Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:16:16 (9635)

2004-07-22 11:16:16# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:16]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði að verja ætti rétt fólksins til þess að kjósa um umdeild mál og fólkið ætti rétt á að fá slík mál til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við getum verið sammála um að þjóðaratkvæðagreiðsla geti átt rétt á sér í ýmsum tilvikum. En það var alveg ljóst af ræðu hv. þm. að dómgreind hans t.d. um hvaða mál hefðu átt að fara til þjóðaratkvæðagreiðslu og dómgreind forseta Íslands um hvaða mál ættu að fara til þjóðaratkvæðagreiðslu fer einfaldlega ekki saman. Þá hlýt ég að spyrja, ef þetta á að vera réttur fólksins: Er þá ekki rétt að hafa það á þann veg að það sé fólkið sem krefst þess eða óskar eftir því að fá mál til atkvæðagreiðslu? Eða að ákveðinn fjöldi þingmanna geti farið fram á það? Það sé með öðrum orðum ekki eingöngu dómgreind eins manns sem ræður því hvaða mál séu þannig vaxin að rétt sé að þau fari til þjóðaratkvæðagreiðslu, því að eins og ég sagði áðan og kom skýrlega fram í ræðu hv. þm. er dómgreind forsetans langt frá því að vera sú sama og dómgreind þingmannsins.