Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 11:20:08 (42)

2003-10-03 11:20:08# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[11:20]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Við 1. umr. um fjárlög fyrir árið 2004 er eðlilegt að umræðan sé fyrst og fremst almenn og ekki farið mjög djúpt ofan í einstaka liði. Það verður auðvitað að vinna í því í fjárln. fram að 2. umr.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er ljóst að við erum að hefja hagvaxtarskeið sem vonandi mun nýtast okkur betur en mörg þau sem við höfum áður lifað. Í því samhengi er nauðsynlegt að rifja upp það sem misfórst á árum áður, þegar verðbólgan skaust upp á árinu 2001 og stefndi í brotlendingu en verkalýðssamtökin tóku höndum saman með aðilum vinnumarkaðarins og komu ríkisstjórninni til aðstoðar við að tryggja mjúka lendingu. Af þessu tímabili er nauðsynlegt að læra og við þurfum því að vanda okkur mjög í framtíðinni. Það er meginmál, hvernig á þessum málum verður haldið.

Það er áhyggjuefni að enn á ný kemur ríkisstjórnin fram með fjárlagafrv. þar sem ekki virðist forgangsraðað upp á nýtt í ríkisrekstrinum. Því miður virðist ekki neitt uppi sem stefnir að því að taka á þeim innbyggða vanda sem borið hefur á mörg undanfarin ár og við hefur verið brugðist með fjáraukalagafrv. til að bjarga málum fyrir horn. Þetta er ekki mjög traustvekjandi og dugir ekki til framtíðar. Við þekkjum þetta í heilbrigðiskerfinu og í menntakerfinu, svo dæmi séu tekin. Við þekkjum þetta ekki síður í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það kemur auðvitað fram í erfiðri rekstrar- og skuldastöðu sveitarfélaga.

Herra forseti. Því miður virðist ekkert gert til að reyna að breyta ríkisrekstrinum. Vegna þeirrar reynslu sem við höfum af því þegar ekki er tekið á vanda sem vitað er um, þegar ekki lagður grunnur að því að leiðrétta skekkjuna sem gæti skilað betri árangri til framtíðar, þá megum við eiga von á að heyra svipaða umræðu um þetta leyti á næsta ári. Við munum heyra sömu umræðu og farið hefur fram að undanförnu. Sami vandinn mun koma upp á yfirborðið. Það vantar fjármuni til að tryggja að deildum í heilbrigðisþjónustunni verði ekki lokað. Það vantar peninga til að tryggja eðlilegt skólastarf í framhaldsskólum og háskólum. Þetta er því miður það sem við getum átt von þó að auðvitað vonum við að til þess þurfi ekki að koma.

Hæstv. fjmrh. svaraði því til áðan í andsvari við mig að það þyrfti að nota reglugerð um framkvæmd fjárlaga. Það mátti skilja hæstv. ráðherra þannig að nota ætti hana betur en gert hefur verið á undanförnum árum. Vonandi verður þannig staðið að verki vegna þess að fjárlög eru auðvitað, eins og önnur lög, lög sem á að fara eftir. Það er hins vegar mismunandi auðvelt fyrir stofnanir að fara eftir þessum lögum. Ef lögin eru vönduð og taka mið af staðreyndum, þeirri stöðu sem er uppi hverju sinni, á ekki að vera erfitt að fara eftir fjárlögum. En því miður bendir ýmislegt til þess að fjárlög hafi ekki alltaf verið nægjanlega vönduð. Því miður, herra forseti, sýnist mér margt í þessu fjárlagafrv. sama marki brennt, þ.e. í því er ekki tekið á þeim vanda sem fyrir er í ríkiskerfinu. Það þarf að móta framtíðarstefnu um hvernig við viljum að opinberar stofnanir veiti nauðsynlega þjónustu til framtíðar.

Herra forseti. Markmið þess fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir og markmið þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur mótað til framtíðar er hins vegar þess eðlis að það er eðlilegt að horfa til hennar með jákvæðum augum. Markmiðið er að ríkisfjármálin verði í lykilhlutverki í hagstjórn á næstu árum. Þetta er auðvitað nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt að ríkisfjármálin séu notuð til að draga úr innlendri eftirspurn meðan á hinum miklu stóriðjuframkvæmdum stendur þannig að hægt verði að skapa hagvöxt til framtíðar og tryggja um leið að lendingin, þegar úr honum dregur, verði mjúk. Þess vegna er nauðsynlegt að vanda til verka. Þess vegna höfum við í Samfylkingunni talað um að við séum reiðubúin til að aðstoða við þetta verk.

