Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:38:45 (9640)

2004-07-22 11:38:45# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:38]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Það er undarlegt með hv. þm. Bjarna Benediktsson að þetta er nú í fjórða sinn, hygg ég, sem hann kemur upp í þessari umræðu og hann talar alltaf í hvert skipti niður sitt eigið nál. Það sem við höfum fengið að vita um nál. er að orð þess um stjórnskipulegan vafa eru marklaus, þau eru misskilningur, pennaglöp. Við höfum líka fengið að vita að það er ekki meiri hluti allshn. sem heldur að lög nr. 48/2004 standist stjórnarskrá, heldur er það minni hlutinn. Það eru sjálfstæðismennirnir í nefndinni. Allir aðrir, fulltrúar annarra flokka efast.

Við höfum líka fengið að vita áður og nú aftur að þó að kaflinn um endurskoðun stjórnarskrárinnar komi í kjölfar mikillar ræðu um 26. gr., hvað hún sé vitlaus og þeir sem hana settu, þá var ekki átt við það að við eigum að fara að endurskoða 26. gr. neitt sérstaklega. (Gripið fram í.) Og núna kemur í ljós að formaður allshn. segir að þau orð séu marklaus sem standa í hans eigin nál. um það að meiri hlutinn mæli með því að nýtt frv. í þá veru, með leyfi forseta, verði undirbúið og lagt fram á haustþingi. Og hvaða veru? Jú, að rofinn verði hinn mikli varnarmúr sem sleginn á að hafa verið um takmarkalaust form eignarhalds á fjölmiðlum. Það er í þá veru, stendur í nál., en nú er það ekki lengur.

Formaður allshn. kemur fram með nýjar kenningar í staðinn --- það er gott --- fyrir þetta nál. sem er orðið marklaust gjörvallt eins og það stendur. Og það er að þeir fari þá leið í meiri hlutanum svokallaða, hinum meinta meiri hluta, sem þeir ætla að fara, annars vegar vegna þess að ekki náðist sú sátt sem að var stefnt og hins vegar vegna þess að það sé svo erfitt að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Ég ætla ekki að fjalla um seinni þáttinn nú í þessu stutta andsvari en á fyrri þættinum vil ég fá skýringar. Hvaða sátt er það sem ekki náðist en að var stefnt?