Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 2003, kl. 21:39:26 (25)

2003-10-02 21:39:26# 130. lþ. 2.1 fundur 37#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, EOK
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 130. lþ.

[21:39]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Við fengum nú í kvöld að hlýða á hæstv. forsrh. fara yfir helstu stefnumál ríkisstjórnar sinnar. Þetta er fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar og það eru um tólf og hálft ár síðan hann flutti sína fyrstu stefnuræðu.

Það er rétt að fara yfir það og átta sig á því að á því tólf og hálfa ári sem liðið er hefur verið meira framfaratímabil í sögu Íslands en nokkurn tímann áður. Aldrei nokkurn tímann hefur Ísland búið við þá gæfu sem við höfum búið við á þessu tímabili. Ísland stendur nú meðal fremstu ríkja heimsins á öllum sviðum. Það er með tekjuhæstu þjóðfélögum. Það er með þeim þjóðfélögum sem hafa hvað mesta og besta stjórn á sínum ríkisfjármálum. Flestar ef ekki allar þjóðir Evrópu mundu öfunda okkur af því að geta lagt fram slík fjárlög og nú eru lögð fram. Ísland hefur verið í þeirri stöðu að geta bætt kjör þegna sinna núna stanslaust árum saman jafnframt því sem tekjur ríkisins hafa aukist en skuldirnar minnkað ár frá ári, þannig að skuldir íslenska ríkisins eru núna innan við 20% þegar aðrar þjóðir Evrópu standa frammi fyrir því að skuldirnar eru eitthvað 60--70% af vergri landsframleiðslu. Þetta er hinn glæsilegi árangur. Þetta er sú niðurstaða sem ber að fagna og ég þykist vita að allir geri það.

En við eigum að minnast þess jafnframt að þetta kom ekki af tilviljun. Þetta kom ekki vegna þess að þetta datt bara svona af himnum ofan. Árangurinn liggur í því að einmitt í fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar var hafist handa um það að búa til umhverfi fyrir íslenskt atvinnulíf, skapa íslensku atvinnulífi samkeppnisgrundvöll, sjá til þess að framleiðslan og viðskiptalífið allt gæti verið í þeirri stöðu að fá að blómgast og vaxa. Og það hefur blómgast og það hefur vaxið. Það er grundvöllur alls sem hefur orðið. Þess vegna er staða ríkissjóðs góð. Þess vegna höfum við getað borgað niður skuldir. Þess vegna hafa kjör Íslendinga batnað á undanförnum árum hraðar og meira en kjör nokkurrar annarrar þjóðar í Evrópu. Það er rétt að muna þetta því þetta er aðalatriðið.

Hér í kvöld hefur stjórnarandstaðan skautað svona að mestu leyti yfir þessa stefnuræðu sem skiljanlegt er. Það er mjög skiljanlegt og ekkert skemmtilegt að vera í stjórnarandstöðu undir þessum kringumstæðum. Þó verð ég að segja það að ég hef ríka ástæðu til að fagna og þakka fyrir þá ræðu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson, rétt og löglega kjörinn formaður Samfylkingarinnar, hélt hér í kvöld. Ég fagna því mjög mikið vegna þess að það sem hann rakti hér um ríkisfjármál og efnahagslífið og alla umgjörðina var mælt af mikilli skynsemi og það var allt rétt sem hann sagði. Ég fagna því sérstaklega vegna þess að í kosningunum í vor tók ég það mjög nærri mér hve þessi flokkur gat gengið langt í að skrumskæla íslenskan veruleika, hvað hann gat gengið langt að segja rangt frá stöðu mála. Og þess vegna fagna ég því sérstaklega nú þegar þeir koma og hv. þm. sem foringi þessa flokks kemur sem ábyrgur, öruggur stjórnmálamaður og ég vona að þessi ræða hafi verið að leiða til þess að flokkurinn ætli að sýna slíka stefnu í framtíðinni.

Það er hins vegar auðvitað svo, herra forseti, að þótt ríkisfjármálin hafi gengið vel og stjórn efnahagsmála mjög vel, þá er ýmislegt að í þessu þjóðfélagi. Óskir okkar og væntingar hafa ekki allar gengið eftir á síðasta tólf og hálfa ári. Það ber að nefna að allir þeir draumar og allar þær óskir um að okkur tækist að reisa við þorskstofninn hafa alls ekki gengið eftir. Alls ekki. Og vegna þessa stendur landsbyggðin mjög höllum fæti. Við verðum að horfast í augu við þetta og það leyfist engum undan að líta, vegna þess að þetta er hið stóra vandamál. Við verðum að leita nýrra leiða vegna þess að þær aðferðir sem við höfum notað til þessa hafa ekki dugað. Og þá liggur fyrst og fremst fyrir að við verðum að treysta á frjáls vísindi og leyfa frjálsum vísindamönnum að vinna.