viljið þið ekki aðeins hugleiða það áður en þið sendið mér þetta til staðfestingar. Það sjá allir út í hvaða vitleysu allt slíkt mundi leiða og getur aldrei gengið.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi í andsvari áðan að stjórnskipunin gengi illa upp. En séu viðbrögðin eingöngu þau að greiða fyrir kosningunni og láta hana fara fram þá hvílir ábyrgðin áfram á herðum forsetans. Atkvæðagreiðslan er stór aðgerð og ég tel að menn þurfi engar áhyggjur að hafa af því að menn fari að ofnota málskotsréttinn. Það er miklu líklegra að synjunarvaldið verði virkara ef sú hefð færi að stofnast að ef svo ber undir kippi menn málum til baka. Þá er minna mál að bregðast við. Ef menn láta alvöru málsins felast í því að þá fari alltaf fram þjóðaratkvæðagreiðsla, að farið sé út í það stóra aðgerð, þá grípur forsetinn væntanlega sjaldnar til þess réttar. Þá er málið í þeim farvegi sem það á að vera og minni líkur á að það valdi miklum erfiðleikum í þessum samskiptum. Það getur aldrei verið neitt að því í sjálfu sér að þjóðin sjálf, landslýður, samanber orðið lýðveldi og lýðræði, gangi frá málinu. Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég hef áður sagt um þetta mál.

Í framhaldinu hefur verið rætt um tvennt, herra forseti. Það er að halda áfram eða hefja á nýjum grunni starf í svokallaðri fjölmiðlanefnd, einhvers konar stjórnskipaðri nefnd um fjölmiðlamál. Ég vil taka það fram að af hálfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er að sjálfsögðu fullur vilji til að taka þátt í slíku starfi. Við gerum það að sjálfsögðu á grundvelli þess að um verði að ræða hreint borð, að menn gangi óbundnir og án skilyrða að því starfi og því verði sköpuð skilyrði í tíma og rúmi þannig að úr geti orðið farsælt og gott starf. Hið sama gildir um nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það liggur fyrir og hefur gert síðan í haust, þegar við áttum um það orðastað, ég og hæstv. forsrh., að við erum tilbúnir að hefja það starf sem af og til hefur verið rætt um undanfarin ár, allt frá 1995 þegar síðustu meiri háttar endurskoðun stjórnarskrárinnar lauk með nýjum mannréttindakafla. Það stóð til að halda áfram slíkri vinnu, sem hefur í raun staðið með hléum allan lýðveldistímann. Þá var rætt um, og hæstv. forsrh. gerði sérstaklega grein fyrir þeim sjónarmiðum sínum, að það væri vænlegra til árangurs --- það er allt í lagi að fara yfir þetta hér því menn eru að rugla um þetta fram og til baka --- að taka sérstaklega fyrir tiltekna kafla stjórnarskrárinnar og þá væri eðlilegt að byrja á að taka fyrir fyrstu kaflana. Ég tel að þetta sé ekki óskynsamlegt verklag.

En væntanlega dettur ekki einasta manni í hug að hægt sé að taka tilteknar greinar út úr köflum stjórnarskrárinnar, tína þær út og glíma sérstaklega við þær. Halda menn að þetta hangi ekki eitthvað saman? Halda menn að það sé ekki samhengi í þessu, einhver orsakatengsl þarna á milli og samhengi? Það er auðvitað ekki hægt annað en taka allan fyrri hluta stjórnarskrárinnar í samhengi og skoða hann. Þar undir er þessi margfræga 26. gr., bara nákvæmlega eins og allt annað sem þar stendur. Það er ekki hægt að glíma við hana einangrað, eins og hún sé sjálfstætt einangrað fyrirbæri í stjórnarskránni. Hún var tengd við niðurstöðuna um þjóðkjör forsetans á sínum tíma. Hún tengist 2. gr. og því hvernig um hana er búið, þar sem stendur að forseti og Alþingi fari saman með löggjafarvaldið. Það þarf auðvitað líka að fara yfir það og skýra hvernig um þá hluti er búið, þ.e. sem forseti er ábyrgðarlaus gagnvart, stjórnarathafnirnar, og svo þar sem forseti fer með vald.

Hið sama gildir varðandi stjórnarskrárendurskoðunina af hálfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við erum að sjálfsögðu tilbúin til slíks starfs, enda verði þar sömuleiðis byrjað með hreint borð. Menn setjist niður án fyrirframskilyrða um útkomuna og taki sér þann tíma sem þarf til að það starf verði vandað.

Hvað stendur þá eftir, virðulegur forseti? Jú, eftir stendur þessi dýrkeypta æfing í mistökum, þetta langa námskeið í því hvernig ekki á að gera hlutina, 100 daga tapaða stríðið, sjö eða átta mánaða barningur frá því að þessi mál bar fyrst á góma á þinginu í nóvembermánuði síðastliðnum. Það stendur reyndar eftir pínulítið þingmál. Það er svolítið gaman að bregða því á loft. Hæstv. utanrrh. sér hvað þetta er stórt. Þetta er fjölmiðlamálið, herra forseti, sem eftir er. Þar eru ákvæði um útvarpsréttarnefnd. Þau eru ekki svo galin. Það er eftir, hitt er horfið og er best að það gleymist sem fyrst.