Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:54:16 (9646)

2004-07-22 11:54:16# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, MÞH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:54]

Magnús Þór Hafsteinsson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að lesa upp eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Ég undirritaður, sem kosinn er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því að viðlögðum drengskap mínum og heiðri að halda stjórnarskrá landsins.``

Þetta er sá eiður sem allir þingmenn skrifa undir í votta viðurvist þegar þeir taka sæti á hinu háa Alþingi í fyrsta sinn. Allir þingmenn hafa heitið því að viðlögðum drengskap og heiðri að halda stjórnarskrá. Nú veit ég svo sem ekki hve hátíðlega einstakir þingmenn taka þetta heit. Umræður liðinna daga á hinu háa Alþingi og víðar í þjóðfélaginu hafa gert það að verkum að ég hef nú staðfestan grun um að fjölmargir þingmenn stjórnarflokkanna líti á þetta heit með mikilli léttúð og telji það nánast marklausan bókstaf. (Gripið fram í.)

Þeir um það. Verk þeirra og gerðir nú verða lögð í dóm síðar meir, bæði í dóm kjósenda og sennilega einnig fyrir dómstóla, (Gripið fram í.) því það er sannfæring mín, hæstv. forseti, að með því að grípa inn í það ferli sem forseti lýðveldisins setti af stað þegar hann vísaði fjölmiðlalögum hinum fyrri til þjóðaratkvæðagreiðslu sé mjög naumur meiri hluti þingsins nú að brjóta stjórnarskrá. Á því er enginn vafi. Það er verið að brjóta 26. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Þessi dagur, 22. júlí árið 2004, mun hverfa í söguna sem dagurinn þegar óafmáanlegur smánarblettur var settur á störf Alþingis. Þetta er dagurinn þegar naumur meiri hluti Alþingis braut stjórnarskrá. Þessi meiri hluti á sér engar málsbætur. Hann hefur ítrekað verið varaður við. (Gripið fram í.) Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert það. Þeir hafa af heilindum tekið þátt í umræðum og nefndarstörfum. Breytingartillögur hafa verið fluttar og vönduð nefndarálit hafa verið skrifuð. Lagt hefur verið fram frv. um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Allt hefur komið fyrir ekki, stjórnarliðar hafa ekki hlustað. (Gripið fram í: Hvaða breytingartillögur?)

Fjölmargir borgarar hafa líka reynt að koma vitinu fyrir stjórnarliða án árangurs. (Gripið fram í: Hvaða breytingartillögur?) Þetta ber að harma. (Gripið fram í: Hvaða breytingartillögur?)

Hæstv. forseti. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa unnið mjög vel í þessu máli. Þingflokkar Frjálsl., Samf. og Vinstri grænna hafa unnið stórsigur og sýnt með afgerandi hætti að þessir flokkar geta unnið saman. Við í stjórnarandstöðunni höfum staðist prófið á meðan ríkisstjórnarflokkarnir hafa kolfallið. Stjórnarandstaðan hefur stýrt sínu fleyi með glæstum hætti til hafnar á meðan bátskel stjórnarliða liggur nú brotin milli hleina.

Að lokum, herra forseti, vil ég fyrir hönd þingflokks Frjálsl. (Gripið fram í.) lýsa því yfir að við teljum allir að hér sé verið að brjóta stjórnarskrá og hafa af þjóðinni rétt hennar sem varinn er í stjórnarskrá. (Gripið fram í.) Við mótmælum með því að sitja hjá. Þjóðaratkvæðagreiðsla á að fara fram.