Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 10:44:56 (9623)

2004-07-22 10:44:56# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[10:44]

Sólveig Pétursdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hafa farið fram afar sérstakar umræður á hinu háa Alþingi af hálfu stjórnarandstöðunnar, bæði í gær og í morgun. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur sérstaklega fjallað um íslenska stjórnskipun og stjórnarskrána, sem er kannski ekki skrýtið þegar við lítum til þess að í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins hefur forseti Íslands ákveðið að beita synjunarrétti, sem ég vil nefna svo.

En vegna þess að hv. þm. gerði sérstaklega að umtalsefni þjóðaratkvæðagreiðslur, væntanlega til að lýsa skoðunum sínum í því efni og hversu máttugar þær væru og góðar fyrir lýðræðið gagnvart hinu hefðbundna fulltrúalýðræði sem við höfum búið við, þá langar mig til að spyrja og halda því til haga, vegna þess að hann nefndi sérstaklega Sviss: Skyldi það vera tilviljun að konur í Sviss fengu ekki kosningarrétt fyrr en fyrir mjög skömmu síðan? Það er auðvitað vegna þess að það voru karlar sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum og veittu þeim ekki þann rétt.

Mér finnst líka rétt að rifja upp að á sínum tíma, þegar rætt var um afhendingu íslensku handritanna á danska þjóðþinginu, kom fram tillaga um að það mál færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sem betur fer var það fellt í þinginu vegna þess að að mati flestra sérfræðinga hefði danska þjóðin sagt nei við þeirri tillögu að afhenda Íslendingum handritin.

Mér fannst rétt, hæstv. forseti, að halda þessum tveimur dæmum til haga þar sem rætt var um kosti þjóðaratkvæðagreiðslu. En auðvitað mætti margt fleira segja um þetta mál.