Forseti Íslands setur þingið

Miðvikudaginn 01. október 2003, kl. 14:03:09 (1)

2003-10-01 14:03:09# 130. lþ. 0.1 fundur 27#B forseti Íslands setur þingið#, Forseti Íslands f.Ísl.
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hinn 10. september 2003 var gefið út svofellt bréf:

,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman miðvikudaginn 1. október 2003.

Um leið og ég birti þetta, er öllum sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst klukkan 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 10. september 2003.

Ólafur Ragnar Grímsson.

-------------------

Davíð Oddsson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman miðvikudaginn 1. október 2003.``

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir að Alþingi Íslendinga er sett.

Íslendingar nutu á síðustu öld farsældar og velgengni sem smátt og smátt færði okkur í fremstu röð þjóða heims. Velferð og hagsæld urðu hér meiri en þekkist víðast hvar í veröldinni. Við náðum að festa í sessi sjálfstæði og stjórnskipan byggða á lýðræði og mannréttindum og samfélag okkar varð í senn opið og öruggt, byggt á gagnkvæmu trausti og þeim sið að telja alla gesti vera í vinarför.

Heimastjórn og lýðveldisstofnun urðu aflvakar sem færðu þjóðinni aukinn kraft, stolt og áræði til djarfra verka. Útfærsla landhelginnar var knúin fram í andstöðu við heimsveldi og öflug ríki. Í fyrsta sinn um aldir var erlendum herskipum beitt gegn Íslendingum. Sá sigur sem náðist er forsenda sóknarinnar sem nú setur svip á sjávarútveg og kröfugerð Íslendinga varð kjarninn í nýjum alþjóðalögum.

Sú heimsskipan sem festist í sessi í kjölfar stríðsins varð Alþingi tilefni til að ákveða þátttöku í Sameinuðu þjóðunum og síðar Atlantshafsbandalaginu og gefa sjálfstæði Íslands þar með nýja vídd, gera okkur gjaldgengari í samfélagi með öðrum ríkjum.

Í áratugi var framlag Íslands þó einkum markað af glímunni á heimaslóð, viðleitni til að styrkja atvinnulíf og framfaragrundvöll. Þáðum þá jafnvel hjálp úr alþjóðlegum þróunarsjóðum. Við vorum að brjótast úr fjötrum fátæktar og einangrunar og hagsmunagæslan á erlendri grundu tók einatt mið af knýjandi verkefnum í eigin ranni.

Í aðdraganda aldahvarfa fór þó að gæta nýrra sjónarmiða og við tókum smátt og smátt að axla ábyrgð sem alþjóðasamfélagið hafði skilgreint. Við sendum fólk til friðargæslu og gáfum hjálparstarfi aukið vægi, komum ásamt öðrum til bjargar þegar hamfarir höfðu lagt borgir í rúst í fjarlægum álfum. Við sáum í nýju ljósi forustustörf í alþjóðastofnunum sem þjóna hagsmunum fólks í fátækum ríkjum og leggjum nú kapp á að gegna vel trúnaðarstörfum sem Norðurlönd og Eystrasaltsríki hafa falið okkur innan Alþjóðabankans.

Í síðasta mánuði urðu svo þau þáttaskil að utanríkisráðherra kynnti formlega framboð Íslands til öryggisráðsins, vettvangsins þar sem örlög ríkja eru ráðin og ákvarðanir teknar um stríð eða frið, æðstu stofnunar sem þjóðir heims hafa skapað og falið meira vald en áður þekktist.

Öryggisráðið er kjarninn í þeirri sáttargjörð sem lögð var til grundvallar að lokinni heimsstyrjöld. Þar getur atkvæði þjóðar haft úrslitaáhrif og afstaðan til kröfugerðar öflugra ríkja sem þar eiga fast sæti verður jafnan í brennidepli. Öryggisráðið er því berangur, opið svæði þar sem atkvæðin eru jafnan skýr, kastljósið sem beinist að aðildarríkjum miskunnarlaust að styrk og birtu.

