Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 11:44:44 (45)

2003-10-03 11:44:44# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[11:44]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum áður beitt sérstökum örvunaraðgerðum til þess að ná fram markmiðum úti á markaðnum sem æskileg hafa verið talin. Ég nefni það að við vorum í mörg ár með sérstakan skattafslátt vegna hlutabréfakaupa. Það varð til þess að örva hlutabréfamarkaðinn og gera hann meira aðlaðandi fyrir venjulegt fólk. Þessi ívilnun er núna brott fallin vegna þess að hún var búin að ná sínu markmiði og því ástæðulaust að borga með slíkum ráðstöfunum nokkur hundruð millj. kr. úr ríkissjóði á hverju ári. Þetta er sambærilegt að því leyti til að hér hefur markmiðið náðst og þessi ráðstöfun, sem í eðli sínu er hugsuð sem tímabundin ráðstöfun, hefur gert sitt gagn. Þess vegna er ekkert athugavert við það að hverfa frá henni núna. En munurinn er þó sá gagnvart hlutabréfaafslættinum að frá því að þetta var sett í gang upphaflega hefur verið samið í kjarasamningum um sjálfstætt framlag atvinnurekenda til viðbótar því sem launamaðurinn leggur fram. Staðan er því miklu betri fyrir launamanninn núna en hún var 1999 hvað þetta varðar. Það fer meira inn á viðbótarlífeyrissparnaðarreikninginn hans núna heldur en þegar við byrjuðum á þessu. Hvort tveggja er svo skattfrjálst, bæði hjá launþega og atvinnurekanda, þannig að hér hefur þetta heppnast vel og þá eiga menn ekki að vera svo fastir í farinu að segja: Þetta er orðið varanlegt. Ríkið á að borga niður þennan sparnað áfram. Ég tel að það sé alrangt.

Hvað varðar fjölda þeirra sem taka þátt í þessu hef ég það ekki á takteinum en það er orðinn, held ég, verulegur meiri hluti launamanna en þó ekki allir. Það eru ekki allir sem hafa kosið að gera þetta, því miður. Okkur ber að sjálfsögðu að efla hinn þjóðhagslega sparnað og sparnaðarvilja fólksins í landinu en þetta mál er núna orðið aukaatriði í því og við eigum ekki að leggja 500 millj. á ári lengur í það. Við eigum að nota þá peninga í annað eins og lagt er til í þessu frv.