Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:22:14 (9639)

2004-07-22 11:22:14# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:22]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla í lok umræðunnar, því að nú líður senn að lokum hennar um þetta mjög svo umdeilda mál, að koma að nokkrum athugasemdum í tilefni af þeim ræðum sem haldnar hafa verið við 3. umr. Geri ég það m.a. til að hnykkja á því sem ég hef áður tekið fram og eins líka til að eyða vafa sem mér sýnist að enn sé í hugum sumra ræðumanna sem hingað hafa komið upp í dag og varðar nál. meiri hluta allshn.

Í fyrsta lagi vil ég taka skýrt fram að að mínu áliti eru í nál. meiri hluta allshn. engin skilyrði að finna fyrir þeirri vinnu sem fram undan er. Hvorki á það við um þá vinnu sem nefndin leggur áherslu á að fari af stað við að taka saman nýtt frumvarp um fjölmiðlalög né heldur við þá vinnu sem nefndin er að mælast til að farið verði í við endurskoðun stjórnarskrár. Engin slík skilyrði er að finna í nál. og þetta verður ekki leitt af því orðalagi í nál. að mælt sé með því að slíkt frv. komi fram á haustþinginu, heldur er með því kannski fyrst og fremst verið að leggja áherslu á að að áliti nefndarinnar sé það raunhæfur möguleiki. Auðvitað verður síðan tíminn að leiða í ljós hvernig þeirri vinnu vindur fram.

Hins vegar er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram að ég er ósammála þeim þingmönnum sem halda því fram að við séum komin aftur á byrjunarreit í þessari vinnu. Ég átta mig reyndar alls ekki á því á hvaða forsendum því er haldið fram, því að þó svo að með þessu frv. verði fjölmiðlalögin felld brott, lög nr. 48/2004, erum við langt frá því að vera á byrjunarreit. Við höfum í fyrsta lagi skýrslu fjölmiðlanefndarinnar, við höfum þá þessa miklu umræðu sem stjórnarandstaðan hefur ítrekað haldið fram að hafi verið mjög efnislega rík umræða um málið --- en ég vil nú kannski ekki taka undir það að öllu leyti --- en löng og mikil umræða hefur farið fram um málið. Við höfum fengið aðkomu allra þeirra sem starfa á fjölmiðlamarkaðnum, allra þeirra hagsmunaaðila sem þar koma við sögu. Við höfum fengið fram í umræðuna sjónarmið þeirra í málinu, menn hafa horft til annarra landa hvernig lagasetningu um þetta efni er hagað þar og það er fjölmargt fleira sem ég gæti hér tínt til sem rennir stoðum undir það að við erum langt frá því að vera á byrjunarreit í þessu starfi.

Mikilvægast tel ég þó vera það að fram hefur komið vilji hjá öllum þingflokkum fyrir því að setja lög um starfsemi fjölmiðla á Íslandi. Þó hefur hvarflað að mér að með því að þingmenn stjórnarandstöðunnar leggja svo mikla áherslu á að engin skilyrði séu og að við séum komin alveg aftur á byrjunarreit og það sé algjörlega fráleitt að á komandi þingi verði hægt að klára nýja lagasetningu um þetta efni, að hinn raunverulegi vilji þeirra til að koma á lögum um þetta efni sé kannski ekki jafnmikill á borði og í orði. En á þetta mun auðvitað reyna þegar menn hefjast handa við það starf sem er fram undan og við mælumst til að verði tekið til við allra fyrsta. (Gripið fram í: Farðu nú ekki að taka þetta í sundur aftur.)

Varðandi það sem fjallað er um stjórnarskrána í nál. hefur hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni orðið tíðrætt um 26. gr. og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur jafnframt vikið að þeirri grein. Báðir eru þessir hv. þingmenn mjög uppteknir af því hvort sérstakt tilefni hafi verið til þeirra orða í nál. að við stöndum nú frammi fyrir þessari synjun, hvort það sé ekki í raun og veru --- þrátt fyrir orðalagið í nál. --- vilji meiri hluta nefndarinnar að það verði bara 26. gr. sem tekin verði til endurskoðunar. Ég tel mig reyndar hafa svarað þessu áður. Ég tel í fyrsta lagi að þessi hugsun komi hvergi fram í nál. þrátt fyrir að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi gert tilraun til þess að útskýra það fyrir mér og öðrum sem á mál hans hlýddu með hvaða hætti hann fann þennan skilning, þá tel ég alveg ótvírætt að hann komi ekki fram í nál.