Fyrir fólkið í landinu skiptir mestu hvernig við komum út úr þessu tímabili. Við þurfum í raun strax að fara að undirbúa það þegar hagvaxtarskeiðinu lýkur eða úr því dregur. Það þarf auðvitað að móta stefnu til framtíðar og að því leyti er auðvitað ánægjulegt að ríkisstjórnin skuli hafa sett sér ákveðið markmið út kjörtímabilið. Það hefur greinilega verið lögð meiri vinna í slíka stefnumörkun en við síðustu fjárlagafrumvörp. Hins vegar skortir mikið á að við fáum að sjá það sem er á bak við þær tölur sem liggja inn í framtíðina. En vonandi munu upplýsingar um það berast okkur fyrr en síðar.

Það er nauðsynlegt að rifja upp að nú höfum við ekki sömu forsendur í hinum mikla talnaleik sem er í kringum fjárlagafrv. og hér á árum áður. Þjóðhagsstofnun hefur verið aflögð og því höfum við nú fyrst og fremst tölur frá þeirri deild í fjmrn. sem skoðar þessar forsendur. Það verður hins vegar að segjast --- og er nauðsynlegt að það komi fram fram --- um þá ágætu deild að prófraun hennar á yfirstandandi ári virðist hafa gengið vonum framar. Við vonum auðvitað að svo verði áfram. Við skulum ekki heldur gleyma því að hagdeildir bankanna hafa einnig verið að birta ýmiss konar spár um framtíðina. Hins vegar er enginn þessara aðila í raun í sömu stöðu og Þjóðhagsstofnun áður fyrr, þ.e. stofnun sem var yfir þetta hafin og gat litið málin hlutleysisaugum.

Í þessu samhengi verður að minna á að þegar umræðan um að leggja niður Þjóðhagsstofnun fór fram þá mátti skilja yfirlýsingar hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. á þá leið að litið yrði til þess að efla Alþingi á þessu sviði. Því miður eru efndirnar á því sviði ansi líkar efndum á ýmsum öðrum sviðum, þ.e. eins og með skattalækkanirnar. Þær virðast standa á sér.

Herra forseti. Það er auðvitað ljóst að það er erfiðara fyrir ríkisstjórnina að stjórna tekjuinnstreymi til ríkissjóðs nema með breyttri skattheimtu. Þróun þeirra mála segir okkur að ríkisstjórnin hafi lagt meiri áherslu á að ná í tekjur af einstaklingum en fyrirtækjum. Það er augljóst mál að í fjárlagafrv. nú er ekki breytt af þeirri leið. Áfram er haldið á þeirri braut.

Það er auðvitað gjaldahliðin sem er miklu frekar á valdi ríkisstjórnar að hafa hemil á og er athyglisvert að útgjaldaaukning hefur verið stöðug af hálfu ríkissjóðs þrátt fyrir að a.m.k. annar ríkisstjórnarflokkurinn hafið boðað, svo lengi sem flestir muna, að dregið skuli úr útgjöldum ríkisins. Til dæmis hefur útgjaldaaukningin án lífeyrisskuldbindinga verið um 60% frá árinu 1998 til áætlaðrar niðurstöðu ársins í ár. Á sama tímabili hafa tekjur aukist um 53%.

[11:30]

Það er athyglisvert að bera það saman hvernig fjárlög standa síðan miðað við raunverulega útkomu, þ.e. þegar búið er að samþykkja fjárlög á Alþingi, og bera það síðan saman við niðurstöður ríkisreiknings. Mismunurinn yrði enn meiri ef við færum að bera reikninginn saman við fjárlagafrv.

Þegar tímabilið frá 1998 til ársreiknings 2002 er skoðað, sem er nýjasti ársreikningur sem við höfum, sést að mismunur á milli fjárlaga og ríkisreiknings er samanlagt um 126 milljarðar þessi ár, eða að meðaltali um 25,2 milljarðar á ári. Ef hins vegar hinar títtnefndu lífeyrisskuldbindingar eru frá dregnar er mismunurinn um 60 milljarðar, eða að meðaltali um 12 milljarðar á ári. Það er raunverulega í þessu sem við getum borið saman hina traustu stjórn ríkisfjármálanna vegna þess að eftir fjárlögum eiga menn auðvitað að fara ef þau eru vandað plagg og það er nauðsynlegt að hafa þann fyrirvara á. En raunin er sú sem ég var að rekja og því miður eru annaðhvort lausatök ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálunum slík að ekki er við neitt ráðið eða að fjárlögin eru ekki nægilega vandaður pappír. Því miður held ég að raunveruleikinn sé blanda af hvoru tveggja.

