Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:19:44 (9637)

2004-07-22 11:19:44# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:19]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé almennt leitt í ljós í þessari umræðu að mjög mikil nauðsyn er á því að fara í endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það hefur komið fram í ræðum, ekki síst formanna stjórnarandstöðuflokkanna, sem gerðu okkur þann heiður í allshn. að koma til starfa í nefndinni og ég held að það hljóti að hafa verið þeim mikill skóli, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Að vísu þurftu þeir að ryðja frá þeim þingmönnum sem áttu sæti í nefndinni. En það var mat þeirra þingflokka greinilega að málið væri þess eðlis að rétt væri að formenn flokkanna sætu í nefndinni. Ég heyri það á málflutningi hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar og reyndar annarra formanna stjórnarandstöðuflokkanna að þetta hafi verið nauðsynlegt og þá væntanlega til undirbúnings því að menn geti farið í endurskoðun á stjórnarskránni og ekki síst á umræddri 26. gr.