Það sýnir vel hve Íslandi hefur miðað fram á veg að þegar í hönd fer aldarafmæli heimastjórnar og sextíu ára tímamót frá lýðveldisstofnun skuli þjóðin hafa burði til að gefa kost á sér til öryggisráðsins. Við lýsum okkur reiðubúin að sitja með öðrum í innsta hring og leggja okkar lóð á vogarskálar þegar teknar eru örlagaríkustu ákvarðanir sem alþjóðasamfélagið setur á dagskrá.

Þessari göngu fylgir þó mikil ábyrgð og hvernig til tekst mun lengi móta orðstír Íslands. Við munum þurfa að efna til samræðna og samstarfs við fjölda þjóða sem verið hafa fjarri okkar daglegu önn og spurt verður í auknum mæli um framlag okkar og raunverulegan vilja til að koma öðrum til hjálpar.

Fræðimaður sem starfaði við Friðarháskóla Sameinuðu þjóðanna hefur á það bent að verði önnur framboð þannig að til atkvæðagreiðslu komi á allsherjarþingi sé líklegt að hið lága framlag Íslendinga til þróunarhjálpar geti veikt stöðu okkar. Hvernig sem það veltur er ljóst að með auknum ábyrgðarstörfum á alþjóðavelli, innan Alþjóðabankans, Sameinuðu þjóðanna og víðar mun þessi sérstaða Íslands meðal frændþjóðanna á Norðurlöndum og ríkjanna í Evrópu vestanverðri verða í æ ríkari mæli talin okkur til álitshnekkis.

Fyrir rúmum þrjátíu árum batt Alþingi í lög þá stefnumótun að framlag Íslands til þróunarhjálpar skyldi verða 0,7% af landsframleiðslu í samræmi við samþykktir allsherjarþingsins. Okkur hefur þó ekki tekist að hrinda þessu í framkvæmd þótt markmiðið hafi oft verið ítrekað af ríkisstjórnum og stjórnmálaflokkum.

Utanríkisráðherra lét nýlega birta ítarlega álitsgerð um Ísland og þróunarlöndin og ber að þakka það framtak sérstaklega. Meðhöfundur var sá maður sem lengsta reynslu hefur af íslenskri hagstjórn og gegnt hefur víðtækari trúnaðarstörfum í alþjóðlegum efnahagsstofnunum en nokkur annar Íslendingur. Álitsgerðin hefur að geyma mikinn fróðleik og verðskuldar að vera meginheimild í umfjöllun, bæði hér á Alþingi og á almennum þjóðmálavelli. Niðurstaðan er einkar skýr. Þar segir orðrétt:

,,Það er skoðun höfunda þessarar skýrslu að með tilliti til aðildar sinnar að alþjóðasamþykktum, álits síns á alþjóðavettvangi og náinnar samvinnu við önnur Norðurlönd geti Íslendingar ekki sett sér lægra markmið í þróunaraðstoð en að ná á næstu árum meðaltali þeirrar aðstoðar sem iðnríkin veita. Það meðaltal var 0,22% árið 2000, en fer nú hækkandi í samræmi við þær alþjóðasamþykktir sem nýlega hafa verið gerðar. Hér verður miðað við að hlutfallið nái 0,30% árið 2006, og að Ísland setji sér það markmið að ná þeirri tölu á því ári. Þetta mundi vera nálægt þeim markmiðum sem Suður-Evrópuþjóðirnar, Grikkir, Portúgalar og Spánverjar, hafa sett sér. Enn sem fyrr mundi Ísland þó eiga langt í land til að jafnast á við önnur Norðurlönd.``

Þessi boðskapur átti ríkan hljómgrunn á merkri og fjölmennri ráðstefnu sem Háskóli Íslands, Þróunarsamvinnustofnun og utanríkisráðuneytið efndu til fyrir skömmu. Viðstaddir munu án efa seint gleyma þeirri herhvöt sem heimsþekktur bandarískur hagfræðingur flutti okkur Íslendingum, en Kofi Annan hefur falið honum að stýra framkvæmd þeirra þúsaldarmarkmiða sem þjóðarleiðtogar sammæltust um á merkum vegamótum.

Þar ber hæst baráttuna gegn alnæmi, berklum, malaríu og öðrum sjúkdómum sem ógna mannkyninu; nauðsyn þess að lækka tíðni ungbarnadauða á komandi árum og bæta heilsufar kvenna í fátækum löndum en þar látast þúsundir á hverju ári vegna barnsburðar.

