Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 2003, kl. 20:51:16 (18)

2003-10-02 20:51:16# 130. lþ. 2.1 fundur 37#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 130. lþ.

[20:51]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Gott kvöld. Enn á ný hlýt ég að lýsa yfir vonbrigðum með það hvernig þeir kvótaflokkar sem nú eru við völd skella gersamlega skollaeyrum við óánægju íslensku þjóðarinnar með núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi. Í stefnuræðu hæstv. forsrh. er einungis fjórum setningum varið í að ræða um sjávarútvegsmál, málaflokkinn sem skiptir svo miklu fyrir efnahag okkar og framtíð okkar sem þjóðar. Ríkisstjórnin lemur hausnum við steininn og neitar að hlusta.

Hvað ætlar hún að gera í málefnum þeirra sjávarbyggða sem hafa orðið fyrir stórum áföllum frá því að kosningar fóru fram í byrjun maí? Hvað á að gera til að rétta hlut Raufarhafnar, Hofsóss, Bíldudals og Seyðisfjarðar? Eða allra hinna staðanna sem búa við stöðnun eða hnignun og lifa nú á milli vonar og ótta?

Þessir sjávarbæir blómstruðu og stækkuðu ár frá ári allt þar til réttur þeirra til að njóta aðgangs að þeim náttúruauðlindum sem þeir hafa búið að frá örófi alda var skertur eða tekinn frá þeim. Það var gert í nafni fiskverndar og hagræðingar sem gekk að mestu út á það að gera lifibrauð almennings í sjávarbæjunum að söluvöru einstakra aðila sem síðan hafa notfært sér hana óspart til að sölsa undir sig fjöregg þjóðarinnar.

Ferlið hófst þegar kvótakerfið var tekið upp fyrir 20 árum. Það fór á fulla ferð þegar framsal aflaheimilda var gefið frjálst. Nú höfum við ekki hugmynd um hvernig þetta endar. Núverandi stjórnvöld hafa hagað málum þannig að þau geta engu ráðið um það hvað verður um nýtingarréttinn á fjöreggi þjóðarinnar og þar með framtíð Íslandsbyggðar.

Forstjóri stærsta útgerðarfyrirtækis landsins skrifaði bréf til starfsmanna sinna þremur dögum fyrir kosningarnar í maí. Þar kom hann af fjöllum og furðaði sig á því að sjávarútvegsmálin hefðu verið sett á oddinn í stjórnmálaumræðunni. Svona eru þessir menn orðnir veruleikafirrtir eftir að hafa keypt sér frið núverandi stjórnarflokka í tólf ár. Tíminn leyfir ekki að farið sé nánar út í hið makalausa bréf sem Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Brims, sendi starfsmönnum sínum í maí. Hann sendi starfsmönnum sínum þetta bréf, starfsmönnum í fjölmörgum sjávarbyggðum, til að telja fólki trú um að allt færi á vonarvöl ef stjórnarflokkarnir misstu meiri hluta sinn með þeim afleiðingum að breytingar yrðu gerðar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Ég vil hins vegar minna á eina setningu úr þessu skjali sem ég vitna til, með leyfi forseta:

,,Ef allur fiskur færi á markað væri fótunum kippt undan rekstri þeirra frystihúsa sem rekin eru af Brimi og byggja vinnslu sína á eigin hráefni. Stórir vinnustaðir á Akureyri, Grenivík, Akranesi og Seyðisfirði færu í uppnám og hætt er við að fjöldinn allur af starfsmönnum mundi missa vinnu í kjölfarið.``

Aðeins fimm mánuðum eftir þessi ábyrgu skrif eru allir þessir staðir annaðhvort í uppnámi eða þjakaðir af áhyggjum vegna þeirrar staðreyndar að kvótabraskskerfið hefur lagt atvinnulíf þeirra í rúst eða gæti gert það á næstu mánuðum eða missirum. Fyrirtækið Brim er búið að veita Raufarhöfn þungt högg, en ekki fyrr en búið var að sigla burt með togara þorpsins og allan kvótann með. Á Seyðisfirði eru boðuð sömu örlög.

Og áfram heldur hernámslið fjármagnsins að dreifa áhyggjum, skelfingu og vonleysi. Nú síðast þegar Eimskipafélagið og þar með Brim var yfirtekið nánast á einni nóttu af aðilum sem komu úr óvæntri átt. Þeir hafa lýst yfir að ekki standi til að eiga Brim til langframa. Nú óttast bæði Akurnesingar og Akureyringar að nýtingarrétturinn sem þeir hafa á fiskimiðum þjóðarinnar hverfi frá þeim. Þetta eru sjávarútvegsbæir sem hafa á undanförnum árum sogað til sín kvóta á kostnað annarra sveitarfélaga. En nú er röðin kannski komin að þeim. Byltingin étur börnin sín.

