Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 10:49:48 (9626)

2004-07-22 10:49:48# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[10:49]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að þegar bæði formaður Samf. og formaður Vinstri grænna hafa reifað þjóðaratkvæðagreiðslu á því þingi sem við nú sitjum þá töluðu þeir báðir, annar í þáltill. og hinn héðan úr ræðustól, um nauðsyn þess að unnt væri að koma á þjóðaratkvæðagreiðslu. En hvorugur þeirra minntist einu orði á málskotsrétt forseta, sem þeir kalla nú. Orð þeirra verða ekki skilin öðruvísi en svo að sú hugmynd hafi ekki verið í huga þeirra. Það sýnir hversu fjarri það var hugsun alþingismanna fram að þessu vori að til þessara atburða gæti komið.

Ég vil líka segja að það er athyglisvert að halda því fram að virðing þingsins rýrni við það að forseti lýðveldisins ráðfæri sig við helstu stjórnmálaleiðtoga landsins, áður en hann grípur til synjunarákvæðis. Ég vil raunar ganga lengra og segja, eins og ég sagði í gær, að ef forseti lýðveldisins skrifar upp á frv. sem hann er fyrir fram ráðinn í að synja ef Alþingi samþykki, þá þykir mér að hann hljóti að láta efasemdir sínar í ljós. Að öðrum kosti mundi ríkja of mikil óhreinskilni milli Alþingis og forseta.

Ég held að eins og báðir þessir formenn hafa lýst slíkri atburðarás sé ljóst að þeir mundu kalla það vandræðaástand, segja það rýra virðingu þingsins og þar fram eftir götunum. Auðvitað rýrir það líka virðingu þingsins ef farið er á bak við þingið. Þetta lýsir því betur en allt annað að við erum í óvæntri stöðu sem hvorugur þessara heiðursmanna hafði reiknað með að gæti komið upp, Samf. í tillögugerð sinni fyrr í vetur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon í fyrirspurn sinni til forsrh. Það er líka eftirtektarvert að Steingrímur J. Sigfússon tók undir öll ummæli forsrh. þegar hann svaraði fyrirspurn varðandi stjórnarskrána.