Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 11:54:36 (51)

2003-10-03 11:54:36# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[11:54]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú mælt fyrir fyrsta fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Umfjöllun um frv. til fjárlaga setur jafnan mikinn svip á störf Alþingis á hverju haustþingi, enda felur það í sér pólitíska stefnumótun ríkisstjórnarinnar í einstökum málaflokkum. Fjárlögin eru líka grundvallarlagasetning um rekstur og starfsemi ríkisins á hverju ári og hafa mikil áhrif á þjóðlífið og snerta hagsmuni hvers einasta Íslendings á einn eða annan hátt.

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis er gert ráð fyrir að lokaumræða um fjárlagafrv. fari fram 5. desember nk. og er það fyrr en áður. Það er kostur að ljúka umfjöllun um fjárlagafrv. sem fyrst fyrir upphaf þess fjárlagaárs sem frv. fjallar um. Það er mikilvægt fyrir alla aðila að vita tímanlega um niðurstöðu fjárlaga svo þær forsendur sem þau fela í sér séu ljósar með góðum fyrirvara þannig að m.a. sé sem best svigrúm fyrir frágang rekstraráætlana stofnana og þeirra starfsáætlana sem aðilar þurfa að ljúka fyrir upphaf fjárlagaársins. Til þess að starfsáætlun Alþingis gangi eftir er ljóst að fjárln. og allir þeir aðilar sem koma að umfjöllun um frv. þurfa að vinna markvisst og vel á þeim tíma sem fram undan er á þessu haustþingi.

Herra forseti. Ríkisstjórnir Framsfl. og Sjálfstfl. hafa verið við völd allt frá árinu 1995. Það er rétt að rifja það upp að þegar þessir flokkar mynduðu fyrstu ríkisstjórnina árið 1995 var að mörgu leyti mjög erfitt ástand hér á landi. Slæm staða var í atvinnumálum og hafði atvinnuleysi verið viðvarandi í nokkrum mæli. Ríkissjóður hafði verið rekinn með halla í of mörg ár, hér hafði varla verið nokkur hagvöxtur og þaðan af síður hafði kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist að neinu marki.

Valdatími stjórnarflokkanna allt frá árinu 1995 hefur einkennst af skýrum markmiðum og aðgerðum sem hafa miðað að því að bæta efnahagslega stöðu. Það hefur m.a. falist í því að efla atvinnulífið og fjölga störfum í þjóðfélaginu, og ekki hvað síst að skapa og viðhalda efnahagslegum stöðugleika með ábyrgri stjórn ríkisfjármála. Það hefur tekist vel eins og allar hagtölur sýna.

Á undanförnum árum hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist mikið, hagvöxtur hefur verið viðvarandi að mestu og verðlag hefur verið stöðugra en áður hefur þekkst í svo langan tíma. Við Íslendingar erum nú ein allra ríkasta þjóð í heimi og við búum við betri lífskjör en allflestar þjóðir.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 2004 birtast sömu markmið og áður. Stjórnarflokkarnir ætla sér að viðhalda góðum efnahagslegum árangri, niðurstöður frv. fela það í sér. Samhliða fjárlagafrv. hefur verið lögð fram þjóðhagsspá þar sem m.a. er gerð grein fyrir spá og markmiðum varðandi ríkisfjármál næstu fjögur árin. Fram kemur að gert er ráð fyrir áframhaldandi bættum hag ríkissjóðs og þjóðarbúsins í heild. Það er mikilvægt markmið að vinna að því að allt gangi þetta eftir enda felur það í sér hagsmuni alls almennings í landinu.

Fram undan eru mikil umsvif í hagkerfinu og því er mikilvægt að festa verði í hagstjórninni. Hagspekingar hafa lagt áherslu á gott aðhald í ríkisfjármálum á næstu árum og að afgangur fjárlaga verði sem mestur til þess að hamla gegn óæskilegum þensluáhrifum og meðfylgjandi óáran í efnahagsmálum. Sjónarmið hagspekinganna um hversu mikill rekstrarafgangur ríkissjóðs þurfi að vera til að tryggja hagstjórnina eru nokkuð mismunandi en meginsjónarmiðin eru samhljóma. Markmið stjórnarflokkanna eru skýr í þessum efnum og samrýmast þessum sjónarmiðum.