Það er fróðlegt í þessu samhengi að rifja upp skýrslu sem kom frá Ríkisendurskoðun um fjárlagaferlið fyrir nokkrum árum því þar er bent á býsna athyglisverða hluti. Það kemur okkur að vísu ekki á óvart sem höfum starfað í fjárln. undanfarin ár á hvað þar er bent. Eins og hv. þm. vita búum við við rammafjárlög. Þegar fjárlagafrv. er lagt fram virðist það fyrst og fremst ganga út frá því að þeir rammar sem ákveðnir eru af ríkisstjórn á vordögum skuli standa og ráðherrarnir eru settir hver inn í sinn ramma. Þegar fjárlagafrv. er síðan fram komið virðast rammarnir að mestu úr sögunni. Þetta er niðurstaða Ríkisendurskoðunar. Þetta er ekki endilega og eingöngu mín niðurstaða heldur einnig niðurstaða Ríkisendurskoðunar. Rammarnir halda sem sagt fram að deginum í dag, ef við getum sagt sem svo, þ.e. fram að því að fjárlagafrv. er lagt fram. Auðvitað þekkjum við hvernig allt fer á flot þegar frv. er komið inn í þingið og breytist í meðförum þess sem er út af fyrir sig að sjálfsögðu eðlilegt að gerist vegna þess að vonandi er hægt að bæta frv. frá því það er lagt fram. Hins vegar er auðvitað nauðsynlegt ef við ætlum að starfa eftir rammafjárlögum að rammarnir haldi, þeir séu strax á vordögum settir þannig að þeir séu raunhæfir. Því miður, herra forseti, höfum við fundið það í fjárln. að ýmsir hæstv. ráðherrar virðast hafa lært á þetta ferli, þ.e. þeir taka ýmis mál út fyrir rammana sem hæstv. ráðherrar virðast treysta á að fjárln. sinni og taki inn vegna þess að það sé óhjákvæmilegt. Svona vinnubrögð eru ekki til þess að auka gildi rammafjárlaga.

Ef ég vitna í áðurnefnda skýrslu Ríkisendurskoðunar þá segir þar, með leyfi forseta:

,,Sú heildarsýn og sá agi sem felst í skipulaginu, þ.e. rammafjárlögunum, fer því forgörðum eftir að fjárlagafrv. hefur verið lagt fyrir þing. Stór hluti þeirra útgjaldaaukningar sem jafnan verður í meðförum þingsins á rætur að rekja til tillagna frá ríkisstjórn.`` Herra forseti, frá ríkisstjórn. Þannig að ríkisstjórnin sem sjálf setur rammana tekur ekki meira mark á þeim en svo að þeir fara allir á flot þegar fjárlagafrv. hefur verið lagt fram. Það er því ekki fjárln. sem slík, eins og margir gætu haldið, sem breytir meira og minna frá römmunum heldur er það ríkisstjórnin sjálf sem gerir slíkt. Þessu höfum við áhyggjur af þegar fjárlagafrv. er lagt fram með öllum sínum glæsilegu markmiðum og ekki er laust við að þau séu glæsileg þetta árið eins og oft áður. Við hljótum að vekja athygli á því að því miður er þetta ekki endilega endanleg niðurstaða.

Herra forseti. Ljóst er að síðasta góðærið sem við lifðum var ekki notað til þess að auka jöfnuð í þjóðfélaginu eða til að bæta ríkisreksturinn. Þess vegna er afar brýnt að svo verði á því hagvaxtarskeiði sem fram undan er svo samfélagið verði búið undir slakann sem líklega mun koma í kjölfarið.

Herra forseti. Það er margt sem vekur athygli í því fjárlagafrv. sem nú hefur verið lagt fram. Það er ekki síður athyglisvert í ljósi þeirra kosningaloforða sem ríkisstjórnarflokkarnir gáfu í aðdraganda kosninga. Það er býsna falleg mynd sem birt er í Fréttablaðinu í morgun af fögrum frambjóðendum Sjálfstfl. í einu kjördæmi þar sem meginyfirskriftin er: Lækkum skatta á heimilin. Það er auðvitað eðlilegt að við veltum því fyrir okkur hvað kemur fram í frv. sem lækkar skatta á heimilin.

Gleymum því ekki að hæstv. fjmrh. talaði um að það ætti að lækka skatta þegar fram liði á kjörtímabilið án þess að tilgreina nokkuð um það nema árabilið og heildarmagnið og í langtímastefnumótuninni er verið að fjalla um ýmsar hugmyndir um hvaða skatta skuli lækka, allt kunnuglegar hugmyndir en engar útfærslur. Þegar við skoðum síðan frv. núna, er, eins og fram hefur komið hjá mér áður, farin öfug leið, verið er að auka byrðar á heimili landsins með því frv. sem nú er lagt fram. Þrátt fyrir þetta fagra plakat um það að lækka skatta á heimilin. Það er sem sagt öllu ýtt til framtíðar en byrjað á hinu.

