Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 11:15:41 (40)

2003-10-03 11:15:41# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[11:15]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það var svo sem viðbúið að hæstv. fjmrh. kipptist aðeins við. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra muni ekki um hundraðkallinn eða þúsundkallinn til eða frá þegar hann fer til læknis. En sá hugsunarháttur á ekki að ríkja í heilbrigðisþjónustu landsins að það skipti máli hvort menn hafa efni á að fara til læknis eða ekki. Þetta er hluti þeirrar félagshyggju og samhjálpar sem við höfum byggt samfélag okkar á og er hornsteinn þess félagshyggjusamfélags sem við viljum búa í.

Á sama hátt er tekjuöflun ríkissjóðs einnig beitt á þá sem þurfa að sækja sjúkratryggingar, þá sem þurfa að kaupa lyf og þá sem þurfa hjálpartæki. Ætlunin er að lækka hlutdeild ríkisins í þeim kostnaði. Allt ber þetta hægt og bítandi að sama brunni, virðulegi forseti.

Hæstv. ráðherra vék að sölu Landssímans. Það er rétt að rifja upp að í skoðanakönnun sem gerð var fyrir rúmum tveimur árum kom fram að um 70% af þjóðinni var andvígt því að Landssíminn væri seldur. Það hefur verið stefna Vinstri grænna að Landssímanum yrði beitt til að efla fjarskipti í landinu og fjarskiptaþjónustu um allt land. Ekki mun veita af.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er fullt samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um málið? Styður Framsfl. það virkilega einhuga að Landssíminn verði seldur eins og hæstv. fjmrh. var hér að boða?