Eins og fram hefur komið gerir fjárlagafrv. ráð fyrir rekstrarafgangi sem nemur 6,4 milljörðum kr., sem eru 0,75% miðað við landsframleiðslu. Það liggur fyrir að í forsendum fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir stækkun Norðuráls og virkjunarframkvæmdum sem tengjast því á árinu 2004 né heldur er gert ráð fyrir sölu ríkiseigna. Það er eðlilegt að forsendur frv. séu með þessum hætti þar sem ekkert staðfest liggur fyrir í þessum efnum. Þannig eru varfærnissjónarmið látin ráða ferðinni hvað varðar tekjuþátt frv., og er það vel.

[12:00]

Niðurstaða frv. felur það í sér að stjórnarflokkarnir fylgja eftir meginmarkmiðum sínum sem miða að því að viðhalda jafnvægi í fjármálum ríkisins og tryggja efnahagslegan stöðugleika. Ef miðað er við fjárlög ársins 2003 er um verulegan afkomubata að ræða í fjárlagafrv. 2004. Í því sambandi má m.a. nefna breytingar á tekjuafgangi án óreglulegra liða en þar er um að ræða afkomubata sem nemur um 13 millj. kr. milli ára.

Herra forseti. Um rekstur ríkissjóðs á það sama við og allan annan rekstur hvort sem um er að ræða heimilin eða atvinnufyrirtækin. Það er mikilvægt til framtíðar að halda skuldum í lágmarki. Stjórnarflokkarnir hafa á valdatíma sínum haft það sem eitt megin- og forgangsmarkmið að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Samkvæmt upplýsingum sem fylgja fjárlagafrv. kemur í ljós að með aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum undanfarin ár hefur tekist að lækka skuldirnar mikið. Gert er ráð fyrir að halda áfram á sömu braut á næsta ári. Þessi áhersla á niðurgreiðslu skulda er ekki síst til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir og er það sérstakt fagnaðarefni.

Við þekkjum þá einföldu staðreynd að miklum skuldum fylgir mikil vaxtabyrði. Samhliða miklum niðurgreiðslum á skuldum ríkisins undanfarin ár hefur náðst sá árangur að vaxtakostnaður ríkissjóðs hefur lækkað mikið að raungildi. Í samræmi við áform um niðurgreiðslu skulda árið 2004 er gert ráð fyrir að í lok þess árs verði mismunur á vaxtatekjum ríkissjóðs og vaxtagjöldum nánast enginn. Hér er um mjög ánægjulega staðreynd að ræða og út frá þessum forsendum má ætla að næstu árin eftir árið 2004 verði vaxtajöfnuðurinn orðinn jákvæður, þ.e. vaxtatekjurnar verða meiri en þeir vextir sem ríkissjóður þarf að greiða. Í rekstri ríkissjóðs þýðir þetta að skattpeningarnir nýtist til annarra og að flestra mati brýnni málefna en að borga vexti vegna skulda ríkisins.

Eftir nokkurra ára hagvaxtarskeið varð samdráttur á árinu 2002. Fyrir nokkrum árum var mikið um það rætt hvernig okkur tækist að lenda eftir flugið á hagvaxtarskeiðinu þegar kæmi til samdráttar. Stjórnarandstaðan var sannfærð um að um brotlendingu yrði að ræða og haldnar voru innblásnar ræður m.a. hér á Alþingi í véfréttastíl í þeim efnum. Þar var öllu spáð í kaldakol. En eins og staðan er nú blasir við nýtt hagvaxtarskeið og má halda því fram að með styrkri stjórn ásamt góðu samstarfi við aðila í þjóðfélaginu hafi orðið snertilending eins og hæstv. fjmrh. hefur gjarnan nefnt það en ekki brotlending eins og stjórnarandstaðan sá fyrir sér. Hins vegar er alveg ljóst að við verðum að halda vel á málum næstu árin og haga hagstjórninni þannig að við verðum vel undir það búin að bregðast við þegar merki koma fram um næstu niðursveiflu sem við hljótum að gera ráð fyrir að verði eftir einhver ár.

Sú nýjung kemur fram í fjárlagafrv. að þar er gerð grein fyrir stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum til ársins 2007. Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og markar tímamót í vinnubrögðum við hagstjórn hér á landi. Með þessu er verið að styrkja trúverðugleika efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og stuðla að áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu. Í þeirri stefnumörkun koma fram skýr markmið um aðgerðir til að ná þeim árangri sem stefnt er að.