Það er auðvitað eðlilegt að vekja athygli á því að í frv. er gert ráð fyrir að skatttekjur aukist um 6% að nafnverði og sem hlutfall af landsframleiðslu úr 29,2% í 29,3%. En hvaða útgjöld hefur hæstv. fjmrh. boðað að verði lækkuð? Skoðum þau örlítið nánar.

Í fyrsta lagi, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, ætlar ríkissjóður að hætta endurgreiðsluhluta tryggingagjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar launafólks. Það skilar 600 millj. kr. Hagfræðingur Alþýðusambands Íslands túlkar þetta sem hreina og klára kjaraskerðingu hjá launafólki til lengri tíma litið. Sjúkratryggingar eiga að lækka um 750 millj. kr. og hvað er það sem á að lækka? Jú, það er lyfjakostnaður um 450 millj. kr., hjálpartæki um 150 millj. kr., sérfræðilæknisaðstoð um 140 millj. kr. Það er ekki mjög nákvæmlega útlistað í fjárlagafrv. hvernig þessum markmiðum verður náð. Það eru samt nokkur atriði sem er nauðsynlegt að átta sig á. Byrjum á lyfjakostnaðinum. ,,Til að ná fram þeirri lækkun,`` segir orðrétt, með leyfi forseta, ,,verða reglur um greiðsluþátttöku notenda í lyfjakostnaði endurskoðaðar.`` Það á sem sagt að færa þetta, að einhverju leyti a.m.k., yfir á þá sem lyfin nota. Þetta er hins vegar ekki í fyrsta skipti sem svona markmið er sett fram og það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að vissulega hefur lyfjakostnaður vaxið gífurlega á undanförnum árum. Mér er sérstaklega minnisstætt eitt árið, mig minnir að það hafi verið í fjárlögum fyrir árið 2000, að það átti að lækka lyfjakostnað um 1 milljarð. Hver varð niðurstaðan? Hann hækkaði um 1 milljarð þannig að því miður er ekki líklegt að þetta náist fram nema það sé einsettur vilji ríkisstjórnarinnar að sjúklingar þurfi að auka hlut sinn í lyfjakostnaðinum.

,,Varðandi sérfræðilækniskostnaðinn,`` stendur hér, ,,er áformað að hækka komugjöld til sérfræðilækna.`` Enn er það sami hópurinn sem á að skila einhverju meiru í ríkissjóð. Um hjálpartækin segir hér, með leyfi forseta:

,,Áformað að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku ríkisins í öndunargrímum jafnframt því að lengja þann tíma sem liðið getur á milli þess að veita styrki til endurnýjunar á bifreiðakaupum hreyfihamlaðra en hann er nú fjögur ár.``

Það er eðlilegt að spurt sé: Er búið að finna hin breiðu bök í samfélaginu?

Herra forseti. Það er víðar komið við. Það á einnig að hækka komugjöld á heilsugæslustöðvum um 40--50 millj. kr. Ef við höldum okkur við heimilin er enn haldið áfram, hámark vaxtagjalda til útreiknings vaxtabóta lækkar úr 7% af skuldum vegna húsnæðiskaupa í 5,5% af skuldum. Þetta gefur 600 millj. kr. Enn erum við að tala um sama hópinn. Þetta vekur auðvitað sérstaka athygli í ljósi þess að annar stjórnarflokkurinn gerði húsnæðismálin að hvað stærstu málunum í kosningabaráttunni. Ekkert kemur fram í fjárlagafrv. um að það sé á dagskrá á næsta ári að breyta einhverju í þeim efnum nema þessu, lækka vaxtabæturnar. Auka álögurnar á ákveðna hópa í samfélaginu. Það er ekki einu sinni stigið lítið skref í því að lækka stimpilgjöld eða leggja þau af, t.d. í húsnæðislánum, en stimpilgjöldin hafa verið á dagskrá hér til margra ára og ríkisstjórnarflokkarnir yfirleitt lofað að þau yrðu afnumin eða a.m.k. lækkuð.

Að lokum, herra forseti, ætla ég að nefna útgjöld til Atvinnutryggingarsjóðs. Þau skulu lækka líka um 170 millj. kr. vegna þess að nú má ekki greiða atvinnulausum fyrstu þrjá dagana. Ekki er verið að velta því fyrir sér að ná samanburði við aðrar þjóðir í greiðslu atvinnuleysisbóta þannig að þær séu hækkaðar. Nei, herra forseti. Þær skulu lækkaðar og úr þeim dregið.