En um það sem hann gerði jafnframt athugasemd við, þ.e. að formenn stjórnarandstöðuflokkanna hefðu lýst sig reiðubúna til þess að ráðast í þá endurskoðun sem forsrh. hefur tekið fram að nauðsynlegt sé að fara í, þá leyfi ég mér einfaldlega að vísa til þess sem hér hefur komið fram í þingræðum um málið.

Ég ætla að leyfa mér að snúa mér í fyrsta lagi að því sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Án þess að ég sé með beina tilvitnun í þingræðu hans kom fram í Morgunblaðinu 15. febr. á þessu ári að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon teldi ekki ástæðu til að ætla annað en að samstaða gæti tekist um að færa orðalag I. og II. kafla stjórnarskrárinnar til samræmis við nútímann og skýra þar ýmislegt. Haft er eftir hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í þessari sömu grein að vissulega megi færa ýmislegt til nútímalegra horfs í I. og II. kafla stjórnarskrárinnar.

Ég leyfi mér að vísa m.a. til þessara orða hv. þingmanna um að stjórnarandstaðan hafi tekið með jákvæðum hætti í orð forsrh. um að ráðast beri í endurskoðun þessara kafla stjórnarskrárinnar. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson taldi jafnframt í þessari sömu grein vera tilefni til að endurskoða stjórnarskrána, ekki síst með tilliti til þess að hún verði færð til nútímalegra horfs. Þetta tel ég að hljóti að liggja skýrt fyrir og þetta er ég að tína til í tilefni af athugasemd hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um að þessi orð í nál. ættu sér enga stoð í raunveruleikanum, eða a.m.k. saknaði hann þess að þessu væri teflt fram.

Ég tel að eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram hljóti tvennt sem ég hef áður lagt áherslu á að vera komið endanlega á hreint. Í fyrsta lagi hvers vegna lagt er til að ný fjölmiðlalög verði ekki sett að svo komnu máli. Ég hef vikið að því áður. Ástæðan er sú að ekki hefur tekist sú sátt um málið sem að var stefnt. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vill reyna að leiða fram þá hugsun að baki þeirri ákvörðun að meiri hluti allshn. telji það stjórnskipulag ótækt og ég tel að eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram eigi það þá að liggja endanlega fyrir að það er ekki meginástæðan. (Gripið fram í.)

[11:30]

Í annan stað legg ég áherslu á að --- við skulum bara orða það skýrt í tilefni af þessu frammíkalli, það er ekki ástæðan.

Ég ætla að lokum aðeins að víkja að því sem hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni hefur orðið tíðrætt um, þ.e. að í nál. meiri hluta allshn. séu ekki færð nægilega sannfærandi rök fyrir því að sú leið sem hér er farin, þ.e. að fella brott fjölmiðlalögin, sé tæk að stjórnskipunarrétti. Ég tel reyndar að ég hafi komið ágætlega að þessu við 2. umr. málsins en ég vil í tilefni af ummælum hv. þm. við þessa umræðu vekja athygli á því að sá skilningur byggir fyrst og fremst á því lögskýringarsjónarmiði, því lögskýringarviðhorfi að í 26. gr. stjórnarskrárinnar sé áherslan á það að þjóðin hafi atkvæðisrétt um frambúðargildi laganna. Niðurstaða meiri hluta allshn. byggir á því, þeirri áherslu að þingið hafi ávallt heimild til þess að setja lög, breyta lögum og fella lög brott, og að valdmörkum þingsins í þessu efni séu engar skorður settar í 26. gr. Jafnframt verði þeim valdmörkum engar skorður settar samkvæmt þeim lögskýringargögnum sem sumir hafa viljað horfa til eða þeim nýju lögskýringarsjónarmiðum sem teflt hefur verið fram í kjölfarið á synjun forseta Íslands á lögunum frá því í vor. Ég vek athygli á að mörg þau lögskýringarsjónarmið sem hafa komið fram fyrir allshn. og verið í umræðunni undanfarnar vikur hafa bara aldrei áður komið fram í umræðum um stjórnarskrána eða þessa tilteknu grein, aldrei nokkurn tíma verið reifuð. Það er því með áherslu á 2., 24. og 38. gr. stjórnarskrárinnar sem komist er að þeirri niðurstöðu að það sé tækt að stjórnskipunarrétti að fella brott lögin án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.

