Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:20:59 (9638)

2004-07-22 11:20:59# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:20]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Áður en þetta mál kom upp í þeim búningi sem það varð eftir að fjölmiðlanefndin skilaði áliti sínu til menntmrh. í endaðan apríl hafði ég tjáð þá afstöðu mína og flokks míns að við værum algjörlega tilbúnir til að skoða ýmislegt í stjórnarskránni, alveg án skilyrða, ekki væri verið að skoða eitt eða tvö atriði, heldur almennt.

Í sambandi við það að við höfum þurft að ryðja einhverjum burt úr allshn. þá högum við málunum til í miklu bróðerni í mínum flokki. Þannig hagaði til að hv. þm. Sigurjón Þórðarson var að keppa á landsmóti norður í Skagafirði. (Gripið fram í: Í hvaða grein?) Í sundi, hann stendur sig vel í því. Ég held að hann hafi verið okkur þingmönnum til sóma að hafa gert það. Ég tók yfir störf hans og ég held að það hafi líka verið til góðs að við gerðum það, formennirnir.