Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 10:56:55 (9630)

2004-07-22 10:56:55# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[10:56]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. var mjög jákvæður á starfið fram undan. Það var gott að heyra að menn ætla að fara að ræða málefnalega um þessi mál og finna á þeim góða lausn. Það kom líka fram hjá honum að hann virðist sannfærður um að það þurfi lög um fjölmiðla. Af því tilefni ætla ég að spyrja hann út í tímann sem við höfum til þess. Hvaða tíma höfum til að setja lög á fjölmiðla? Höfum við mánuði? Höfum við mánuðina fyrir áramót eða höfum við þrjú ár? Höfum við tíu ár eða fimmtíu ár til að setja lög á fjölmiðla? Ég vildi gjarnan fá að vita það nánar. Mér finnst þetta skipta dálitlu máli í ljósi þeirrar orrahríðar sem við höfum staðið í undanfarið, aðallega við fjölmiðlana. Ég sé ákveðna hættu varðandi það.

Varðandi 26. gr., sem hv. þm. sagði að menn vildu breyta, þá er það ekki rétt. Ég man ekki til þess að nokkur hafi lagt til að breyta henni einni sér. Í nál. meiri hlutans kemur fram að það eigi að breyta I. og II. kafla, jafnframt því sem lagt er til að lögin yrðu felld úr gildi. Meiningin er því að breyta öllum I. og II. kafla, um hlutverk forsetans í lagasetningu. Þessi lög eru sett fram sem slík, sem undantekning í þetta skipti þar til menn eru búnir að breyta stjórnarskránni. Þetta er því ekki framsal valds til forsetans, að það verði venja að forseti fái neitunarvald á lögum.

Inn í þá umræðu hlýtur að koma spurningin um tilvist forsetans yfirleitt. Það verður gaman að heyra hv. þm. lýsa því yfir hvort nokkur þörf sé á að hafa slíkan afkomanda kónga á Íslandi.