Hér getum við Íslendingar látið að okkur kveða. Við höfum þróað heilbrigðiskerfi sem skarar fram úr, eigum fjölda lækna og hjúkrunarfólks sem fagna mundi tækifæri til að taka þátt í slíku björgunarstarfi. Við eigum líka í reynslusjóði lærdóma sem geta komið öðrum að gagni. Baráttan gegn berklunum var hér á sínum tíma erfið þraut og hvíti dauðinn vágestur á þúsundum heimila um landið allt. Með samtakamætti, forustu lækna og víðtækri þátttöku almennings tókst að frelsa Ísland úr heljargreipum berklaveiki. Við getum og eigum að miðla öðrum af þeirri reynslu.

Við höfum að undanförnu eignast nýja kynslóð sem er fjölhæfari að menntun og reiðubúnari til þátttöku í alþjóðastarfi en áður þekktist. Með nýrri hugsun er hægt að kveðja hana til víðtækra starfa á sviði þróunarhjálpar.

Við höfum hingað til einkum horft til reynslu okkar í sjávarútvegi, fiskvinnslu og orkumálum þegar við metum hvar og hvernig við getum orðið öðrum að liði. En góð ráð geta víða komið að gagni og þjálfun í stjórnsýslu og stofnanarekstri er mörgum nýfrjálsum ríkjum brýn nauðsyn. Innan Sameinuðu þjóðanna eru nú um 50 ríki sem teljast smá í alþjóðlegum samanburði og flest þeirra eru enn að glíma við hliðstæð vandamál og við Íslendingar þekkjum frá fyrstu áratugum heimastjórnar og lýðveldistíma.

Stofnun stjórnsýslufræða og Rannsóknasetur smáríkja sem nýlega var komið á fót við Háskóla Íslands eru dæmi um nýja þátttakendur sem geta orðið gjaldgengir í þróunarstarfi líkt og deildirnar í Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hér hafa starfað.

Við eigum ekki aðeins að senda fólk til hjálparstarfa í fjarlægum löndum heldur bjóða ungu hæfileikafólki að koma og dvelja með okkur um stund, leggja þannig grundvöll að framvarðasveitum sem nýst geta hinum fátækari ríkjum á heimavelli líkt og við eigum þakkarskuld að gjalda þeim sem börðust þrotlausri baráttu fyrir sjálfstæði og fullveldi okkar eigin þjóðar.

Aukið framlag til þróunarhjálpar getur komið að margvíslegu gagni í okkar eigin garði og byggt hér upp stofnanir, starfsemi og fræðasetur sem bera munu hróður Íslands víða um lönd. Ekki má gleyma því merka starfi sem Rauði krossinn, þjóðkirkjan og aðrir hafa unnið og jafnan hefur notið einstæðs þjóðarstuðnings þegar eftir var leitað.

Margt bendir til að nú megi ná víðtækri sátt um að tvöfalda á næstu árum framlag Íslands til þróunarhjálpar og auka það síðan til jafns við þá sem fremstir standa. Slíkt mundi efla mjög hróður okkar meðal þjóða heims og styrkja til muna framboðið til ábyrgðarstarfa innan öryggisráðsins. Það væri jafnframt áhrifarík yfirlýsing um árangurinn sem Íslendingar hafa náð og skyldurnar sem eru samfara því að vera komin í flokk auðugustu þjóða heims.

Á aldarafmæli heimastjórnar og sextíu ára afmæli lýðveldisins væri slík ákvörðun verðug afmælisgjöf, sönnun þess hverju sjálfstæðisbaráttan hefur skilað okkur og hvernig við ætlum á nýrri öld að sýna ábyrgð í samfélagi ríkja heims.

Ég óska Alþingi allra heilla í vandasömum verkum á komandi vetri og bið alþingismenn að rísa á fætur og minnast ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Davíð Oddsson, mælti: ,,Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.`` Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú þeim þingmanni sem lengsta fasta þingsetu hefur að baki að stjórna fundi þangað til forseti Alþingis hefur verið kosinn og bið ég Halldór Ásgrímsson, 7. þm. Reykv. n., að ganga til forsetastóls.