Verðbréfasalar eru þegar farnir að núa saman höndum og spá í það hvernig best sé að slátra þessu stærsta útgerðarfyrirtæki landsins og selja það í bitum út um hvippinn og hvappinn ef svo býður við að horfa. Fjármagnið ræður og réttur fólksins er enginn. Þetta er nú allt öryggið, góðir landsmenn, sem við höfum í tengslum við hið margrómaða íslenska fiskveiðistjórnarkerfi, því miður.

Í ríkisútvarpinu fyrr í þessari viku gat að heyra merkilegt viðtal við Halldór Blöndal, hæstv. forseta Alþingis og 2. þm. Norðausturkjördæmis. Þar kom grímulaus stuðningur stjórnarflokkanna við stórmattadora sjávarútvegsins á kostnað smælingjanna og minni sjávarbyggða berlega í ljós. Það er í sjálfu sér engin frétt. Það sem vakti athygli var að þarna var haft eftir forseta Alþingis að hann er á móti línuívilnun. Þá brá þeim sem hér talar nokkuð í brún, því hann mundi eftir grein eftir Halldór Blöndal í Morgunblaðinu frá 15. apríl sl. þar sem þingmaðurinn skrifaði um konu á Vopnafirði, sjávarútvegsstefnu Frjálslynda flokksins og línuívilnun. Konan fékk góð ummæli, enda vænlegt atkvæði eins og sonur hennar sem langaði til að verða útgerðarmaður og eigin herra. Frjálslyndi flokkurinn fékk miklar ákúrur fyrir það sem þingmanninum þótti ábyrgðarlaus stefna flokksins í sjávarútvegsmálum.

Um línuívilnun sagði þingforseti þetta, með leyfi hans sjálfs:

,,Við sjálfstæðismenn samþykktum að ívilna línubátum sem auðvitað kemur sér víða vel.``

Þessi málflutningur sem nú er búið að snúa upp í andhverfu sína nokkrum mánuðum eftir kosningar er dæmigerður fyrir svikin kosningaloforð stjórnarflokkanna. Það dylst engum að loforðið um línuívilnun var óspart notað af stjórnarflokkunum á lokaspretti kosningabaráttunnar. Fólk man eftir forsætisráðherra sem gekk á blankskóm á milli beitningaskúra á Ísafirði í lok apríl þar sem boðað var fagnaðarerindi línuívilnunar. Skoða má einnig greinaskrif kosningasmala stjórnarherranna í dagblöðum vikurnar fyrir kosningar. Þetta var lævís og svikin beita sem lögð var fyrir kjósendur sem lögðu trú á falsið um að stjórnarandstaðan mundi leggja sjávarútveginn í rúst kæmist hún til valda.

Nú er ljóst af stefnuræðu forsætisráðherra að ekki stendur til hjá ríkisstjórninni að standa við þetta í haust eins og lofað var. Sennilega verður þetta aldrei efnt nema þá í einhverju skötulíki. Engum dylst að báðir stjórnarflokkarnir eru klofnir í herðar niður í þessu máli og það er heldur ekkert samræmi í málflutningi þeirra um hvernig útfæra eigi þessa línuívilnun. Nú verður fróðlegt að fylgjast með hvernig alþingismennirnir Kristinn H. Gunnarson og Einar Oddur Kristjánsson bregðast við. Báðir hafa talað ákveðið fyrir því að þetta loforð, sem flokkar þeirra eru á brjáluðum flótta frá, eigi að efna og það í haust. Einar Oddur hefur sagt að forsrh. og formaður hans sé í fyrsta sinn að ganga á bak orða sinna ef þetta verði ekki efnt.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við í Frjálslynda flokknum fundum ekki upp þessa línuívilnun, það gerðu stjórnarflokkarnir. Útgerðarfurstarnir, sem nú berjast um á hæl og hnakka gegn henni, þögðu þunnu hljóði um línuívilnun fyrir kosningar en hömuðust gegn stjórnarandstöðunni sem hvergi kom að þessu. Stefna Frjálslynda flokksins er að tegundir eins og ýsa, ufsi, steinbítur, langa, keila og skötuselur verði strax teknar úr kvóta og strandveiðikvótinn verði síðan færður úr kvótastýringu yfir í svokallað sóknarmark. Það hefði fært byggðunum aftur tækifæri til að bjarga sér og byggja upp bæði atvinnulíf og mannlíf á eigin forsendum. Þetta mun okkur takast þegar við höfum komið þeim ráðherrum sem hér sitja frá völdum.

Góðir landsmenn. Ég lýsi því yfir að nú verður stórhert á þeirri sókn. Land án byggðar er einskis virði. Það þjónar hvorki hagsmunum höfuðborgarsvæðisins né landsbyggðarinnar, hvað þá þjóðarinnar í heild, að eyðibyggðastefna stjórnvalda nái fram að ganga. --- Góðar stundir.