Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 2003, kl. 21:05:36 (20)

2003-10-02 21:05:36# 130. lþ. 2.1 fundur 37#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 130. lþ.

[21:05]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Stefnuræða forsætisráðherra innihélt ánægjulegar fréttir fyrir landsmenn og undirstrikaði að á undanförnum áratug hafa Íslendingar náð gríðarlegum árangri í efnahagsmálum. Ákvarðanir ríkisstjórna undir forustu Davíðs Oddssonar hafa skilað okkur betri stöðu en við höfum áður þekkt. Ég gæti flutt langa tölu um þróun skulda, lánshæfismat, hagvöxt, kaupmátt o.s.frv. Það ætla ég ekki að gera. Ég vil þess í stað fullyrða að kinnroðalaust getum við borið okkur saman við það sem gerist best annars staðar. Það þýðir ekki að við höfum náð fullkomnun og engin verkefni séu til staðar. Því fer víðs fjarri. Verkefnin eru mörg og sum mjög aðkallandi. En það er alveg ljóst og óumdeilt að við höfum lagt öflugan grunn til að byggja á til framtíðar.

Hvaða töframeðulum hafa þessar ríkisstjórnin beitt til að ná slíkum árangri? Engum. Ríkisstjórnir undir forustu Davíðs Oddssonar hafa einfaldlega treyst fólkinu í landinu og beitt ráðdeild í ríkisrekstri. Flóknara er það mál ekki. Fyrirtæki og verkefni hafa færst frá hinu opinbera yfir til einstaklinganna. Leikreglur hafa verið skilgreindar, landið opnað og skattar lækkaðir. Með þessu hefur kraftur einstaklinganna, kraftur þjóðarinnar verið leystur úr læðingi. Árangurinn er fjölbreyttara atvinnulíf og aukin verðmætasköpun, öllum til hagsbóta. Einnig hafa ráðherrar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks verið meðvitaðir um að skuldir hafa einn galla. Hann er sá að það þarf að greiða þær.

Það er athyglisvert að hlusta á ræður sem Ólafur Thors, fyrrum forsætisráðherra, flutti á sínum langa og farsæla ferli. Ræðurnar bera þess merki að þær voru haldnar á öðrum tíma en ég tel að það sé hollt, sérstaklega fyrir ungt fólk, að kynna sér boðskap þeirra sem þurftu að berjast fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, bæði efnahagslegu og pólitísku.

Breytingarnar hafa verið gríðarlegar og flestir hlutir færst til betri vegar. Íslensk þjóð sem var sú fátækasta í Evrópu í upphafi 20. aldar er nú ein af þeim ríkustu. Það gerðist hins vegar ekki af sjálfu sér. Forfeður okkar, foreldrar, afar og ömmur, þurftu að leggja hart að sér til að við gætum notið þeirra lífsgæða sem við njótum í dag. Það eigum við sem yngri erum að muna og vera þakklát fyrir.

Í ávarpi frá árinu 1954 talaði Ólafur til æskunnar og sagði m.a.:

,,Vinnan er ekki aðeins grundvöllur allrar lífsgleði heldur og skilyrði þess að við fáum að lifa frjálsir í landi voru.``

Á öðrum stað í ræðunni segir Ólafur að landsmenn þurfi að afkasta meira en í nokkru öðru menningarríki. ,,Að launum fær hver og einn að vera Íslendingur.``

Eiga þessi ummæli við í dag, ummæli sem eru 50 ára gömul? Ég tel svo vera. Ég tel það gæfu íslenskrar þjóðar að hér er atvinnuleysi mun minna en í öðrum löndum. Ég vil að það ástand haldist um alla framtíð.

Þegar við berum okkur saman við nágrannalöndin sjáum við að Ísland er einstakt hvað þetta varðar. Ekkert land innan OECD hefur hærra atvinnustig en Ísland. Ekkert land hefur hærra atvinnustig hjá konum en Ísland. Hér munar ekki litlu. Atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er 80%, eða helmingi hærri en hjá Evrópusambandinu. Þetta þýðir að jafnrétti á milli karla og kvenna er meira en hjá öðrum löndum og vinnumarkaðurinn á Íslandi er um margt einstakur.

Ég vil staldra við vegna þess að oft er það svo að þróun sem á sér stað í öðrum löndum kemur fyrr eða síðar til okkar. Ég tel að við eigum að vera á varðbergi í þessum málum og tryggja að sérstaða Íslands haldi að þessu leyti. Málið er einfalt. Ef stjórnvöld leggja of miklar byrðar á atvinnulífið þá fækkar störfunum.

Ég er sammála Ólafi Thors varðandi það að atvinna er ekki eingöngu spurning um fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga og þjóða heldur einnig grundvöllur fyrir lífsgleði okkar. Við eigum að hafa það markmið að hér á landi búi sjálfstæðir einstaklingar. Mikilvægt er að hið opinbera líti ekki alltaf á það sem markmið sitt að taka fjármuni frá fólkinu og færa það aftur til þeirra. Fólkinu er treystandi fyrir þeim tekjum sem það aflar og við eigum að hafa það hugfast.

Lækkun skatta er í raun aðgerð til að efla sjálfstæði fólks. Aldrei áður hefur ríkisstjórn beitt sér fyrir jafnmiklum skattalækkunum. Skattastefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er best lýst með þeim orðum að markmiðið er að það borgi sig alltaf að vinna. Einhverjum kann að þykja þetta sérkennilegt, að það sé svo sjálfsagt. En svo er það ekki. Bæði við Íslendingar og aðrar þjóðir hafa lent í þeim ógöngum að fólk hagnast lítið sem ekkert, jafnvel tapar á því að hækka tekjur sínar. Á þetta við um alla tekjuhópa. Ef leysa á þennan vanda verður að lækka tekjuskattsprósentuna. Fyrir liggur að það verður gert með myndarlegri hætti en sést hefur áður.

Einnig er ánægjulegt að sjá loks á bak hinum illræmda skatti sem svo ranglega hefur verið nefndur hátekjuskattur en hann fer nú stiglækkandi og verður úr sögunni árið 2006.

Eignarskattur er einn ósanngjarnasti skattur sem til er og er óþolandi að eldra fólki, sem hefur náð að borga upp húsnæði sitt skuli refsað fyrir ráðdeildina með því að greiða skatt af eigninni. Á sama hátt ýtir þessi skattur undir skuldsetningu þar sem fólki er beinlínis refsað fyrir aðhald og sparsemi. Þessi skattur verður afnuminn.

Allir verða að kaupa sér matvæli. Af augljósum ástæðum eru matarkaup hlutfallslega mest hjá hinum tekjulágu. Lækkun matarskatts kemur þeim tekjulægri einstaklega vel þó allir hagnist.

Virðulegi forseti. Ég hef í þessari stuttu ræðu farið yfir ýmislegt sem ég tel mikilvægt í stjórnmálaumræðunni. Að lokum vil ég segja þetta: Við eigum ekki að gleyma uppruna okkar. Og við eigum að fara varlega í að týna sérkennum okkar án þess að vera viss um að eitthvað betra komi í staðinn. Á sama hátt og þjóðfélagið á að vera opið í efnahagslegu tilliti, opið fyrir straumum og stefnum, eigum við að standa vörð um það sem er betra hér en annars staðar. Við erum smáþjóð ef tekið er tillit til fólksfjölda. En í anda og verki erum við eins og milljónaþjóð. Það er því rétt hjá Ólafi Thors að hver og einn Íslendingur þarf að afkasta meira en aðrir. Með öðrum orðum: Hver Íslendingur skiptir miklu máli. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.