Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 10:46:56 (9624)

2004-07-22 10:46:56# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[10:46]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi Sviss vegna þess að það er held ég óumdeilanlega það land sem langlengst hefur gengið í þessum efnum. Ég var ekki endilega að segja að þar ætti ég fyrirmynd og að ég vildi leggja til að farið yrði að með nákvæmlega sama hætti hér. Ég held að það megi kannski fara einhvern milliveg þar.

Ég sé ekki fulltrúalýðræði, þjóðþing og þingræði, þingbundna ríkisstjórn og síðan aftur þjóðaratkvæðagreiðslur um einstök stór mál sem einhverjar andstæður. Það er engin mótsögn í því fólgin. Ég hef aldrei áttað mig á því hvað er svona erfitt við að sama þjóðin og kýs þingmennina geti í einstökum tilvikum tekið beint og milliliðalaust ákvarðanir um stórmál. Það finnst mér eðlilegast.

Ég tel að fjögur til sex stórmál hefðu átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu á lýðveldistímanum, alveg hiklaust. Auðvitað átti að vera þjóðaratkvæðagreiðsla um inngönguna í NATO. Auðvitað átti að vera þjóðaratkvæðagreiðsla um jafnrisavaxið og afdrifaríkt mál og Kárahnjúkavirkjun. Nokkur fleiri dæmi mætti nefna.

Varðandi það að þjóðaratkvæðagreiðslur geti verið varasamar vegna þess að út úr þeim gæti komið önnur niðurstaða en menn vilja þá var það víst ungur framsóknarmaður, held ég, sem skrifaði á vefrit í borginni að fjölmiðlamálið ætti náttúrlega alls ekki að fara í þjóðaratkvæði af því að úr því mundi ekki koma rétt niðurstaða. Bíðum við, er sú niðurstaða sem þjóðin kemst að ekki alltaf rétt í lýðræðislegum kosningum? Er einhver á Alþingi Íslendinga sem heldur öðru fram? Það er afar brothætt röksemdafærsla að tala gegn þjóðaratkvæðagreiðslum á þeim forsendum að einstöku sinnum geti komið eitthvað vitlaust út úr þeim eða eitthvað sem mönnum er á móti skapi.