Við munum flest eftir þeim tíma þegar hér geisaði verðbólga sem gerði það m.a. að verkum að ekki var nokkur leið að standa að rekstri stofnana og atvinnufyrirtækja á þann hátt sem við nú þekkjum. Þá kom verðbólgan mjög illa niður á rekstri heimilanna í landinu svo eitthvað sé nefnt. Við höfum haft það sem meginmarkmið að halda niðri verðbólgunni eftir að tókst að ná tökum á henni um og upp úr 1990. Við viljum forðast verðbólguna eins og sjálfa pestina. Í stefnumörkun og spánni sem fylgir fjárlagafrv. kemur fram að gert er ráð fyrir að verðlagsþróun verði nokkuð stöðug næstu ár og í samræmi við þau verðbólgumarkmið sem Seðlabankinn miðar við. Það ásamt hóflegum kauphækkunum eru helstu forsendur fyrir þeim efnahagslega stöðugleika sem leggur grundvöll þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna vaxi enn frekar.

Í áætlunum fyrir næstu ár er gert ráð fyrir að kaupmátturinn vaxi áfram jafnt og þétt en það er sá þáttur sem skiptir hvað mestu máli fyrir launafólkið og almenning í landinu.

Sá málaflokkur sem gjarnan tekur hvað mest rúm í umræðunni um ríkisfjármál eru heilbrigðis- og tryggingamál. Það liggur fyrir að á undanförnum allmörgum árum hafa framlög til þessa málaflokks aukist mjög mikið og í samanburði við önnur lönd eru útgjöld til heilbrigðismála hærri hér en í flestum öðrum nágrannalöndum okkar ef miðað er við hlutfall af landsframleiðslu. Í áætlun til næstu fjögurra ára er gert ráð fyrir að útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála aukist um 2,4% að meðaltali á ári og gert er ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðismála aukist um 2,8% að meðaltali á ári. Við þekkjum þá umræðu sem fer fram nánast á hverju ári að svo og svo mikið fjármagn vanti til þess að brúa bil í rekstri heilbrigðisstofnana þrátt fyrir að framlög í málaflokkinn hafi aukist mjög undanfarin ár. Ég tel ljóst að við verðum að komast til botns í því hverju þetta sætir og hvað sé til ráða. Eflaust má nefna margt til í þessu sambandi. Ýmsar ástæður eru fyrir þessu og margar hugmyndir um hvernig best sé að leysa málið. En án þess að fara ítarlega í þá umræðu nú nefni ég tvennt sem mér finnst skipta máli í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi tel ég að sú breyting sem gerð var fyrir nokkrum árum, að hverfa frá miðstýrðum kjarasamningum yfir í stofnanasamninga, hafa ekki gengið eftir eins og til var stofnað. Því miður er það svo að þessi aðferð hefur leitt til meiri hækkunar á launakostnaði fyrir viðkomandi stofnanir og þar með ríkissjóð en gert var ráð fyrir. Það hefur m.a. valdið vanda í rekstri stofnananna. Fjárheimildir hafa ekki dugað til að mæta auknum kostnaði og það hefur gjarnan endað með því að veittar eru sérstakar fjárheimildir til að mæta svonefndum rekstrarvanda heilbrigðisstofnana. Launakostnaðurinn er mjög hátt hlutfall af rekstrarkostnaði heilbrigðisstofnana og því mikilvægt að vel takist að halda utan um framkvæmd kjarasamninga og útfærslu þeirra.

Í öðru lagi vil ég nefna nánast stöðuga og mikla hækkun á lyfjakostnaði hjá heilbrigðisstofnunum og hjá hinu opinbera almennt. Það er lykilatriði að árangur náist við að virkja samkeppni meðal þeirra sem selja stofnunum lyf með það að markmiði að koma böndum á þennan stóra útgjaldalið heilbrigðiskerfisins.

