Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 11:09:23 (37)

2003-10-03 11:09:23# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[11:09]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að við eigum traustan bandamann í hv. þm. í að halda aftur af ríkisútgjöldum og ég dreg það reyndar ekki í efa eftir ræðu leiðtoga hans hér í gærkvöldi sem hélt því fram og sagði að ríkisstjórnin ætti nú aldeilis hauk í horni þar sem Samfylkingin væri tilbúin til þess að standa gegn ofþenslu ríkisútgjalda. Standa gegn ofþenslu ríkisútgjalda, sagði formaður Samfylkingarinnar, og ég fagna því verulega að hér eigum við góða og dygga bandamenn og við skulum bara taka höndum saman um að halda mönnum sem hér eiga hlut að máli við efnið.

En ég bendi þingmanninum á annan hlut. Hann talar mikið um umframkeyrslu í ríkisútgjöldum. Á borðinu fyrir framan hann liggur frv. til fjáraukalaga um 8 milljarða kr. aukningu á útgjöldum. Hvað er það sem hlutfall af útgjöldunum? 3--4%, eitthvað svoleiðis, miðað við það sem áður var búið að ákveða í fjárlögum og fjáraukalögum. Það er í sjálfu sér ekki hátt hlutfall. Auðvitað er það meira en við kærum okkur kannski um en menn verða líka að horfa á þetta í samhengi við það sem er hér að gerast almennt talað og þá staðreynd að alltaf koma til einhver óhjákvæmileg útgjöld sem ekki verða séð fyrir.

Hvað varðar skattamálin, þá er þetta auðvitað deila um keisarans skegg. Við höfum sagt hvað við ætlum að gera í stjórnarsáttmála okkar, sem er auðvitað sá vegvísir sem við förum eftir og flokkarnir hafa komið sér saman um eftir kosningar. En við ætlum líka að geyma okkur að ganga frá því máli þangað til fyrir liggur hvað kemur út úr kjarasamningum á komandi vetri.

Ef litið er á bensínhækkunina þá má svo sem áfellast okkur fyrir það að hafa ekki látið bensíngjaldið hækka árlega frá 1999 í samræmi við verðlagshækkanir. Ég skal fúslega taka við slíkum kvörtunum frá hv. þm. ef það er það sem hann á við.