Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 2003, kl. 21:55:52 (28)

2003-10-02 21:55:52# 130. lþ. 2.1 fundur 37#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 130. lþ.

[21:55]

Þuríður Backman:

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að öryggi borgaranna verði að hafa forgang og að ríkisvaldið hafi þar ríkum skyldum að gegna. Um þetta erum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sammála og viljum standa vörð um samfélagsþjónustuna í víðum skilningi. En skilningur okkar á ábyrgð ríkisvaldsins er fjarri frjálshyggjuhugmyndum Sjálfstfl. sem keyra á í gegn á þessu kjörtímabili. Núningar eru á milli ríkisstjórnarflokkanna í fleiri málum en hátekjuskattinum. Ljóst er að tekist er á um rekstrarfyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar.

Hæstv. heilbrrh. hefur nú gefið einkavæðingu undir fótinn með því að ljá þeirri hugmynd eyra að koma hluta þeirrar starfsemi sem nú er rekin á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi í einkarekstur. Í stað þeirrar hugmyndar ætti að stórefla heilsugæsluna í landinu og þá ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Fjölga þarf bæði starfsmönnum og fagstéttum og vinna stærstan hluta þjónustunnar á því stigi sem vandamálin eru hvað mest og ódýrast að leysa þau. Sjúkrahús um allt land geta einnig bætt við sig verkefnum og létt þannig á dýrustu heilbrigðisþjónustunni.

Sveitarfélögin hafa verið að auka heimaþjónustu aldraðra og fatlaðra og er nú svo komið að sú þjónusta er farin að skila sér í minnkandi þörf á dvalarheimilisplássum en þörfin á hjúkrunarplássum hefur aukist að sama skapi. Nú þegar verður að leysa vanda sveitarfélaganna vegna þessa. Það mun skila sér til lengri tíma í útgjöldum til heilbrigðismála. Hugmyndir eru uppi um að færa heilsugæsluna og öldrunarþjónustuna yfir til sveitarfélaganna. En þótt hvort tveggja séu verkefni sem sveitarfélögin geta vel tekið yfir þá vara ég eindregið við að koma á breyttu skipulagi þann tíma sem samdrátt og aðhald þarf í ríkisfjármálum vegna virkjanaframkvæmda sem nú standa yfir. Mikil átök virðast því fram undan um rekstur heilbrigðiskerfisins, átök sem lúta að samábyrgð og öryggi þegnanna.

Herra forseti. Átök sem í allt sumar hafa staðið á milli verkalýðshreyfingarinnar og ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo nefndi hæstv. forsrh. ekki einasta orði. Þó er þetta mál af þeirri stærðargráðu að það ætti að vera á borði ríkisstjórnarinnar. Það verður að koma í veg fyrir að hér á landi fái þrifist óvönduð vinnubrögð fjölþjóðaverktakafyrirtækis. Það er nóg að verið sé að spilla miklum náttúruauðæfum þó að þeirri smán sé ekki fylgt eftir með því að láta verktakafyrirtæki vaða yfir lög og reglur þessa lands og brjóta á verkamönnum með alþekktum vinnubrögðum.

Herra forseti. Spáð er jöfnum og góðum hagvexti á næstu árum ef vel verður haldið í taumana og dregið úr ríkisútgjöldum. Það þarf meira en góðar þjóðhagsspár til að rétta við kjör sauðfjárbænda og annarra þjóðfélagshópa sem hafa farið á mis við hið mikla góðæri sem ríkt hefur sumum til handa. Það er siðferðileg skylda okkar að jafna kjör fólks í þessu landi.

Herra forseti. Mér leið illa við að hlusta á hve stoltur hæstv. forsrh. virtist af því að hafa skipað Íslandi í sveit hinna staðföstu þjóða í Íraksstríðinu. Hann réttlætti þennan verknað og efast ekki þrátt fyrir allar þær upplýsingar sem fram hafa komið og atburði sem orðið hafa síðan í vor. Við erum að sækja um aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ég tel að við getum átt þangað erindi. En ber það ekki keim af merkilegheitarembingi að sækja um í öryggisráðinu á sama tíma og bæði löggæslan og Landhelgisgæslan eru í fjársvelti?

Hugmyndum um íslenskan her höfnum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði alfarið. Við eigum að halda uppi sjálfstæðri utanríkisstefnu, kröftugri friðarstefnu og hafa markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Þá mun okkur farnast vel. --- Takk fyrir.