Herra forseti. Ég vil víkja að aðstöðu fjárln. til vinnu við fjárlagafrv. Ljóst er að mikill þrýstingur er á aukin útgjöld umfram það sem frv. gerir ráð fyrir. Ég hef orðið mjög var við þetta bæði í störfum mínum sem formaður nefndarinnar og eins hefur þetta komið fram í þeirri umfjöllun sem orðið hefur í nefndinni að undanförnu. Ég þykist viss um að einstakir fulltrúar í fjárln. hafi einnig orðið varir við þetta. Það er jafnljóst að mikið af þeim erindum sem þegar hafa borist nefndinni og munu berast á næstunni er varða útgjöldin eru ágætlega rökstudd og alveg ljóst að lítið mál er að ráðstafa mun meiri fjármunum en til ráðstöfunar eru. Hins vegar verðum við að hafa það meginsjónarmið ríkjandi að halda vel utan um og vinna að þeim markmiðum um niðurstöðu fjárlaga sem lagt er upp með.

Ég hef í máli mínu m.a. rætt um skuldastöðuna og útgjöld vegna vaxtakostnaðar og mikilvægi þess að við stöndum undir ábyrgð okkar ef litið er til hagstjórnarinnar almennt og er þá m.a. vísað í rekstrarafgang ríkissjóðs.

En hvað varðar fjárlagaferlið, þ.e. þá verkferla sem unnið er eftir í vinnslu frv., þá hef ég þegar lagt upp með það í fjárln. að við notum tímann næsta árið til að skoða alla verkferla og verkefni nefndarinnar með gagnrýnum augum. Sú vinna er þegar hafin og miðar að því að bæta skilvirkni í starfinu og öll vinnubrögð séu sem best. Ef ástæða þykir til verða á næsta ári gerðar tillögur um breytingar á verkferlum og vinnubrögðum sem miða að þessu marki. Við munum eiga um þetta samstarf við hina ýmsu aðila innan þings og utan jafnframt því sem við munum afla upplýsinga um það með hvaða hætti málum er fyrir komið í þjóðþingum nágrannalanda okkar. En auk þess munum við leita til OECD þar sem fram hefur farið mikil umfjöllun um þessi mál að undanförnu og ekki útilokað að við getum á einhvern hátt hagnýtt það sem þar liggur fyrir.

En verkefni fjárln. eru ekki einungis bundin við að taka við fjárlagafrv. úr hendi hæstv. fjmrh., fjalla um það og skila fullbúnu til afgreiðslu á hv. Alþingi. Ekki síður mikilvægt hlutverk nefndarinnar felst í að fylgjast með framvindu fjárlaga hverju sinni og veita framkvæmdarvaldinu ákveðið aðhald til þess að fjárlög haldi. Ég lít á eftirlitshlutverk fjárln. sem mikilvægan þátt í starfsemi Alþingis sem löggjafar- og framkvæmdarvalds og fjárveitingavalds. Því verður að taka þetta hlutverk alvarlega og beita þeim tækjum sem tiltæk eru til þess að rækja það, t.d. í samstarfi við Ríkisendurskoðun sem gerir gjarnan sérstakar athuganir á einstökum þáttum í ríkisrekstrinum og skilar um það skýrslu. Ég tel að það eigi að vera eitt af verkefnum fjárln. að taka slíkar skýrslur til umfjöllunar með einhverjum hætti. Allt miðar þetta að því að halda festu í rekstri ríkissjóðs og tryggja sem best að hin mikilvægu markmið hagstjórnarinnar náist hverju sinni.

Fjárlaganefnd hefur brugðist við þessum áformum á jákvæðan hátt og hafa fulltrúar í nefndinni sýnt þessu verkefni mikinn áhuga og ég vænti góðs samstarfs við félaga mína í nefndinni og starfsmenn okkar um þetta verkefni.

Herra forseti. Nú fer fram 1. umr. um fjárlagafrv. Að venju er sú umræða meira á almennum efnahagslegum nótum en í smáatriðum um einstaka liði frv. enda hefur fjárln. aðeins haft svigrúm til að stíga sín fyrstu skref í umfjöllun um frv. Ég mun því láta nánari umfjöllun um einstaka þætti frv. bíða til 2. umr. eftir að fjárln. hefur tekið það til efnislegrar umfjöllunar. Ég vænti góðs samstarfs í fjárln. við umfjöllun um frv. næstu vikurnar. Fram undan er annatími í störfum nefndarinnar og því er mikilvægt að okkur takist að vinna vel og markvisst þannig að starfsáætlanir gangi eftir.