Því hefur verið haldið fram í ræðustól að það séu mannréttindi að fá að kjósa, það séu mannréttindi að fá að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni og verið sé að brjóta mannréttindi á borgurunum með því að fara þessa leið. Þessu er ég fullkomlega ósammála. Ég ætla ekki að taka jafndjúpt í árinni og einn ágætur lögmaður sem kom fyrir allshn. og sagði að þessi túlkun væri hreint rugl. (Gripið fram í: Hver var það?) En ég tek þó undir með honum að ég tel þessa niðurstöðu hreinlega fráleita. (Gripið fram í: Var þetta ...?) Já, það er rétt.

Í fyrsta lagi er þetta ákvæði sem um er að ræða, þ.e. 26. gr., einfaldlega ekki í þeim kafla stjórnarskrárinnar þar sem fjallað er um mannréttindi borgaranna. Ákvæðið er að finna í þeim kafla þar sem fjallað er um stjórnskipan ríkisins, hvernig valdheimildir handhafa ríkisvaldsins dreifast, hvernig við stöndum að lagasetningunni. Hér er einungis um það að ræða að þegar sú staða kemur upp að forseti Íslands synjar lögum frá Alþingi staðfestingar er valin sú leið að leysa úr þeirri stöðu með því að bera málið undir þjóðina. Ég hef áður fært fyrir því rök að í slíkri stöðu sé þinginu tækt að fella viðkomandi lög brott, en auðvitað blasir það líka við að hinn kosturinn var til staðar, að láta málið ganga áfram til þjóðarinnar og fá úr því skorið þar hvaða afstöðu þjóðin vildi taka til málsins. Eins og menn muna komu fram strax við 1. umr. og í kjölfar framlagningar þess frv. sem við erum að ræða ástæður þess að ríkisstjórnin valdi að fara ekki þá leið og það var vegna þeirrar óþolandi réttaróvissu sem hvíldi um þau skilyrði sem hægt var að setja slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnframt var teflt fram þeirri skoðun, sem ég lýsi mig sammála, að óeðlilegt væri að fara í þá þjóðaratkvæðagreiðslu án nokkurra skilyrða.

Svo ég víki aðeins að þeim áherslum sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt á það að með því að þingið geri þetta, með því að þingið velji þá leið að afturkalla lögin, sé verið að virkja stöðvunarvald forsetans, sem hafi ekki verið ætlun og vilji stjórnarskrárgjafans á sínum tíma. Þetta er sjónarmið í umræðunni en ég tel einfaldlega að réttur þingsins til þess að setja lög, breyta þeim og fella þau brott sé miklu mikilvægari en þetta lögskýringarsjónarmið sem á sér rætur í ræðum þeirra sem stóðu að stjórnarskránni á sínum tíma. (Gripið fram í.) Þess vegna hljótum við að leggja miklu meiri áherslu á þann rétt þingsins, að kalla slík lög til baka heldur en það hvort við séum með þessari leið að virkja um of synjunarvald forsetans, vegna þess að það blasir við okkur að við höfðum tvo kosti. Mundum við standa frammi fyrir sambærilegu máli, sambærilegri ákvörðun síðar þá mundum við jafnframt standa í það skiptið frammi fyrir sambærilegum kosti vegna þess að við höfum bara eitt einstakt tilvik --- sem er þá þetta tilvik sem við erum að fjalla um nú --- sem fordæmi fyrir því hvaða leið ætti að fara. Það er ekki að skapast nein hefð fyrir þeirri túlkun að synjunarvald forseta sé eitthvað að styrkjast með því að þessi leið er farin heldur er þetta einfaldlega pólitískt mat sem byggir á þeim rökum sem ég hef nú rakið og teflt var fram um leið og ríkisstjórnin lagði fram þetta frv.

Það er þörf á að setja almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu vilji menn halda ákvæðinu óbreyttu í 26. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrst ég er kominn hingað upp er rétt að hnykkja á því að ég tel óumdeilanlegt og ég tel nauðsynlegt að 26. gr. verði tekin með í þeirri skoðun sem þarf að fara fram á I. og II. kafla stjórnarskrárinnar í framhaldinu.

Svo ég dragi þetta saman þá eru engin skilyrði að finna í nál. meiri hluta allshn. fyrir því hvernig vinna við nýtt frv. um fjölmiðla fer fram og heldur er engin skilyrði að finna í nál. um með hvaða hætti menn eigi að ráðast í stjórnarskrárendurskoðunina. Ég lýsi furðu minni yfir því að menn skuli hafa eytt löngu máli í að reyna að lesa einhvern annan skilning út úr nál.

Ég tel mig hafa komið öllu því til skila sem ég sá ástæðu til að koma að í þessari 3. og síðustu umr.