Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:17:57 (9636)

2004-07-22 11:17:57# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Á síðustu 60 árum hafa margir forsetar verið hér á landi og enn fleiri þingmenn. Það verður aldrei ákveðið fyrir fram að dómgreind manna fari saman. Ég reyndar kann ekki að fara í það far að bera sérstaklega saman dómgreind manna, hvað þá mína og forsetans. Ég held að við Íslendingar séum allir einstaklingar í eðli okkar og reynum að hugsa eins sjálfstætt og rökrétt og við getum. Að því leyti er bara ekki hægt að spyrja svona eins og spurt var, hvort dómgreind tveggja manna fari saman.

Að því er varðar hitt efni spurningarinnar, hvort finna megi málskotsréttinum annað form, þá sagði ég það í ræðu minni að ég teldi það vel koma til greina að skoða fleiri útfærslur og fleiri möguleika en þetta eina form, að forsetinn geti tekið þá ákvörðun að vísa máli til þjóðarinnar, því að hann tekur í rauninni enga aðra ákvörðun. Síðan er það þjóðin sem á að ljúka málinu.

Það þýðir ekki, og það kom fram í ræðu minni, að ég væri þar með að leggjast gegn því að forsetinn hefði þennan rétt. Ég sagði einfaldlega að hægt væri að finna þessu formi fleiri farvegi, en meginmarkmiðið væri að tryggja það að þjóðin fengi að taka afstöðu til umdeildra mála.