Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:02:08 (9633)

2004-07-22 11:02:08# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hér kemur einn þingmaður Sjálfstfl. og lýsir það allt saman misskilning að menn hafi í nokkru tilviki verið að benda á 26. gr. og málskotsréttinn sérstaklega í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þá er það bara út úr heiminum, þá er það þannig að enginn flokkur á þingi er með það sérstaklega í huga. Hv. þm. Jónína Bjartmarz hefur talað skýrt í þeim efnum fyrir hönd Framsfl. og hér kemur hv. þm. Pétur H. Blöndal og gerir í rauninni hið sama, lýsir því yfir fyrir hönd Sjálfstfl. og það er vel. Þá þurfum við ekki að hafa frekari áhyggjur af því. Þá er akkúrat sá grunnur þess starfs lagður með þeim hætti sem ég hef verið að lýsa eftir og óska eftir, að allir gangi óbundnir til slíks starfs án skilyrða fyrir fram.

Varðandi fjölmiðlalögin setur hv. þm. þetta upp eins og stríð milli fjölmiðlanna og þingsins, fjölmiðla stjórnarandstöðunnar og meiri hlutans. Þetta er mjög óskynsamlegt. Er ekki verið að ræða um það einmitt núna að reyna að fara ekki í þetta með þeim hætti? Er ekki meiningin að hafa fullt samráð við fagaðila, Blaðamannafélagið, fjölmiðlafyrirtækin, draga þau með í verkið? Þau hafa ekki hafnað því.