Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 10:55:32 (9629)

2004-07-22 10:55:32# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Forsetinn er forseti allrar þjóðarinnar. Forsetinn er fyrst og fremst umboðsmaður þjóðarinnar. Forsetinn er þjóðkjörinn. Væri forsetinn í samskiptum af því tagi sem tengdust pólitískum átakamálum og afgreiðslu mála hér á þingi þá hlyti hann að hafa samband og samráð við alla jafnt, forustumenn stjórnarandstöðu ekki síður en ríkisstjórnar. Hann er jú forseti allrar þjóðarinnar og þar með allra íslenskar stjórnmálamanna.

Það að vísa í fundi forsrh. og forseta, sem væntanlega fjalla um þau praktísku samskipti ekki síst sem þessi embætti þurfa að eiga með sér, gengur ekki upp í þessu samhengi. Það hlýtur hv. þm. að sjá.

Hvers eðlis eru þau mál sem líklegast er að til greina komi að forseti beiti málskotsrétti við? Eru það ekki annað tveggja, geysilega stór og afdrifarík mál fyrir þjóðina í heild sinni eða einhver heiftarleg pólitísk ágreiningsmál sem rífa hana í sundur? Jú, líklega. Er við þær aðstæður, sérstaklega í seinna tilvikinu, líklegt að forsetinn fari að blanda sér inn í þau mál? Væri það gáfulegt?