Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 11:42:50 (44)

2003-10-03 11:42:50# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[11:42]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. fjmrh. að framkvæmdin á bak við þetta álag ríkissjóðs á viðbótarlífeyrissparnaðinn var hugsuð sem hvatning til þess að auka sparnað í samfélaginu. Það er auðvitað alltaf spurning hvenær slík hvatning verður af tekin. Ég hefði haldið að aðstæður nú í samfélaginu væru þannig að það væri eðlilegt að hvetja áfram til sparnaðar sem þessa. En hæstv. fjmrh. er viss í sinni sök og telur að markmiðinu hafi verið náð og ekki þurfi að halda þessari hvatningu áfram.

Herra forseti. Ég lýsi yfir efasemdum um það. Það væri fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvert hlutfallið er af launafólki í landinu sem nýtir sér þennan rétt og að við fengjum síðan að heyra hjá hæstv. ráðherra hvert markmiðið var. Hvað vildu menn að stór hluti af launafólkinu legði til hliðar á þennan hátt?

Herra forseti. Það sem fram kom hjá hagfræðingi Alþýðusambands Íslands þegar hann talaði um þetta sem hreina og klára kjararýrnun litið til langs tíma var auðvitað að hann og fleiri óttast að þetta sé enn eitt sem þurfi að sækja í kjarasamningum, það sé leiðin sem nú eigi að stunda af hálfu ríkisstjórnarinnar, að lofa eða koma ýmsu í gang og taka síðan til baka en þegar kemur að kjarasamningum verði menn að berjast aftur fyrir hlutunum. Það er ljóst að launafólk, ef af þessu verður, mun væntanlega reyna að viðhalda því álagi sem er og þá mun það væntanlega í samningum lenda á atvinnulífinu. Herra forseti, ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir þessi leið ekki viðkunnanleg.